Indiana Jones á Skriðuklaustri

Glenn Ricci er þátttakandi í stórri fornleifarannsókn á Skriðuklaustri sem Steinunn J. Kristjánsdóttir, dósent í fornleifafræði, stýrir.

Við erum stödd í miklum síðsumarhita í rústum Skriðuklausturs. Þegar horft er yfir sviðið er allt sundurgrafið og fornleifafræðingar fara mikinn. Myndatökur eru í gangi og verið er að fylgjast með rannsóknum Steinunnar Kristjánsdóttur, dósents í fornleifafræði við Háskóla, á fornleifum á Skriðuklaustri.

Það er ekki hjá því komist að reka augun í ungan mann með leðurhatt. Hann er í háttum svo líkur einum þekktasta fornleifafræðingi kvikmyndasögunnar, Indiana Jones, að manni er brugðið. Þessi náungi er furðufimur með burstann og hreinsar sólbakaða moldina frá jarðneskum leifum Íslendings sem grafinn var á síðmiðöldum.

„Ég skildi svipuna eftir heima,” segir þessi kornungi vísindamaður með glotti en hann stundar nám í fornleifafræði við Háskólann í Leicester. Hann heitir Glenn Ricci og er þátttakandi í stórri fornleifarannsókn á Skriðuklaustri sem Steinunn J. Kristjánsdóttir, dósent í fornleifafræði, stýrir. Ricci segist hafa sett upp Indiana-hattinn sjálfum sér til gamans og athyglin hafi orðið ósvikin. Nær allir sem erindi eiga um rústirnar tengja Ricci samstundis við hetjuna sem mótuð er af leikstjóranum Steven Spielberg og framleiðandanum George Lucas.

Við heyrum viðtal við þennan unga vísindamann í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar sem verður frumsýndur hjá RUV í haust.

deila á facebook