Hryllileg fegurð

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild.

„Skáldskapur, ekki síst ljóð, fela oft í sér skírskotanir til umhverfis eða náttúru. Ég á ekki aðeins við hina villtu náttúru því höfundar skrifa oft um nærumhverfi sitt, sem oftar en ekki er einhvers konar borgarlandslag,“ segir Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild. Rannsókn Sveins, sem nú er í fullum gangi, fjallar um samband bókmennta og náttúru en kenningum vistrýni, samanburðarbókmennta og heimspeki er beitt við rannsóknina.

Sveinn mun birta veffyrirlestur þann 25. mars þar sem hann ræddi þetta sama efni, en þá var fjölda slíkra fyrirlestra ýtt úr vör á nýju vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Með þessu framtaki opnaði Hugvísindasvið fyrir aðgang allra að fjölbreyttu efni í flutningi fræðimanna Háskóla Íslands.

Vistrýni er vaxandi rannsóknarsvið þar sem mikið starf er óunnið en Sveinn Yngvi vonast til að rannsókn hans verði til þess að fleiri kanni tengsl bókmennta og umhverfis enda fátt eins aðkallandi og umhverfismálin. „Það er erfitt og ástæðulaust að draga ákveðna línu milli borgar og sveitar, menningar og náttúru, því auðvitað býr náttúran líka í borgum. Ef við skoðum borgirnar okkar þá sjáum við að þar er gróður og veðrátta, svo dæmi sé tekið, auk þess sem hin villta náttúra er oft ekki eins ósnortin og af er látið. Þingvellir eru gott dæmi um þetta, allt frá miðöldum hafa menn breytt landslaginu þar, til dæmis með því að veita Öxará í annan farveg, gróðursetja tré og svo framvegis.“

Sveinn Yngvi segir að kveikjan að rannsókninni hafi verið afstaða samfélagsins til umhverfisins. „Skáldskapurinn getur gefið okkur einstaka sýn á þessa afstöðu og þróun hennar í áranna rás. Þegar skáld yrkja um umhverfið eru þau að staðsetja sig í tilverunni og lýsa oft sjálfum sér í leiðinni. Rannsókn á náttúru- og umhverfisljóðum getur því afhjúpað æði margt spennandi.“

Markmið rannsóknar Sveins Yngva er að komast að því hvernig íslensk skáld á 19. og 20. öld lýsa náttúru norðursins í ljóðum sínum. „Náttúran birtist sem sérstakt viðfangsefni í listum og bókmenntum á 18. og 19. öld, einmitt á þeim tíma þegar þéttbýlismyndun er mikil á Vesturlöndum og menn fara að skynja náttúruna úr ákveðinni fjarlægð. Til verða ákveðnar fagurfræðilegar viðmiðanir sem hafa áhrif á skynjun manna og birtingarmyndir umhverfis í bókmenntum og listum. Skáld yrkja ljóð um hjarðir á beit í grænum haga en önnur eru
uppteknari af ægifegurð náttúrunnar, af vetrarhörkum, hrikaleika fjalla og öðru slíku.

Til eru skáld sem sameinuðu þetta tvennt og ná að lýsa náttúrunni og afstöðu sinni til hennar á margbrotinn hátt sem nær jafnvel að endurspegla vistfræðilegan margbreytileika. Þetta sjáum við hjá Jónasi Hallgrímssyni. Þessi samsetta náttúrusýn á sér framhald í skáldskap 20. aldar, meðal annars hjá smásagnaskáldinu Gyrði Elíassyni. Um leið er eins og landslagið verði sálfræðilegra og það er einmitt þekkt ferli í erlendri ljóðagerð, þar sem rætt er um svokallað innra landslag. Nútímatæknin hefur líka áhrif á náttúrusýn skáldanna, eins og sjá má allt frá stóriðjuljóðum Einars Benediktssonar til þeirrar kjarnorkuógnar sem atómskáldin yrkja um. Þarna hefur hið manngerða tekið við því hlutverki sem ægifegurð náttúrunnar gegndi áður,“ segir Sveinn Yngvi og bætir við: „Þetta er kannski það sem við getum kallað hryllilega
fegurð.”

deila á facebook