Fjölbreyttur Félagsvísindasviðsmánuður

Sif Sigfúsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Félagsvísindasviðs.

Októbermánuður er mánuður Félagsvísindasviðs á afmælisári Háskóla Íslands, en einn mánuður er tileinkaður hverju fræðasviði og mun Félagsvísindasvið ljúka afmælisárinu með viðburðum í október.

Sif Sigfúsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Félagsvísindasviðs, segir dagskrána vera afar fjölbreytta og að boðið verði upp á fjölda viðburða í tilefni afmælisins. „Einnig munu margir viðburðir fara fram utan háskólasavæðisins, t.d. verða viðburðir á Austurvelli, í Þjóðminjasafni og á Hallveigarstöðum svo dæmi séu tekin. Nokkrar stórar ráðstefnur verða á vegum sviðsins í mánuðinum en aðalfyrirlesari í afmælismánuðinum er dr. Robert David Putnam sem mun flytja erindi í Hátíðasal þann 3. október,“ segir Sif. Hér má nálgast nánari upplýsingar um erindi dr. Putnam

Á fræðasviðinu eru sex deildir sem allar taka virkan þátt í afmælisárinu: Félags- og mannvísindadeild, Félagsráðgjafadeild, Lagadeild, Hagfræðideild, Viðskiptafræðideild og Stjórnmálafræðideild. Sif gaf stutt yfirlit yfir þá viðburði sem í boði verða.

  • Félags- og mannvísindadeild hefur boðið Dr. Daniel Miller til landsins og mun hann fjalla um Facebook sem hluta af mannfræði. Þá býður deildin upp á Tjaldspjall á Austurvelli þar sem gestum og gangandi er boðið að kynna sér nám við deildina, þiggja kaffi og kleinur og kanna áhugasvið sitt.
  • Félagsráðgjafardeild heldur m.a. upp á 30 ára kennsluafmæli félagsráðgjafar á Íslandi og mun standa fyrir málþingi í Öskju af því tilefni. Þá mun deildin bjóða upp á málstofu þar sem fléttað er saman fyrirlestri og ljósmyndum um börn, vinnu og feður.
  • Lagadeild býður upp á opið hús. Þar verður gefin verður innsýn í grunngreinar lögfræðinnar sem varða flesta þætti mannlegs lífs og þar verða laganemar með sýndarréttarhöld í Lögbergsdómi. Þá verður Lagadeild með fyrirlesturinn: „Sambúð eða hjónaband – hver er munurinn?“ þar sem skoðaður er grundvallarmunur á réttarstöðu einstaklinga í óvígðri sambúð og einstaklinga í hjúskap.
  • Hagfræðideild býður upp á fyrirlestur um hagfræði fjölskyldunnar þar sem fjallað verður um samskipti mismunandi kynslóða sem og birtingarmyndir ýmissa mældra hagstærða, svo sem hjónabandsstöðu og launa- og eignaþróun yfir æviskeið. Hagfræðideild og Lagadeild taka svo þátt í ráðstefnunni Jón Sigurðsson forseti: Hugsjónir og stefnumál – tveggja alda minning.
  • Viðskiptafræðideild heldur þrjár málstofur og mun sú fyrsta fjalla um markaðsfræði í fortíð, nútíð og framtíð. Þá verður umræðuefni annarrar málstofunna umhverfi nýsköpunar á Íslandi, það er rekstrarumhverfi skapandi greina, viðhorf til viðskipta í vísindamiðaðri nýsköpun og starfsemi íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á alþjóðavettvangi. Enn fremur verður þriðja og síðasta málstofa deildarinnar um framtíð íslensks fjármálamarkaðar. Þar munu fjármálakennarar Viðskiptafræðideildar og nokkrir framámenn í íslensku fjármálalífi draga upp framtíðarsýn fyrir íslenskan fjármálamarkað.
  • Stjórnmálafræðideild heldur málþing sem ber heitið: Hernaðarlist og valdaklækir? Er stjórnmálamenning samtímans tamari körlum en konum? Málþingið er haldið í samvinnu við Miðstöð margreytileika- og kynjarannsókna í tilefni af 15 ára afmæli námsbrautar í kynjafræði. Á málstofunni munu þjóðþekktir stjórnmálamenn sitja í pallborði og ræða við gesti.
deila á facebook