Eru menn ábyrgir orða sinna á Facebook?

Eru menn ábyrgir orða sinna á Facebook? Laganemar setja á svið réttarhöld þar sem ummæli á Facebook verða m.a. tekin fyrir.

Á opnu húsi Lagadeildar þann 27. október frá 12:00- 17:30 verður áhersla lögð á kynningu á starfsemi deildarinnar fyrir almenning ásamt því að hátíðarmálþing Úlfljóts, tímarits laganema – Réttarheimspeki og lög verður haldið. Sérstök athygli er vakin á því að laganemar munu setja á svið réttarhöld þar sem ummæli á Facebook verða m.a. tekin fyrir. Eru menn ábyrgir orða sinna á Facebook? Jón Örn Árnason, laganemi, var tekinn tali á afmælisvef skólans. 

Þjálfun laganema í málflutningi 

„Það er hluti af félagslífi Orators, félags laganema, að bjóða upp á fræðandi félagsstarf. Innan félagsins er starfrækt embætti dómstjóra Lögbergsdóms. Hlutverk dómstjóra er að halda sýndarréttarhöld með það að markmiði að þjálfa laganema í málflutningi, segir Jón Örn og bætir við að af tilefni 100 ára afmæli Háskóla Íslands og opna degi lagadeildar hafi laganemum þótt tilvalið að virkja þennan þátt félagslífsins til að velta upp áhugaverðum álitaefnum.

„Ég gegni embætti dómstjóra í vetur og í samstarfi við Maríu Thejll, kennara í lagadeild og Sigurð Gústavsson, formann Orators var ákveðið að hafa álitaefni sem væri í deiglunni. Þar sem réttarhöldin eru ætluð almenningi var ákveðið að deiluefnið væri eitthvað sem allir gætu tengt sig við. Með tilkomu internetsins og samskiptasíðna á borð við Facebook er almenningi gert kleift að birta opinberlega ummæli á tiltölulega einfaldan máta,“ segir Jón Örn og bætir við að ekki sé víst að fólk átti sig almennt á því að hvaða marki það er ábyrgt vegna ummæla sinna og afleiðingum birtingar þeirra á Internetinu.„Í réttarhöldunum munu þrír laganemar taka að sér hlutverk dómara og tveir nemar taka að sér málflutningsumboð fyrir hvorn aðila,“ segir Jón Örn að lokum. 

Hér er hægt að sjá dagskrá Opna dagsins í heild sinni, en hann verður haldinn í Lögbergi. 

deila á facebook