Jarðvísindamenn á forsíðu Nature

Freysteinn Sigmundsson, sérfræðingur við Jarðvísindastofnun HÍ.

Í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar, sem sýndur verður á RUV í haust, eru jarðvísindamenn Háskóla Íslands í brennipunkti. Þar er vikið að rannsóknum þessara öflugu vísindamanna og þeim er fylgt á vettvang þar sem þeir skoða meðal annars gosefni í framhaldi af eldsumbrotum. Í þáttunum er m.a. rætt við Freystein Sigmundsson, sérfræðing við Jarðvísindastofnun HÍ, sem hefur rannsakað innviði eldfjalla.

Jarðvísindamenn við Háskóla Íslands, og samstarfsaðilar á Veðurstofu Íslands og við erlenda háskóla, skrifuðu forsíðugrein í Nature í nóvember í fyrra, sem er eitt virtasta vísindatímarit heims. Í greininni er fjallað um aðdraganda eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli. Rannsóknahópur um jarðskorpuhreyfingar við Norræna eldfjallasetrið á Jarðvísindastofnun Háskólans hefur fylgst grannt með kvikuhreyfingum í Eyjafjallajökli undanfarin ár í samvinnu við Veðurstofu Íslands. Niðurstöðurnar í rannsóknum þeirra varpa ljósi á hvernig önnur eldfjöll víðs vegar um heim, sem hafa legið lengi í dvala, kunni að rumska. Þar megi búast við mælanlegum kvikuinnskotum sem undanfara eldgosa. Leitt er getum að því í greininni að kvikuinnskot, sem rekst á aðra bergkviku sem liggur fyrir í rótum eldstöðva, kunni að leysa úr læðingi sprengigos líkt og gerðist í Eyjafjallajökli.

Rannsóknin var leidd af Freysteini Sigmundssyni, sérfræðingi við Jarðvísindastofnun HÍ, og Sigrúnu Hreinsdóttur, dósent í jarðeðlisfræði við Jarðvísindadeild HÍ. Birting greina í Nature þykir ekki einungis heiður fyrir viðkomandi vísindamenn og rannsóknastofnanir heldur styrkir birtingin stöðu beggja í vísindaheiminum. Að eiga forsíðugrein er einnig metið ofar öðrum birtingum í tímaritinu.

„Hefðbundið líkan fyrir virkustu eldstöðvar á jörðinni gerir ráð fyrir að kvika safnist í eitt stórt kvikuhólf fyrir eldsumbrot. Það gerðist ekki í Eyjafjallajökli,” segir Freysteinn Sigmundsson, „heldur tróð bergkvika sér inn undir fjallið í aðskilin innskot undir austurhluta þess. Samfara sprengigosinu 14. apríl féll svo þrýstingur vegna streymis kviku undan háfjallinu. Þetta teljum við að geti verið dæmigerð atburðarás fyrir önnur sprengigos. Því er þörf á að endurskoða líkön af innviðum eldfjalla, reyna að meta enn betur með margvíslegum aðferðum hvar kvika leynist í rótum eldstöðva og fylgjast vel með þróun kvikuinnskota. Niðurstöður okkar geta þannig verið ákveðinn vegvísir fyrir framtíðarrannsóknir í eldfjallafræði.“

Rannsóknin var unnin í samvinnu Jarðvísindastofnunar Háskólans, Tækniháskólans í Delft í Hollandi, Veðurstofu Íslands, Háskólans í Gautaborg og Wisconsin háskólans í Madison, Bandaríkjunum.

deila á facebook