Þann 29. október nk. mun Daði Már Kristófersson, dósent í náttúruauðlindahagfræði við Hagfræðideild Háskóla Íslands, ganga um Heiðmörkina og tala um verðmæti náttúrunnar. Daði már var tekinn tali á afmælisvef skólans.
Mikilvægt að hafa verðmæti náttúrunnar í huga
„Fólk geri sér almennt góða grein fyrir mikilvægi náttúrunnar fyrir afkomu okkar þó einungis lítill hluti þjónustu náttúrunnar sé verðlagður. Skortur á verði þýðir auðvitað ekki að náttúran sé verðlaus, einungis að markaðir bregðast þegar kemur að verðlagningu margra náttúrugæða,“ segir Daði Már og segir að það sé hins vegar mjög mikilvægt að hafa verðmæti náttúrunnar við alla ákvarðanatöku um nýtingu svo meiri hagsmunum sé ekki fórnað fyrir minni.
„Verðlagning náttúrugæða, sem ekki eru verðlögð á mörkuðum, hefur verið viðfangsefni hagfærðinga í áratugi. Ég mun fjalla um aðferðirnar sem hafa verið þróaðar til að verðleggja náttúrugæði, forsendur aðferðanna og skynemi þess að verðleggja náttúruna. í þessu samhengi mun ég sérstaklega fjalla um umfangsmikla rannsókn á verðmæti Heiðmerkur, sem nú stendur yfir,“ segir Daði Már.
Náttúran og áskoranir 21. aldarinnar
Aðspurður um áskoranir 21. aldarinnar í samhengi við náttúruna segir Daði þetta: „Já, ég mun gera þetta að umtalsefni. Fjölgun jarðarbúa og vaxandi velsæld leggur stöðugt meira álag á auðlindir náttúrunnar. Verðlagning er leið til að takast á við spurningar um hvænær ákveðin nýting er réttlætanleg og hvenær ekki,“ segir Daði Már að lokum.
Gangan hefst við Elliðavatnsbæinn kl. 14:00 þann 29. október. Á aldarafmæli Háskóla Íslands taka skólinn og Ferðafélag Íslands höndum saman og standa fyrir reglulegum gönguferðum á afmælisárinu. Reynsla og þekking leiðsögumanna Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess.