NATO og áskoranir 21. aldarinnar

Í dag klukkan 12:00 - 13:00 mun varaframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), Claudio Bisogniero, fjalla um NATO og áskoranir 21. aldarinnar. Fundarstjóri verður Bogi Ágústsson, fréttamaður. Fundurinn fer fram á ensku og er öllum opinn í fyrirlestrarsal Öskju, föstudaginn 1. júlí frá kl. 12 til 13.

Ríflega 30 nemendur eru komnir til landsins til að taka þátt í sumarskóla Rannsóknaseturs um smáríki þetta árið, en fyrirlesturinn er liður í dagskrá skólans. „Á vegum sumarskóla Rannsóknaseturs um smáríki þetta árið erum við með þrjá opna fyrirlestra. Í síðustu viku kom Alexandra Cas Granje, sviðsstjóri á stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins og talaði um aðildarviðræður Íslands og ESB séð frá Brussel. Í vikunni var boðið upp á málstofu um norðurslóðir og í dag bjóðum við upp á opinn fyrirlestur með varaframkvæmdastjóra NATO um áskoranir 21. aldar fyrir bandalagið,“ segir Pia Elísabeth Hansson, hjá Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetri um smáríki.

Skólahald hefur gengið vel
„Sumarskólinn hefur gengið mjög vel þetta árið. Við vorum t.d. í fyrsta sinn með umfjöllun um smáríki í Afríku og fengum þekktan fræðimann frá St. Andrews háskóla í Skotlandi til að kenna. Þá var fjallað um samfélagslegt öryggi og mannöryggi svo að eitthvað sé nefnt. Nemendurnir koma frá 15 háskólum um gjörvalla Evrópu og kennararnir sömuleiðis. Í þessari viku mun hópurinn heimsækja Alþingi, almannavarnir og utanríkisráðuneytið,“ segir Pia að lokum.

Námskeiðinu lýkur á laugardag með prófi og nemendurnir halda af landi brott á sunnudag.

deila á facebook