Eru álfar kannski menn?

Þjóðfræði kemur við sögu í vísindaþættinum Fjársjóður framtíðar þar sem við heyrum hljóðið í Terry Gunnel, prófessor í þjóðfræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands.

Að sögn Terrys Gunnell heyrir þjóðfræði í senn til hug- og félagsvísinda, enda fjalla þjóðfræðingar jöfnum höndum um aðstæður fólks og samfélag á hverjum tíma og svo tjáningu þess, listfengi og fagurfræði hversdagsins. Gunnell segir að á meðal viðfangsefna þjóðfræðinnar séu sögur og sagnir, heimilis- og atvinnuhættir, trú og tónlist, siðir og venjur, hátíðir og leikir, auk klæðnaðar og matarhátta. 

Í vísindaþættinum ræðum við tilvist álfa við Terry, en Íslendingar eiga að hans sögn erfitt með að neita tilvist þeirra. Terry fjallar um nýlega rannsókn á þessu atriði. 

Terry Gunnell er sérfróður um íslenska álfa, þjóðsögur og alþýðumenningu og býr ekki einungis yfir mikilli þekkingu á þessum sviðum heldur hefur hann einstaka frásagnargáfu. 

Sú námsleið sem Gunnell fer fyrir, þjóðfræðin, er í hópi þeirra sem hvað mest hafa vaxið í Háskóla Íslands síðustu misserin. 

„Í þjóðfræðinni er áhersla lögð á hvernig fólk mótar líf sitt og umhverfi við kringumstæður sem það hefur ekki mótað sjálft og hvernig fólk lifir í samfélagi hvert við annað í þeim margvíslegu hópum sem það tilheyrir,“ segir Terry Gunnell. 

Þess má geta að Konunglega sænska alþýðumenningarakademían veitti Terry Gunnell,  sérstaka viðurkenningu fyrir nokkru fyrir framlag hans til rannsókna á sviði þjóðsagna og dulbúningasiða.  Gunnell fékk verðlaunin úr sjóði kenndum við Jöran Sahlgren. Sjóðurinn verðlaunar vísindamenn fyrir framúrskarandi fræðimennsku í norrænum örnefnafræðum, mállýskum og þjóðsögum. Konunglega sænska alþýðumenningarakademían var stofnuð árið 1932 en meginhlutverk hennar er að efla rannsóknir og útgáfu rita á sviði alþýðumenningar.

 

deila á facebook