Evrópuvefurinn opnar í dag

Evrópuvefurinn
Ásta Ragnheiður, forseti Alþingis, hélt stutta tölu við opnunarathöfn Evrópuvefsins.

Þann 4. maí síðastliðinn gerðu Vísindavefur Háskóla Íslands og Alþingi með sér samning um uppsetningu og rekstur upplýsingavefs um Evrópusambandið og Evrópumál. Evrópuvefurinn var opnaður formlega á Háskólatorgi í dag.

Tilgangur Evrópuvefsins er að veita veita málefnalegar og óhlutdrægar upplýsingar um Evrópusambandið og Evrópumál og verður uppsetning og framsetning efnis með svipuðu móti og á Vísindavefnum. Á vefnum verður hægt að spyrja spurninga um allt sem viðkemur Evrópusambandinu og Evrópumálum. Starfsmenn vefsins munu svara spurningunum ýmist sjálfir eða leita til fræðimanna á viðkomandi sviði.

Aðalritstjóri Evrópuvefsins er Þorsteinn Vilhjálmsson prófessor emeritus í vísindasögu og eðlisfræði, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010. Aðrir starfsmenn eru Vilborg Ása Guðjónsdóttir MA í alþjóðasamskiptum og Þórhildur Hagalín MA í Evrópufræðum. Í ritstjórn eru auk ritstjóra þau Erna Bjarnadóttir hagfræðingur, Margrét Einarsdóttir lögfræðingur og Sverrir Jakobsson sagnfræðingur. Framkvæmdastjóri Evrópuvefsins er Jón Gunnar Þorsteinsson ritstjóri Vísindavefsins. Vefstjóri Evrópuvefsins er Guðmundur Daði Haraldsson.

Á vefsetri Evrópuvefsins er nú þegar talsvert efni til að skoða og yfirleitt verður bætt við nokkrum svörum á hverjum virkum degi. Veffangið er http://evropuvefur.is/.

deila á facebook