Lyfjavirk náttúruefni úr íslensku lífríki

Elín Soffía Ólafsdóttir.

Við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands starfa tvær konur sem leggja áherslu á að finna lyfjavirk náttúruefni í rannsóknum sínum og gera þau nýtanleg í lyf gegn ýmsum sjúkdómum sem herja á mannfólkið. Þetta eru þær Elín Soffía Ólafsdóttir prófessor og Sesselja Ómarsdóttir dósent. Elín Soffía kemur við sögu í nýrri þáttaröð á RUV um vísindarannsóknir innan Háskóla Íslands en einnig eru sýndar myndir af rannsóknarvervettvangi Sesselju sem er neðansjávar.

Markmið þeirra Elínar Soffíu og Sesselju er að einangra og greina efnabyggingar auk þess að rannsaka lífvirkni náttúruefna úr fléttum, jöfnum, soppmosum og sjávardýrum. Sesselja er verkefnisstjóri í spennandi og nýju verkefni er gengur út á að rannsaka efni úr sjávarhryggleysingjum af íslensku landgrunni. Hugmyndin er að finna ný virk efnasambönd sem hugsanlega geta orðið að áhugaverðum lyfjasprotum. „Meðal annars er ætlunin að skima slík efni fyrir vaxtarhemjandi áhrifum á krabbameinsfrumur,” segir Sesselja og er bjartsýn á árangur rannsóknanna.

 „Náttúruefni eru virku efnin í meira en þriðjungi allra lyfja í dag og í nánast tveim þriðju allra sýkinga- og krabbameinslyfja. Þrátt fyrir þetta eru rannsóknir á náttúruefnum úr íslensku lífríki fáar, en hafa þó sýnt að ný og spennandi náttúruefni er þar að finna,” segir Sesselja.

 „Þetta kemur ekki á óvart sé haft í huga að lífverur, sérlega þær sem ekki geta flúið af hólmi svo sem plöntur og örverur, heyja stöðugan efnahernað sín á milli og við umhverfi sitt,” segir Elín Soffía sem einbeitir sér að rannsóknum á lágplöntum.

„Stríðið um að lifa af með vörn og sókn hefur staðið í milljónir ára og myndað ótrúlega fjölbreyttan banka lífvirkra efnasambanda í náttúrunni. Leitin að nýjum lyfjum í þessum náttúrubanka er einn af grunnsteinum lyfjafræðinnar og forsenda fyrir framþróun og framleiðslu margra nýrra lyfja við erfiðum sjúkdómum,” segir Elín Soffía. 

„Sömu sögu er að segja af ýmsum sjávardýrum,” bætir Sesselja við, „en þessi flokkur lífvera framleiðir áhugaverð lífvirk efni, en er lítt rannsakaður. Fyrstu rannsóknir á sjávarlífverum í íslenskri landhelgi benda til þess að þar leynist efni sem vert er að skoða nánar með tilliti til verkunar gegn ýmsum krabbameinum, bólgusjúkdómum og Alzheimer eða sem hvata í bóluefni.”

deila á facebook