Aldrei fórna meira fyrir minna

Brynhildur Davíðsdóttir.

Brynhildur Davíðsdóttir situr á hlýrri skrifstofu sinni á köldum en fallegum janúarmorgni. Hún hefur í nógu að snúast því hún er umsjónarmaður framhaldsnáms í umhverfis- og auðlindafræði, þverfaglegu framhaldsnámi sem öll svið Háskóla Íslands eiga aðild að. Brynhildur kemur við sögu í nýjum vísindaþætti sem sýndur verður á RUV í haust.

Brynhildur brosir með öllu andlitinu þegar talið berst að viðamiklu fjögurra ára verkefni undir hennar leiðsögn um þjónustu náttúrunnar. „Við vitum að samfélag manna er umlukið því sem við köllum náttúruauð. Hann gefur af sér margvíslegar afurðir og þjónustu sem maðurinn nýtir með beinum eða óbeinum hætti í sínu sértæka hagkerfi. Þessar afurðir köllum við venjulega þjónustu náttúrunnar.“

Heiðmörk var valin sem rannsóknarvettvangur, enda eitt stærsta náttúruverndar- og útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Við efnahagslegt mat á virði náttúrunnar er það virði þjónustunnar sem er metið. Beina þjónustan tengist til dæmis notkun efna og orku. Óbeina þjónustan er minna sýnileg en ekki síður mikilvæg en undir hana fellur til dæmis miðlun og hreinsun vatns, viðhald næringarefna í jarðvegi og viðhald líffræðilegrar fjölbreytni.

Brynhildur bendir á að auk alls þessa veiti náttúran okkur ómælda lífshamingju í gegnum tómstundagildi, fræðslugildi, menningargildi og tilvistargildi. „Við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir virði þess að staldra aðeins við og njóta. Það er ekki ónýtt að geta farið í Heiðmörkina til að tína ber, veiða fisk eða grilla með fjölskyldu og vinum. Svæði sem þetta er gríðarlega verðmætt.“

Brynhildur segir lífsnauðsynlegt að taka þjónustu náttúrunnar og áhrif framkvæmda á hana með í reikninginn þegar stórar og smáar ákvarðanir eru teknar. „Það verður að vera hægt að auka velferð á Íslandi án þess að ganga á þjónustu náttúrunnar. Einnig viljum við meta það álag sem neysla Íslendinga hefur á framleiðni jarðarinnar í gegnum hið svokallaða vistspor, en það mælir hversu mikið af náttúrulegum gæðum jarðar mannkynið notar í neyslu sína.

Vistspor Íslendinga er það stærsta í heiminum. „Niðurstöður okkar sýna að ef allir jarðarbúar myndu haga sér eins og Íslendingar þyrfti að minnsta kosti sex jarðir til að standa undir neyslunni, að undanskildum sjávarútveginum. Ég tel skýringuna á þessu vera gegndarlausa neyslu Íslendinga á innfluttum vörum, sem við losum okkur við eftir stutta notkun.“

Brynhildur heldur áfram og segir að mikilvægt sé að beina allri umræðu um hagvöxt, þróun og velferð í átt að fórnarkostnaðinum. Þjóðhagslegur ábati framkvæmda af hvaða tagi sem er verður að vera meiri en kostnaðurinn. Þegar verðmæti þjónustu náttúrunnar er metið er hægt að sjá hvort meiru sé fórnað fyrir minna.

Að lokum segir Brynhildur að eitt markmiða verkefnisins sé að náttúran verði tekin með í reikninginn í framtíðinni. „Við höfum safnað í stóran upplýsingabanka og úr þessu verkefni mun fjöldinn allur af fræðigreinum líta dagsins ljós sem meistara- og doktorsnemar hafa unnið. Lokamarkmiðið er að setja saman bók fyrir íslenskan almenning þar sem við lýsum mikilvægi þjónustu náttúrunnar. Vonandi stuðlum við að betri framtíð með þessu verkefni.“

deila á facebook