Gosefnin gríðarlegt farg

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands.

Jarðvísindamenn okkar eru í eldlínunni í nýjum vísindaþáttum á RUV sem fjalla um rannsóknir við Háskóla Íslands. Þættirnir verða sýndi á sunnudögum í lok október og fram í miðjan nóvember.

Eftir að gosinu lauk í Eyjafjallajökli var þar afar undarlegt um að litast en jökullinn var allur kolsvartur og sá hvergi í hvítan blett. Vatnsgufur stigu upp af jöklinum. Sjónvarpsmenn fóru með vísindamönnunum í miðjum júlí þar sem snjóbíll var notaður við rannsóknir. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við HÍ, kallaði farartækið reyndar öskubíl glettinn á svip. Að ganga yfir jökulinn með honum og Magnúsi Tuma Guðmundssyni, prófessor í Jarðvísindadeild HÍ, var líkast því að fara um eyðimörk og ekki ósvipað undir fót og að vera á göngu á Mýrdalssandi. Ármann var í appelsínugulu úlpunni sem vakið hefur landsathygli, líkt og ástríða hans fyrir eldsumbrotum.

„Áhugi minn á eldgosum markast að sumu leyti af því að þannig getum við komist nær vitneskju um tilurð alheimsins,“ segir Ármann og hverfur ofan í jökulsprungu þar sem hann byrjar að mæla þykkt öskulagsins ásamt Þorvaldi Þórðarsyni, prófessor í jarðfræði við Edinborgarháskóla. Það er létt yfir þeim þrátt fyrir dumbung.

„Þetta var verulegt gos,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, þar sem við horfum niður í einn af þremur megingígum eldstöðvarinnar. Gígurinn er rosalegur og það rýkur úr honum víða. Á botni hans er mikið stöðuvatn.

Magnús er fullur aðdáunar yfir útsýninu eitt andartak en bætir svo við að Surtseyjargosið hafi til dæmis verið stærra og einnig Gjálpargosið 1996.

„Eldgos eru ekki talin stór fyrr en gosefnin verða meira en einn rúmkílómetri,“ segir Magnús Tumi. „Síðustu 100 árin hafa fá gos náð því, þó ef til vill gosin í Surtsey og Kötlu. Gosið í Eyjafjallajökli er þó mest gjóskugosa á Íslandi frá Kötlugosinu 1918, sem skýrir þá verulegu röskun sem gosið olli,“ segir hann.

Ástæða þess að við erum stödd á jöklinum er áfergja vísindamanna Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands í upplýsingar til að meta áhrifin af gosinu og sjá fyrir hegðun svipaðra gosa í framtíðinni. Vísindamennirnir hafa notað bestu vikur sumarsins til mælinga á magni gosefna úr eldstöðinni á Eyjafjallajökli. Magnús Tumi Guðmundsson og Ármann Höskuldsson hafa leitt þetta rannsóknarverkefni ásamt Guðrúnu Larsen jarðfræðingi. Það tekur á að reyna að átta sig á öllu því magni gosefna sem kom upp á yfirborðið í eldgosinu í Eyjafjallajökli.

„Gjóskan sem féll hér á landi er 120 til 150 milljónir rúmmetra,“ segir Magnús Tumi.

Hann segir að mikil gjóska hafi fallið utan Íslands: „Ef til vill féll helmingurinn í sjóinn sunnan landsins og dálítið af gjóskunni náði til landanna í Norður-Evrópu. Heildarmagn gjóskunnar er því miklu meira en 150 milljónir rúmmetra,“ segir Magnús Tumi.

Magnús Tumi segir að heildarmassi, eða þyngd, gosefnanna sé áætlaður nálægt 400 milljónum tonna. „Gera má ráð fyrir að tæplega 250 milljónir rúmmetra af ís hafi bráðnað í gosinu. Það er rúmlega tvöfalt meira en í síðasta gosi í Grímsvötnum en aðeins lítið brot af því sem bráðnaði í Gjálp þar sem um fjórir rúmkílómetrar af ís bráðnuðu. Það er því ekki ísbráðnunin sem gerir þetta gos sérstakt, heldur hve gjóskan var fíngerð og hve mikið kom upp af henni,“ segir Magnús Tumi.

Meira um þetta í máli og myndum á RÚV.

deila á facebook