Jafnréttisdagar Háskóla Íslands nálgast

Arnar Gíslason, Jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands.

Jafnréttisdagar 2011 standa yfir dagana 13.-27. október næstkomandi. Arnar Gíslason, Jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands, var tekin tali á afmælisvef Háskóla Íslands.

Markmiðið með Jafnréttisdögum að skapa umræðu

„Hugmyndin með Jafnréttisdögum er að þeir hjálpi til við að skapa umræðu um jafnréttismál og við að gera þau sýnileg innan skólans sem utan. Á Jafnréttisdögum gefst fólki tækifæri á að kynnast því starfi og þeim hugmyndum sem hafa verið að gerjast í jafnréttismálum í háskólasamfélaginu,“ segir Arnar og tekur fram að boðið verði upp á fjölbreytt úrval af viðburðum, fyrirlestrum, umræðum og annars konar viðburðum. „Jafnréttisdögum er einnig ætlað að vekja athygli á mikilvægi jafnréttismála og á þeim mörgu víddum jafnréttis sem þarf að hafa í huga,“ segir hann en bendir á að markmiðið sé að efla samstarf milli aðila sem starfa að jafnréttismálum innan skólans.

Fjórar víddir mest áberandi í starfinu

„Innan Háskólans er býsna fjölþætt starfsemi og er samstarfið milli aðila með ýmsum hætti, persónulega finnst mér það alltaf gott og nauðsynlegt, að geta leitað ráða í góðu samstarfi við aðra sem starfa á sviði jafnréttismála,“ segir Arnar og bætir við að ýmis félög séu starfandi í háskólanum, Q - félag hinsegin stúdenta, og geðverndarfélagið Manía og hluti af starfsemi Stúdentaráðs.

„Á vegum stofnunarinnar sjálfrar eru svo nefndir, rannsóknarstofnarnir, námsbrautir og ýmislegt fleira svo skólinn geti náð sínum markmiðum í jafnréttismálum, og á milli allra þessara aðila
eru samskipti og samstarf með ýmsum hætti,“ segir Arnar og bætir við að Jafnréttisdagar séu gott dæmi um þetta, þar sem bæði nemendur og starfsfólk HÍ standa saman að skipulagningu og að viðburðir Jafnréttisdaga séu bæði á vegum hagsmunafélaga nemenda, námsbrauta, fræðasviða, rannsóknarstofnana, nefnda skólans og aðila utan skólans.

„Það má kannski segja að fjórar víddir hafi verið mest áberandi í starfi háskólans undanfarin ár: Jafnrétti karla og kvenna, málefni hinsegin fólks, málefni fólks með fötlun, og málefni erlendra stúdenta og starfsmanna, en stefna skólans gegn mismunum tekur þó til fleiri þátta“.

Fjölbreyttir viðburðir á Jafnréttisdögum

„Það er nú svolítið erfitt að velja út, mér þykja þetta allt áhugaverðir viðburðir. En ef ég reyni að tína út þá viðburði sem höfða til mín sérstaklega, þá get ég m.a. nefnt nokkra.

14. október: Jafnrétti, fötlun og háskólanám (kl. 14:00)
18. október: Vinna, borða, sofa? Opinn fundur um karla og jafnrétti (kl. 20:00)
20. október: Umræða og andóf í jafnréttisbaráttu  (í hádeginu)
21. október: Vinklar - málstofa í Nýlistasafninu (kl. 20:00)

Og auðvitað lokahóf Jafnréttisdaga, fimmtudagskvöldið 27. október, þar sem boðið er upp á mjög skemmtilega dagskrá í Tjarnarbíói“.

Nánari upplýsingar um þessa viðburði og aðra er að finna á vefsíðunni jafnretti.hi.is

----------------------------

Hér að neðan er lýsing á verkinu SVO EÐLILEGUR NÁUNGI, sem framandverkaflokkurinn Kviss Búmm Bang flytur á meðan Jafnréttisdögum stendur. Annars vegar verður um innsetningu á Háskólatorgi að ræða sem stendur yfir alla Jafnréttisdagana (frá 13.-27. október) og hins vegar sviðsverk sem er hluti af dagskrá lokahófsins þann 27. október í Tjarnarbíói.

SVO EÐLILEGUR NÁUNGI

Ertu femínisti? Áttu barn með gleraugu? Ertu eiginmaður með litað hár?
Ertu transa með bílpróf?
Brýnt er að hólfa fólk niður og finna út hvaða hópi það tilheyrir, til þess að geta fljótt og örugglega dregið ályktanir um hvaða mann það hefur að geyma.

Á Jafnréttisdögum mun Kviss búmm bang vinna hörðum höndum að því að koma sem flestum í sem flesta minnihlutahópa. Þeim mun fleiri minnihlutahópar, þeim mun meiri fjölbreytileiki.

Flokkunin mun eiga sér stað á Háskólatorgi og standa yfir alla Jafnréttisdagana.

Fjölbreytileikanum verður síðan fagnað á lokahófi Jafnréttisdaga með skemmtidagskrá þar sem fulltrúar minnihlutahópa af öllum stærðum og gerðum koma fram.

deila á facebook