Langjökull rýrnar afar hratt

Þorsteinn Jónsson tæknimaður beitir fagmannlegum tökum við að bora djúpa, beina en örmjóa holu niður í jökulinn.

Afkoma  Langjökuls hefur verið neikvæð síðasta einn og hálfan áratug og hann rýrnar nú afar hratt að sögn Finns Pálssonar, rafmagnsverkfræðings á Jarðvísindastofnun, og sérfræðings í jöklarannsóknum. Umsjónarmenn vísindaþáttarins Fjársjóður framtíðar fóru með Finni og félögum hans á Langjökul síðastliðið haust og fylgdust með rannsóknum þeirra á afkomu jökulsins.

 „Jökullinn hafði safnað á sig um þremur metrum af snjó síðasta vetur en leysing sumarsins er rösklega fimm metrar að meðaltali,” segir Finnur og horfir yfir þennan tignarlega jökul með aðdáun sem hann fær ekki leynt. Hann og aðrir jöklafræðingar Háskóla Íslands stunda nú viðamiklar rannsóknir á afkomu Langjökuls og annarra jökla á Íslandi.

„Þetta þýðir að Langjökull hefur þynnst um tæpa fjóra metra á einu ári. Þetta er metbráðnun og gosið á Eyjafjallajökli á hlut að máli því þunnt öskulag frá gosinu lagðist yfir Langjökul og olli aukinni bráðnun. Dökkt yfirborðið sogaði í sig miklu meiri orku frá sólinni en annars hefði verið.”

Það er mikið blíðskaparveður á jöklinum þótt við séum þar í lok nóvember. Finnur er þarna ásamt þeim Þorsteini Jónssyni og Sveinbirni Steinþórssyni, tæknimönnum Jarðvísindastofnunar. Þeir hafa ekið tveimur sérútbúnum jeppum í miklu blíðskaparveðri og fara mikinn við að taka niður veðurstöð fyrir veturinn.

„Rannsóknir Sverris Guðmundssonar á Jarðvísindastofnun Háskólans gefa vísbendingar um að Langjökull verði um fimmtungi minni en nú við lok þessarar aldar verði hitastig óbreytt. Hlýni frekar, eins og flestir spá, verður bráðnunin enn hraðari, og Langjökull verður að mestu horfinn eftir 150 til 200 ár,” segir Finnur og grípur til járnkarls til að losa um veðurstöð sem vísindamennirnir taka niður fyrir veturinn.

„Mikilvægt er að forða henni frá klóm vetrarins en flest það sem skilið er eftir á jöklinum stendur ekki af sér aftakaveðrin sem þá geisa,” segir Finnur.

deila á facebook