Íslendingar vilja ekki afneita tilvist álfa

Terry Gunnell, dósent í þjóðfræði.

„Ný könnun okkar á þjóðtrú Íslendinga hefur sýnt að hún er jafnsterk og hún var fyrir þrjátíu árum. Íslendingar vilja enn ekki afneita tilvist álfa,“ segir Terry Gunnell, dósent í þjóðfræði. „Trú á drauga, hugboð og drauma er samt ennþá sterkari.“ 

Terry, sem er fæddur í Bretlandi, kemur heldur betur við sögu í nýrri þáttaröð um rannsóknir innan Háskóla Íslands. Hann hóf að rannsaka íslenska þjóðsiði og þjóðtrú í sambandi við doktorsritgerð um flutning eddukvæða eftir að hann flutti til Íslands með konu sinni árið 1979. Árið 2007 gaf hann út 800 síðna bók um dulbúningasiði á Norðurlöndunum og stýrði einnig áðurnefndri könnun á þjóðtrú og trúarviðhorfum Íslendinga.

Í fyrra kom út bókin The Hidden People of Iceland sem Terry skrifaði ásamt teiknaranum og samlanda sínum Brian Pilkington. Í bókinni, sem er ætluð fyrir erlenda ferðamenn, birtist málverk af Terry í klæðum íslensks víkings. „Vinur minn kvartaði hástöfum yfir því að Brian væri að falsa sögu Íslands með því að gefa í skyn að ræfilslegir Bretar hefðu komið hingað meðal víkinga,“ segir Terry og hlær.

Terry hefur kennt námskeið um norræna trú, skandinavíska og keltneska þjóðfræði, íslenskar þjóðsögur, hátíðir og leiki, og leiklist. Í vetur kennir hann námskeið um íslenska þjóðfræði, menningu og sjálfsmynd sem er ætlað fyrir erlenda skiptinema. „Útlendingar hafa sérstakan áhuga á íslenskum fornbókmenntum og þjóðfræði,“ segir Terry. „Fólk vill vita hvað það er sem gerir Íslendinga að Íslendingum.“

Terry segir að áhugi á þjóðfræði í Háskóla Íslands hafi farið sívaxandi á undanförnum árum. „Fjöldi nýnema hjá okkur hefur nærri fjórfaldast síðan 1998. Segja má að menn séu farnir að átta sig á að fagið fjallar ekki bara um gamla bændur að kveða rímur. Þjóðfræði lifir góðu lífi í dag í kvikmyndunum sem við horfum á, í veggjakrotinu í kringum okkur, í rokktónlistinni sem við hlustum á og í þeim sögum sem við segjum á krám,“ segir Terry.

deila á facebook