Krían í kreppu

Krían í kreppu.

Nú í sumar hefur doktorsrannsókn Freydísar Vigfúsdóttur á kríunni staðið yfir í varplandi fuglsins á Snæfellsnesi, helst á Rifi og í nágrenni Garða á sunnanverður nesinu. Rannsóknin er gerð við Háskólasetrið á Snæfellsnesi í samstarfi við East Anglia háskólann í Bretlandi og Náttúrufræðistofnun Íslands. Einn af leiðbeinendum Freydísar er dr. Tómas Grétar Gunnarsson vistfræðingur og forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi en Tómas hefur getið sér gott orð fyrir rannsóknir á lífsháttum fugla á Íslandi.

„Síðastliðin ár hefur varp kríu beðið mikinn hnekki en sandsíli er helsta fæða kríunnar,“ segir Freydís með gargandi kríuger yfir höfði sér. Hún lætur sér hvergi bregða, enda er hún með sérútbúið höfuðfat með kaffimál undir ullinni á hvirflinum sem verndar hana gegn ótæpilegum lögum kríunnar.

„Stofn sandsílis við Íslandsstrendur virðist hafa hrunið með voveiflegum afleiðingum fyrir kríuna og reyndar fleiri sjófugla,“ segir Freydís sem er að auki útötuð í kríudriti eins og þrjár konur sem eru henni til aðstoðar við rannsóknina.

Rannsókn Freydísar er um margt spennandi en eflaust myndu ekki allir kæra sig um jafnmikið návígi við kríuna og hún leggur á sig núna í vor og sumar.  Krían er fráleitt værðarlegur fugl og ver varpið sitt með kjafti í orðsins fyllstu merkingum með endalausum dýfum og loftárásum.

Markmið rannsóknar Freydísar er að kanna varpþætti kríu og tengja þá við fæðuframboðið og ennfremur að meta áhrif breytilegs umhverfis á lýðfræði kríunnar. Freydís segir að niðurstöðurnar muni bæði auka þekkingu á lítt rannsakaðri tegund hérlendis, kríunni, og nýtast víðum hópi vísindamanna og stjórnvalda er vinna að málum um nýtingu og verndun hafsvæða Íslands. Rannsóknin sé þannig mikilvæg fyrir lífríkið þótt hún beinist aðeins að einni tegund.

 

„Vegna stöðu sinnar ofarlega í fæðukeðjunni endurspeglar ástand sjófuglastofna breytingar á lægri fæðuþrepum sjávar og gefur því upplýsingar um ástand vistkerfis sjávar,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson vistfræðingur og leiðbeinandi Freydísar.

Að hans sögn hafa loftslagsbreytingar nú þegar haft merkjanleg áhrif á vistkerfi norðurhjarans og eru mörg dæmi um lífverur sem hafa orðið fyrir áhrifum af þeirra völdum. Einkum hefur verið áberandi lélegur varpárangur og fækkun varppara í mörgum sjófuglastofnum.

Krían sem Freydís rannsakar, er einn þeirra sjófugla sem er sérstaklega viðkvæm fyrir umhverfisbreytingum. Freydís segir að vegna langrar farleiðar á milli heimskauta gefist kríunni stuttur tími til varps. Eina varptilraun kríunnar þurfi að falla að hámarks fæðuframboði til að viðunandi varpárangur náist.

Freydís segir að Krían sé útbreidd um allt land, einkum með ströndum, í misstórum vörpum.

„Sumum kann að finnast mikið um kríu hér á Rifi, en varpið hefur dregist mikið saman,“ segir Freydís og lætur sér fátt um finnast á meðan ein aðgangshörð goggar í hausinn á henni.

„Hér áður fyrr var útilokað fyrir konur á Rifi að hengja út þvottinn sinn til þerris yfir varptímann, núna er það vel hægt því varpið hefur minnkað svo mikið.“

deila á facebook