Afmælismánuður Menntavísindasviðs

Á afmælisári Háskóla Íslands er septembermánuður tileinkaður menntavísindum. Menntavísindasvið stendur fyrir fjölmörgum spennandi viðburðum og fyrirlestrum í mánuðinum. Dagskráin hefst þann 1. september með öndvegisfyrirlestri Dr. Lindu Darling-Hammond prófessors í menntavísindum við Stanford háskóla.

Opið hús og opinn dagur
Laugardaginn 3. september verður Opinn dagur á Laugarvatni þar sem nemendur og kennarar taka á móti gestum og bjóða upp á fræðslu um mataræði og hreyfingu, farið verður í gönguferðir og margt fleira. Þá verður Opið hús í húsnæði Menntavísindasvið við Stakkahlíð laugardaginn 17. september. Opna húsið er í samvinnu við leik-, grunn- og framhaldsskóla og aðrar stofnanir sem Menntavísindasviðs tengist. Skólarnir kynna þau fjölbreyttu verkefni og það gróskumikla starf sem unnið er í skólum landsins auk þess sem boðið verður upp á listasmiðjur. Dagurinn er ætlaður allri fjölskyldunni.

Fyrirlestrar og ráðstefnur
Fjölmargir fyrirlestrar verða í boði í mánuðinum s.s. fyrirlestrar prófessors Bengt Saltin um hreyfingu og heilsu, Dr. Catherine Snow um Word Generation og Dr. Alistair Ross prófessors emeritus um pólitík í kennslu. Þá flytur Dr. Ingvar Sigurgeirsson fyrirlesturinn Hvernig kenna góðir kennarar? þar sem hann leitast við að bregða upp svipmyndum af minnisstæðum kennslustundum úr reynslubanka sínum og tengja þær hugmyndum um góða kennslu. Dr. Jón Torfi Jónasson flytur fyrirlestur um menntun til framtíðar þar sem hann horfir 25 ár fram á veg.

Ráðstefna ENIRDELM (European Network for Improving Research and Development in Educational Leadership and Management)verður haldin dagana 22.-24. september í húsnæði Menntavísindasviðs. ENIRDELM eru evrópsk samtök fræðimanna og starfenda á sviði stjórnunar og forystu í menntamálum.

Dagskrá Menntavísindasviðs í septembermánuði lýkur svo með Menntakviku - árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs þann 30. september. Megintilgangur ráðstefnunnar er að skapa mennta- og uppeldisstéttum vettvang til að kynnast nýbreytni í rannsókna og þróunarstarfi sem unnið er í skólum landsins og innan háskólaumhverfisins.

Á ráðstefnunni eru kynntar fjölbreyttar rannsóknir m.a. á fjölmenningu, sjálfbærni, læsi, þroska, skóla án aðgreiningar, stærðfræðimenntun, tungumálakennslu og íþróttum.

Heimsóknir í skóla og stofnanir
Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Jón Torfi Jónasson forseti Menntavísindsviðs heimsækja leikskóla þann 5. september og marka þar með upphaf heimsókna kennara við Menntavísindasvið í skóla og stofnanir tengdar sviðinu í afmælismánuðinum. Markmiðið er að efla enn frekar tengsl Menntavísindasviðs við vettvanginn.

Skólaganga
Þann 10. september leiðir Helgi Skúli Kjartansson, prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands, gönguferð um slóðir menntunar og fræðslu í höfuðborginni. Gönguferðin hefst kl. 14.00 gatnamót Pósthússtrætis og Hafnarstrætis þar sem Barnaskóli Reykjavíkur var áður til húsa.

Dr. Linda Darling-Hammond - Öndvegisfyrirlesari Menntavísindasviðs
Dr. Darling-Hammond er mikilvirkur rannsakandi, hefur skrifað yfir 300 greinar og fjölda bóka um menntastefnu, framkvæmd hennar, um nám og skólastarf, skipulagsbreytingar í skólum, kennaramenntun og jafnræði í menntun. Hún á sæti í ritstjórnum fjölmargra tímarita, hefur verið forseti bandarísku menntarannsóknasamtakanna og tekur virkan þátt í ráðum og nefndum um menntamál.

Dr. Darling-Hammond hóf feril sinn sem kennari, en varð fljótlega ráðgjafi og rannsakandi. Hún var Barack Obama Bandaríkjaforseta til ráðgjafar um menntamál í kosningabaráttu hans um forsetaembættið. Hún hefur þegar hlotið heiðursdoktorsnafnbót við fjölda háskóla og fengið margvíslegar viðurkenningar aðrar.

Dr. Darling-Hammond heldur fyrirlestur sinn í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu fimmtudaginn 1. september kl. 15. Heiti fyrirlestursins er Teaching and Learning for the 21st Century. Fyrirlesturinn er á ensku og öllum opinn meðan húsrúm leyfir.

Sjá nánar um einstaka viðburði

deila á facebook