Ímynd eða ímyndun

Þórhallur Guðlaugsson, dósent í markaðsfræðum við Viðskiptafræðideild HÍ.

Mikið hefur verið rætt um ímynd Íslands í fjölmiðlum í þeirri efnahagslegu kreppu sem Íslendingar glíma nú við. Ímynd skiptir verulegu máli fyrir þjóðir á sama hátt og hún ræður miklu um afdrif fyrirtækja. Ímynd skiptir einnig miklu máli fyrir staði og fólk. Mjög skiptar skoðanir eru um gildi ímyndar og stundum er hugtakinu ruglað saman við ímyndun og því álitið að ímynd sé eitthvað sem ekki er raunverulegt, sé óekta og hafi lítið raunverulegt gildi.

„Þetta er alvarlegur misskilningur,“ segir Þórhallur Guðlaugsson, dósent í markaðsfræðum við Viðskiptafræðideild HÍ en hann ræðir ímynd Íslands í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar.

„Misskilningurinn er af margvíslegum toga, sumir hafa beina andúð á hugtakinu og aðrir telja að hægt sé að byggja upp ímynd hratt og með auglýsingum einum saman. Vera kann að ímynd sé ekki gott orð í þessu sambandi. Hugsanlega væri betra að tala um orðspor, þ.e. að starfsemi, þjóðir og einstaklingar byggi upp orðspor. Annar misskilningur er sú ranghugmynd að auglýsingar byggi upp ímynd eða orðspor. Auglýsingar hafa fyrst og fremst þau áhrif að byggja upp vitund og koma skilaboðum á framfæri. Reynslan hefur mun dýpri áhrif á ímyndina. Ef fyrirtæki auglýsir hágæðaþjónustu, en reynsla fólks af þjónustunni er hins vegar allt önnur, þá hefur hún mun meiri áhrif á ímyndina en auglýsingarnar. Þær ýta jafnvel undir neikvæða ímynd,“ segir Þórhallur.

Þórhallur hefur lagt stund á rannsóknir á ímynd fyrirtækja í nokkur ár. Vaxandi umræða hefur verið síðastliðin ár um ímynd þjóða og skiptar skoðanir eru um hvort horfa megi á þjóðríki sem auðkenni (brand). Öllum má vera ljóst að þjóðríki hafa mismunandi orðspor eða ímynd og er þetta ekki síst áberandi þessa dagana. Í huga okkar tengjast sumar þjóðir jákvæðum gildum, aðrar neikvæðum gildum og um enn aðrar vitum við lítið. 

Nokkur umræða hefur verið um hvort hrun íslenska fjármálamarkaðarins hafi áhrif á ímynd Íslands. Hér segir Þórhallur að mikilvægt sé að hafa í huga að það sem kemur fyrir þjóðir (t.d. hrun fjármálamarkaðar) hefur ekki áhrif á ímynd þeirra heldur það hvernig þær bregðast við og hvað þær gera öðrum þjóðum. Viðbrögð stjórnvalda hafa þannig mun meiri áhrif á ímynd þjóðarinnar en hrunið sjálft.

 

deila á facebook