Jarðskjálftar og mannvirki

Jarðskjálftar og mannvirki - fyrsti þáttur.

Það hefur verið mikil gróska í starfsemi Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði, sem er staðsett á Selfossi, síðustu misserin og má fullyrða að hún hafi aldrei verið meiri. Við rannsóknamiðstöðina er m.a. unnið að því að auka getu mannvirkja til að þola álag í jarðskjálftum.

Í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar heimsækjum við rannsóknamiðstöðina og tökum viðtal við Benedikt Halldórsson, rannsóknarlektor við Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði og aðjúnkt við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.  Það sem er áhugavert við þetta viðtal að það er tekið ofan í sprungu í Hveragerði sem varð til í jarðskjálfta.

„Það er mikil virkni er í grunnrannsóknum vísindamanna á rannsóknarmiðstöðinni,“ segir Benedikt. „Rannsóknirnar tengjast bæði jarðskjálftum á Íslandi og erlendis og hafa þær vakið verðskuldaða athygli,“ bætir hann við. Benedikt segir að alþjóðlegt samstarf sé stór þáttur í starfseminni hjá Háskóla Íslands og er Rannsóknarmiðstöðin þar engin undantekning.

Íslendingar þekkja jarðskjálfta af eigin raun. Ef smellt er á tengilinn hér fyrir neðan má sjá þann fjölda skjálfta sem verið hefur hér og við landið síðustu tvo sólarhringa. http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/jardskjalftar#view=table

Það er óhætt að segja að mikið hafi mætt á fólki á hamfarasvæðum í heiminum á þessu ári og því síðasta vegna alvarlegra jarðhræringa. Er þar skemmst að minnast jarðskjálftans á Haiti í ársbyrjun 2010, jarðskjálftans á Nýja Sjálandi í september 2010 og annars jarðskjálfta þar í febrúar 2011. Nú síðast í mars varð risajarðskjálfti undan strönd Japan og olli flóðbylgjan sem kom í kjölfarið gríðarlegu eigna- og manntjóni.

Í vísindaþættinum segir Benedikt okkur frá eðlislægum þáttum suðurlandsskjálftans árið 2008.

deila á facebook