Saga Háskóla Íslands í hnotskurn

1911–1920: Mjór er mikils vísir

Alþingishúsið við AusturvöllMikil bjartsýni ríkti um framtíð Háskóla Íslands við stofnun skólans á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar því að allir voru sammála um að hann yrði lykilstofnun í mótun íslensks þjóðernis og grundvöllur sjálfstæðs þjóðríkis á 20. öldinni. Tiltölulega vel var búið að skólanum í upphafi því að fjárveitingar á hvern nemanda voru rausnarlegri fyrstu árin en nokkurn tíma síðan í sögu skólans. Helsta umkvörtunarefni háskólamanna var að skólinn átti ekkert hús fyrir starfsemina og þurfti því að láta sér neðri hæð Alþingishússins nægja. Þar sem nemendur voru aðeins rúmlega 40 og kennslugreinarnar fáar – guðfræði, læknisfræði, lögfræði og „norræna“, auk heimspekilegra forspjallsvísinda – þótti þetta duga til að byrja með.

 

Fyrsti rektor Háskólans, Björn M. Ólsen, prófessor í Björn M. Ólseníslenskri málfræði og menningarsögu, túlkaði viðhorf háskólaforystunnar vel í setningarræðu skólans hinn 17. júní 1911. Þar minnti hann áheyrendur á að þótt skólinn væri einhver minnsti og ófullkomnasti háskóli heimsins stefndi hann að því að verða fullgildur borgari í „lýðveldi vísindanna“, þ.e. í hinu alþjóðlega háskólasamfélagi, um leið og hann þjónaði Íslandi sem gróðrarstöð menntalífs og uppeldisstofnun þjóðarinnar allrar.

 

 

1921–1930: Embættismannaskóli í spennitreyju

Stúdentar í Mensu Academiu árið 1927Snemma á þriðja áratugnum fór fjöldi skráðra nemenda við Háskólann fyrst yfir eitt hundrað og þótti þá mörgum nóg um stúdentafjöldann. Spáðu menn að í landinu yrði brátt til „menntaður öreigalýður“ sem yrði íslensku þjóðfélagi til engra heilla. Komu því fram hugmyndir um fjöldatakmarkanir við Háskólann þótt flestir háskólamenn kysu að tekið yrði á vandanum með því að fjölga námsleiðum við skólann frekar en að takmarka fjölda nemenda. Engar breytingar gátu þó orðið á starfsemi Háskólans fyrr en að hann fékk eigið hús fyrir starfsemina því að þrengslin í Alþingishúsinu komu í veg fyrir alla nýbreytni. Engin hreyfing komst á það mál fyrr en undir lok áratugarins, enda lögðu stjórnvöld lengst af mesta áherslu á ráðdeild í rekstri ríkisins. Kom það m.a. fram í því að kennarastöðum var fækkað við Háskólann. Á þriðja áratugnum hófu stúdentar skipulega baráttu fyrir hagsmunamálum sínum en Stúdentaráð Háskóla Íslands var stofnað árið 1920. Aðalbaráttumálið fyrstu árin var bygging stúdentagarðs við Háskólann en Stúdentaráð rak einnig matstofu stúdenta, Mensa academica, á þriðja áratugnum.

 

1931–1940: Rofar til

Nokkurrar spennu gætti í samskiptum Háskóla Íslands og stjórnvalda á fjórða áratugnum. Ráðherra menntamála skipti sér ítrekað af ráðningum kennara við skólann en allt frá upphafi höfðu forystumenn Háskólans lagt mikla áherslu á sjálfstæði hans gagnvart ríkisvaldinu. Stjórnvöld tóku líka fálega í hugmyndir háskólamanna um að rannsóknir við skólann yrðu efldar en Háskólaráð lagði til árið 1934 að stofnuð yrði rannsóknastofnun sem stjórnað væri af Háskólanum og sinnti hagnýtum rannsóknum fyrir atvinnulífið. Þetta var ekki samþykkt því að svokölluð Atvinnudeild Háskólans var í raun ótengd skólanum. Samskipti Háskólans við stjórnvöld voru þó ekki öll á neikvæðum Fyrsti dráttur í Happdrætti Háskóla Íslands þann 10. mars 1934nótum því að með samþykkt laga um byggingu háskólahúss komst loks skriður á byggingarmál skólans, ekki síst eftir samþykkt laga um Happdrætti Háskóla Íslands árið 1933. Þar naut skólinn stuðnings ráðherra menntamála, Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Þegar lögin voru fyrst lögð fram var gert ráð fyrir að skólinn yrði staðsettur á Skólavörðuholti en að tillögu Knuds Zimsens borgarstjóra var háskólasvæðið flutt á Melana fyrir ofan Vatnsmýrina. Fyrsta húsið tengt Háskólanum sem reis á svæðinu var stúdentagarður (síðar Gamli-Garður) sem var vígður haustið 1934 og 1936 var lagður hornsteinn að háskólabyggingunni. Bjartari tímar voru í vændum.

 

1941–1950: Háskólahöllin

Háskólabyggingin var vígð þann 17. júní 1940Háskólabyggingin var vígð 17. júní 1940 og þótti hún glæsilegasta hús landsins á þeirri tíð. Með húsinu opnuðust miklir möguleikar fyrir nýja starfsemi við Háskólann. Þetta kom sér vel því að mörg þeirra landa sem íslenskir háskólanemar höfðu helst sótt til lokuðust á árum síðari heimsstyrjaldarinnar og því var mikil þörf á fjölbreyttara háskólanámi á Íslandi. Á stríðsárunum var tekin upp kennsla í verkfræði, viðskiptafræði og tannlækningum við Háskólann og einnig til BA-prófs í ýmsum greinum hugvísinda við heimspekideild, einkum í tungumálum. Nemendum fjölgaði hratt allan þennan áratug, og þá ekki síst í heimspekideild, en haustið 1950 voru 630 nemendur skráðir í Háskóla Íslands. Einkennandi fyrir nemendahópinn á þessum árum var vaxandi hlutfall kvenna meðal þeirra sem skráðu sig í Háskólann en sárafáar konur höfðu stundað nám við Háskóla Íslands fyrir síðari heimsstyrjöld. Kennurum fjölgaði líka ört á stríðsárunum en Háskólinn tók á þessum árum fyrstu skrefin frá því að vera embættismannaskóli eingöngu yfir í að veita almennari grunnmenntun á háskólastigi.

1951–1960: Logn á undan stormi

Stúdentar á gangi. Myndin er í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Eftir öran vöxt Háskólans á árunum í og eftir síðari heimsstyrjöld var sjötti áratugurinn tími nokkurrar stöðnunar í starfsemi Háskóla Íslands. Nemendum fjölgaði hægt þennan áratug, enda voru stúdentsárgangar fremur litlir. Fáar nýjungar urðu líka í kennslu við Háskólann og fjárveitingar á hvern nemanda fóru sílækkandi að raungildi. Ítrekaðar tilraunir háskólayfirvalda til að auka rannsóknir og kennslu í náttúrufræðum og öðrum raunvísindum, sem kom m.a. fram í vilja þeirra til að byggja náttúrugripasafn á háskólalóðinni og óskum um að tengja starfsemi Náttúrufræðistofnunar við skólann, runnu út í sandinn. Undir lok áratugarins virtist þó loks hilla undir breytingar því að fyrsti vísir að Raunvísindastofnun Háskólans varð til árið 1958 þegar rannsóknarstofa í geislamælingum var sett á fót, og samkvæmt nýjum háskólalögum sem samþykkt voru árið áður var stofnuð prófessorsstaða í eðlisfræði við Verkfræðideild. Á sjötta áratugnum var einnig farið að kenna ýmsar raungreinar til BA-prófs við heimspekideild en það nám var einkum ætlað tilvonandi kennurum við grunn- og framhaldsskóla.

 

1961–1970: Rammarnir springa

Rammarnir springaHáskóli Íslands hélt upp á hálfrar aldar afmæli sitt árið 1961 í nýju og glæsilegu kvikmyndahúsi, Háskólabíói við Hagatorg. Skólinn stóð þá á þröskuldi nýrra tíma því að von var á nýrri holskeflu stúdenta á næstu árum. Þetta gekk eftir, en skráðum nemendum við Háskólann fjölgaði nærfellt um helming á áratugnum. Mátti þar merkja þá fjölgun barneigna sem varð á Íslandi í og eftir síðari heimsstyrjöld. Engar grundvallarbreytingar urðu á starfsemi skólans á þessum áratug því að eina deildin sem bættist við var viðskiptadeild, sem klofnaði út úr laga- og viðskiptadeild árið 1962. Á þessum árum var þó lagður grunnur að byltingu í skipulagi skólans, ekki síst með starfi svokallaðrar Háskólanefndar sem skilaði viðamikilli skýrslu um framtíð Háskólans árið 1969. Sama ár var nafni verkfræðideildar breytt í verkfræði- og raunvísindadeild en þá hafði raungreinakennslan verið flutt frá heimspekideild yfir í verkfræðideild. Undir lok áratugarins urðu hávaðasöm mótmæli meðal stúdenta bæði austanhafs og vestan, kennd við árið 1968, og barst ómurinn af þeim til Íslands. Vandamálin voru hvarvetna hin sömu, þ.e. sívaxandi stúdentafjöldi í skólum sem skipulagðir voru fyrir örlitla forréttindahópa.

 

1971–1980: Grunnmenntunarskólinn

Stúdentar í Stúdentakjallaranum árið 1975. Myndin er í eigu Ljósmyndasafns ReykjavíkurÞótt Háskóli Íslands hafi verið embættismannaskóli í eðli sínu fram undir lok sjöunda áratugarins þá hafði hann lengi boðið upp á grunnnám í ákveðnum greinum. Á áttunda áratugnum verður eðlisbreyting á Háskólanum þegar grunnnámið verður æ stærri hluti af námsframboði skólans. Heimspekideild ruddi veginn um miðjan sjöunda áratuginn þegar BA-próf varð að þriggja ára grunnnámi í öllum kennslugreinum deildarinnar. Árið 1970 var tekið upp BS-nám í raungreinum við verkfræði- og raunvísindadeild og sama ár var stofnað til námsbrautar í þjóðfélagsfræðum en hún varð að viðurkenndri háskóladeild árið 1976; þar var boðið upp á BA-próf í nokkrum greinum félagsvísinda. Árið 1973 var tekin upp kennsla í hjúkrunarfræði og 1976 í sjúkraþjálfun í sérstökum námsbrautum sem tengdust læknadeild. Önnur breyting á starfi Háskólans var síaukin þátttaka stúdenta í stjórnum og ráðum skólans. Nemendur höfðu fyrst fengið takmarkaðan seturétt í Háskólaráði árið 1957 en á áttunda áratugnum voru þeir orðnir virkir á öllum stigum háskólasamfélagsins, allt frá námsnefndum, sem skipulögðu kennslu í allmörgum námsgreinum, upp í Háskólaráð. Gætti um leið mjög vaxandi róttækni meðal stúdenta sem hófst í kjölfar stúdentauppreisna í Evrópu árið 1968.


1981–1990: Háskóli fyrir alla?

Nemendur í Hátíðasal Háskóla ÍslandsÁrið 1936 spáði byggingarnefnd nýrrar háskólabyggingar því að hálfri öld síðar, eða um miðjan níunda áratuginn, yrðu 400–500 nemendur við Háskóla Íslands. Þetta reyndist algert vanmat á þróun skólans því að nemendafjöldinn var tífalt meiri veturinn 1985–1986 en spáin gerði ráð fyrir, en þá voru tæplega 4.500 nemendur skráðir í Háskóla Íslands – eða hundaðfalt fleiri nemendur en fyrsta starfsár skólans. Þessi mikla fjölgun nemenda var langt umfram fólksfjölgun á Íslandi og endurspeglar vel breytt viðhorf til menntunar. Á Íslandi eins og í nágrannalöndunum er ekki lengur litið á háskólamenntun sem forréttindi þess litla hóps manna sem skipar æðstu stöður í stjórnkerfi ríkisins heldur er hún talin nauðsynlegur undirbúningur fyrir margvísleg störf í samfélaginu. Fjölgun nemenda ber einnig vott um það að háskólamenntun var ekki lengur forréttindi karla eins og hún hafði verið í raun fyrstu áratugina sem Háskólinn starfaði þrátt fyrir lagalegt jafnrétti kynjanna til náms og embætta. Á níunda áratugnum fór fjöldi kvennemenda meira að segja fram úr karlnemendum, bæði meðal innritaðra og útskrifaðra við Háskóla Íslands. Breytingar í kennaraliðinu voru hægari því að við lok áratugarins voru enn innan við 5% prófessoranna konur.

 

1991–2000: Rannsóknarháskólinn

Póstkort af háskólahverfinuFrá upphafi var það hugsjón Háskóla Íslands að vera rannsóknarháskóli enda eru kennsla og rannsóknir óaðskiljanlegir þættir í starfi allra raunverulegra háskóla. Lengst af fengu kennarar þó lítið svigrúm til rannsókna og eiginlegt rannsóknanám var aðeins í boði í örfáum námsgreinum. Undir lok síðustu aldar var unnið skipulega að því að breyta þessu, bæði með því að taka upp meistara- og doktorsnám í öllum deildum skólans og með sérstakri umbun til kennara sem sýndu góð afköst í rannsóknum. Rannsóknanámið byggðist hægt upp á tíunda áratugnum en 16 nemendur í tveimur deildum skólans voru skráðir í meistara- og doktorsnám við upphaf áratugarins en rúmlega 500 í öllum deildum við lok hans. Önnur nýbreytni í starfi Háskólans á tíunda áratugnum var aukin áhersla á alþjóðlegt samstarf. Skólinn hefur lengi notið þess að flestir kennarar hans hafa sótt a.m.k. hluta menntunar sinnar erlendis og hefur Háskólinn að því leyti verið alþjóðleg stofnun frá upphafi. Með aukinni þátttöku í alþjóðlegu menntasamstarfi, bæði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og Evrópska efnahagssvæðisins hefur Háskólinn tengst umheiminum á nýjan hátt. Nú er Ísland og íslenskir háskólar ekki lengur aðeins þiggjendur í alþjóðlegu menntastarfi því að lengst af hefur Háskóli Íslands tekið á móti fleiri erlendum nemendum en hann hefur sent út með styrkjum frá norrænum og evrópskum menntaáætlunum.

 

2001–2011: „Borgari í hinni miklu respublica scientiarum“?

HáskólatorgÍ setningarræðu sinni árið 1911 lýsti Björn M. Ólsen þeirri draumsýn sinni að Háskóli Íslands yrði þegar fram liðu stundir virkur þátttakandi í lýðveldi vísindanna – respublica scientiarum – og að hann gæti „lagt sinn litla skerf til heimsmenningarinnar, numið ný lönd í ríki vísindanna, í samvinnu við aðra háskóla.“ Með vaxandi alþjóðlegu samstarfi og fjölbreyttari rannsóknum og rannsóknanámi virtist skólinn færast nær þessu marki. Árið 2006 setti Háskóli Íslands sér því það langtímamarkmið að komast í tölu hundrað bestu háskóla heimsins eins og slíkt er mælt á alþjóðlegum mælikvörðum. Þetta metnaðarfulla markmið endurspeglar að hluta til þá óraunsæju bjartsýni sem einkenndi íslenskt samfélag á árunum fyrir efnahagshrun en það ber líka vott um þær grundvallarbreytingar sem urðu á skólanum við lok 20. aldar og á upphafsárum hinnar 21. Með öflugum rannsóknum og breiðu námsframboði, bæði í grunn- og framhaldsnámi, ber Háskólinn nú örugglega nafn með rentu; hann er háskóli – universitas – eins og Björn rektor sá fyrir sér árið 1911 að hann yrði í framtíðinni. Það hlýtur að teljast nokkur árangur af einnar aldar starfi skóla sem fékk þá einkunn hjá fyrsta rektornum að Háskólinn væri „eigi að eins hinn yngsti háskóli heimsins, heldur einnig hinn minsti og einhver hinn ófullkomnasti.“

 Höfundur: Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

deila á facebook