Jöklar Íslandi á hröðu undanhaldi en er samt metsölubók

dr. Helgi Björnsson, jöklafræðingur við Háskóla Íslands.

Jöklar á Íslandi, verk dr. Helga Björnssonar jöklafræðings við Háskóla Íslands, fékk afar lofsamlega dóma í fjölmiðlum þegar bókin kom út.  Í vísindaþættinum Fjársjóður framtíðar sem sýndur verður í október er viðtal við Helga um bráðnun jökla. Í þættinum segir Helgi áhorfendum hvað það er sem heillar hann við jöklana.

Helgi Björnsson er vísindamaður við Raunvísindadeild Háskólans og einn helsti sérfræðingur Íslendinga í jöklarannsóknum. Rannsóknir hans hafa verið fjölþættar. Helgi hefur aflað grundvallargagna um alla helstu jökla Íslands.  Meginverkefni hans hefur verið kortlagning á yfirborði og botni jökla með íssjármælingum, afmörkun vatnasvæða jökulfljótanna, mælingar á afkomu jökla og tengsl  við veðurfar. Á grundvelli þessara gagna hefur Helgi kannað hegðun jökla í nútíð og fortíð  og hvernig ætla má að loftlagsbreytingar hafi áhrif á jökla til framtíðar.

Jöklar Íslands rýrna nú hratt og rannsóknir Helga og samstarfsmanna hans benda til þess að Langjökull verði horfinn eftir 120 til 130 ár og Hofsjökull  verði  aðeins smáskella eftir 200 ár gangi spár veðurfræðinga eftir um hlýnun.  Rannsóknirnar benda til þess að suðurhluti Vatnajökuls hverfi líka á sama tíma en norðurhluti hans gæti staðist áhlaupið í þrjár aldir.

deila á facebook