Fornleifar á Skriðuklaustri

„Á borðum hér hefur verið ilmandi kjöt af nautgripum, sauðfé og sel og líka fiskur úr sjó og vötnum,“ segir Steinunn Kristjánsdóttir, dósent í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Við Bjarni Felix Bjarnason, kvikmyndatökumaður frá Kukli, stöndum í síðsumarblíðu í rústum Skriðuklausturs. Steinunn vísar þarna til beina sem fundist hafa við rannsóknir á staðnum undanfarin ár þar sem vísindamenn grafa upp kaþólskt klaustur frá síðmiðöldum.

Rannsóknir Steinunnar og samstarfsfólks hennar eru viðfangsefni okkar í nýrri vísindaþáttaröð um Háskóla Íslands sem fagnar nú aldarafmæli. Þættirnir eru sýndir í Sjónvarpinu.

„Auk matarilmsins hefur annars konar þefur líklega borist frá lyfjagerð á staðnum og líka þeim jurtum sem nýttar voru til matargerðar. Hér var þefur af fólki, hundum og öðrum húsdýrum, reykjarlykt úr opnum eldstæðum og jafnvel nálykt því ekki var bara jarðsett í kirkjugarðinum, heldur einnig í klausturgarðinum og í kirkjunni sjálfri,“ segir Steinunn.

 

Þegar við göngum um rústirnar með Steinunni sjáum við að fornleifafræðingar hafa opnað fjölmargar grafir og beinafræðingar vinna að því að bera kennsl á sjúkdóma úr fortíðinni. Ljóst er á beinum að Íslendingar síðmiðalda hafa margir þjáðst af kvillum eins og tannígerðum, eyrnabólgu, sárasótt, berklum, skyrbjúg, sullaveiki og lungnabólgu. „Þessi skýru einkenni sárasóttar bera vott um að Ísland hafi fjarri því verið eins einangrað og áður var talið. Þvert á móti virðast Íslendingar hafa verið í miklu sambandi við íbúa á meginlandi Evrópu,“ segir Steinunn.

Steinunn bendir yfir allt rannsóknasviðið og segir að á Skriðuklaustri hafi verið kirkja, klausturhús í kring, sem höfðu ákveðin hlutverk, og garður með brunni. „Alls voru hér byggingar á 1.300 fermetra svæði.“ Hún segir að komið hafi á óvart hversu stórt klaustrið hafi verið.

„Klaustrið var áþekkt kaþólskum byggingum erlendis og hlutverkið svipað,“ segir hún. „Hér fór fram ritun bóka og skjala, auk ræktunar mat- og lækningajurta. Sterkar vísbendingar eru um að hér hafi einnig verið stundaðar lækningar. Margir merkir gripir hafa komið fram sem styðja það. Hér hafa verið grafin upp lækningaáhöld og leifar af lækningajurtum sem ræktaðar voru í klausturgarðinum,“ segir Steinunn.

 

Steinunn segir að læknisáhöldin séu einkum bíldar, skurðarhnífar og prjónar sem notaðir voru til að loka sárum og skurðum. Hún segir að lyfjabaukur úr leir hafi einnig fundist og lyfjaglös úr gleri. Steinunn segir að þrjár innfluttar jurtategundir hafi verið ræktaðar á klausturtímanum, ef marka má niðurstöður frjókornagreininga sem gerðar voru á jarðvegssýnum. „Þessar tegundir eru brenninetla, græðisúra og villilaukur. Frjókorn tíu íslenskra tegunda, sem vitað er að hafi verið nýttar til lækninga, voru jafnframt greind,“ segir Steinunn.

Hún segir að fundur styttu heilagrar Barböru í uppgreftinum styrki einnig þá hugmynd að hér hafi verið sjúkrahús. „Heilög Barbara hefur sennilega verið verndardýrðlingur klaustursins vegna þess hlutverks að sinna sjúkum,“ segir hún.

Steinunn segir að beinasafnið úr uppgreftinum á Skriðuklaustri sé afar mikilvægt til að rannsaka heilsufarssögu Íslendinga. Í gangi er doktorsrannsókn sem tengist verkefninu og er henni ætlað að upplýsa um eyrnabólgu á miðöldum. Komið hefur í ljós að eyrnabólga var þá mjög útbreidd hér. Í dag er hún algeng meðal kornabarna, sem eru nú meðhöndluð við henni, en greinilegt er að flestir þeirra sem jarðsettir voru á Skriðuklaustri á 16. öld höfðu verið þjakaðir af eyrnabólgu allt sitt líf.

deila á facebook