Rannsóknir á hvölum

Dr. Marianne H. Rasmussen er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík.

Við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík eru stundaðar rannsóknir á sjávarspendýrum. Það á vel við því bærinn er einn helsti ákvörðunarstaður hvalaskoðenda á Íslandi. Dr. Marianne H. Rasmussen er forstöðumaður setursins. Doktorsrannsókn hennar fjallaði um íslenska hnýðinga og hljóðtákn sem þeir nota til samskipta. Rannsóknir vísindamanna Háskóla Íslands á hvölum eru einmitt eitt viðfangsefna í þættinum Fjársjóður framtíðar sem Sjónvarpið sýnir í október. Umsjónarmenn þáttarins, þeir Jón Örn Guðbjartsson og Bjarni Felix Bjarnason kvikmyndatökumaður, fóru með Marianne H. Rasmussen út á Skjálfandaflóa í sumarblíðunni og fylgdust með rannsóknum hennar.

Mál hvalanna hefur lengi vakið athygli manna. Fyrir nokkru var danskur háskólanemi við Rannsóknasetrið á Húsavík og rannsakaði flaut sem mælst hefur frá hnýðingum. „Mörg rannsóknarverkefni setursins snúast um hljóðsamskipti sjávarspendýra og atferli þeirra,“ segir Marianne.

„Það er ekki hlaupið að því að þýða mál hvalanna og óvíst raunar hvort allar tegundir hafi heildstætt samskiptaform. Þeir tala í öllu falli ekki neina séríslensku,“ segir Marianne og brosir.

„Við vitum þó að stökklar af höfrungaætt nota flaut til samskipta sín á milli. Hver einstaklingur hefur einstakt flaut sem hann svarar þegar á hann er kallað.“

Vegna sérstöðu sinnar hefur Rannsóknasetrið laðað til sín fjölmarga erlenda háskólanema en áhugi á hvalarannsóknum fer vaxandi víða um heim. Marianne hefur í tvígang skipulagt fjölþjóðlegt vettvangsnám um sjávarspendýr á Húsavík. „Í bæði skiptin var það gert í samvinnu við háskólann í Saint Andrews í Skotlandi,“ segir Marianne.

Marianne leiðbeinir nú tveimur framhaldsnemum við Háskóla Íslands. Edda Elísabet Magnúsdóttir er annar þeirra en hún er í doktorsnámi. Verkefni Eddu snýst um að kortleggja ársdreifingu hvala úti fyrir norðausturströndinni. Hún hefur fengið erlenda styrki til að sinna rannsóknum sínum og vinnur að þeim í samvinnu við erlenda vísindamenn, m.a. frá Havaíeyjum.

 „Við höfum mjög takmarkaða þekkingu á hljóðmerkjum sem stórhveli, höfrungar og hnísur senda frá sér í hafinu umhverfis landið, sérstaklega á þetta við um skíðishvali. Við vitum einnig lítið um ferðir þeirra yfir vetrartímann. Gagnaöflun fer m.a. fram með tveimur upptökutækjum sem vista hljóðbylgjur,“ segir Marianne. „Gögn eru lesin af tækjunum á hafsbotni á 4 til 5 mánaða fresti.“

Helga Rakel Guðrúnardóttir vann að rannsóknum sumarið 2008. Hún hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að vinna verkefni um áhrif hvalaskoðunarferða á hvali. „Fjöldi erlendra rannsókna sýnir að auknar vinsældir hvalaskoðunarferða hafa áhrif á atferli og dreifingu hvala,“ segir Marianne. „Hugmyndin er að kanna hvernig áhrifin eru hér.“

Rannsóknir Eddu Elísabetar og Helgu Rakelar tengjast svokölluðu Wild North verkefni en markmið þess er að stuðla að sjálfbærni í ferðaþjónustu sem tengist villtum dýrum.

„Rannsóknir sem hafa verið unnar við setrið hafa ekki einungis þýðingu fyrir vísindasamfélagið,“ segir Marianne, „þær hafa oft nýst hvalaskoðunarfyrirtækjunum á Húsavík og Hvalasafninu. Gestir sem hingað koma hafa mikinn áhuga á að kynna sér vísindalegu hliðina eftir að hafa rekist á hvalina í sínu náttúrulega umhverfi á hafi úti.”

deila á facebook