Geymir íslensk náttúra lyf við malaríu og krabbameini?

Sophie Jensen, doktorsnemi við Lyfjafræðideild.

„Í heiminum vaxa yfir sex þúsund tegundir soppmosa og aðeins hluti þeirra hefur verið rannsakaður m.t.t. efnainnihalds og lífvirkni. Efni einangruð úr soppmosum hafa sýnt ýmiss konar áhugaverða lífvirkni og þess vegna eru þeir spennandi rannsóknarefni og gætu reynst uppspretta nýrra lyfjavirkra efnasambanda,“ segir Sophie Jensen, doktorsnemi við Lyfjafræðideild.

Hún kemur við sögu í öðrum þætti vísindaraðarinnar Fjársjóður framtíðar.

„Tilgangur rannsóknarverkefnisins er að finna og skilgreina ný lífvirk efnasambönd úr íslenskum soppmosum og rannsaka hemjandi áhrif þessara virku náttúruefna á malaríusníkil og krabbameinsfrumur,“ segir Sophie og bendir á að einungis örfáir íslenskir soppmosar hafi verið rannsakaðir í þeim tilgangi að kanna innihaldsefni og lífvirkni þeirra. „Forkönnun sem unnin var árið 2006 á extröktum fimm tegunda sýndi að í þeim eru efni sem hafa sterk hemjandi áhrif á malaríusníkil.“

„Þróun nýrra malaríulyfja er lítil, sérstaklega ef tekið er mið af því að 300-500 milljónir manna smitast af malaríu árlega. Af þeim deyja um 1,5-2,5 milljónir af völdum sjúkdómsins, aðalega börn undir fimm ára aldri sem búa í þróunarlöndum. Það er því brýnt og bráðnauðsynlegt að leitast við að finna og þróa ný og virk lyf gegn malaríu,“ segir Sophie.

„Hvað varðar krabbameinshamlandi lyf, þá eiga 2/3 þeirra rætur að rekja til náttúrunnar. Rannsóknir á náttúruefnum úr íslensku lífríki hafa sýnt að ný og spennandi náttúruefni er þar að finna. Mörg þessara efnasambanda hafa vaxtarhemjandi áhrif á krabbameinsfrumur og eru því áhugaverð til frekari rannsókna,“ segir Sophie sem vonast til að niðurstöður lífvirkniprófana muni leiða í ljós hvort þessi efnasambönd reynist vænleg sem lyfjasprotar í þróun nýrra lyfja við malaríu, öðrum frumdýrasjúkdómum eða krabbameini. „Fyrstu vísbendingar eru jákvæðar og ýta undir að haldið verði áfram.“

deila á facebook