Selskinna - dýrmæt heimild um fjáröflun til byggingar stúdentagarðs

Selskinna.
Selskinna.

Á skrifstofu Stúdentaráðs liggur merkilegt rit sem innihheldur dýrmætan vitnisburð um baráttu stúdenta fyrir stúdentagarði. Um var að ræða frumlega fjáröflunarleið stúdenta, Selskinnu, sem er stór og fagurlega gerð bók, þar sem menn gátu ritað nafn sitt gegn því að greiða lítið framlag til stúdentagarðsins.

Stúdentaráð hélt  1. desember hátíðlegan í annað sinn árið 1923, en tilgangur hátíðarinnar var að „Leggja stein í stúdentagarðinn“ ásamt því að „standa að þörfu velferðarmáli þjóðarinnar: að stofnun hælis fyrir uppvaxandi menntamannakynslóðir þjóðarinnar“, eins og það var orðað í Morgunblaðinu.

Selskinna hét raunar réttu nafni Íslendingabók og lýsir Thor Thors formaður Stúdentaráðs henni og tilganginum með gerð hennar þannig:

„Er hún hið ytra mesta þing, bundin í selskinn og spjöld henanr prýdd greyptum málmspjöldum og hornhlífum. En innihald hennar er rithandasafn Íslendinga og er bókinni ætlað að fara um land alt og þess vænst, að hver góður Íslendingur riti nafn sitt í hana. Fyrir að rita í bókina greiðir hver maður eina krónu. Hefir hún tvennan tilgang, að vernda rithönd manna og styrkja stúdentagarðinn.“

Þennan dag rituðu 31 nafn sitt í Selskinnu, fyrstur Klemens Jónsson ráðherra og starfandi landritari á stofnári Háskóla Íslands og á eftir honum nokkrir háskólakennarar og fleiri. Um kvöldið lá bókin frammi á dansleik stúdenta í Iðnó en Einar Benediktsson skáld var fyrstur til að rita nafn sitt, en síðan skrifuðu rúmlega hundrað manns nöfn sín í bókina.

Selskinna mun að vanda liggja frammi á hátíðarhöldum stúdenta á morgun, 1.desember 2011 og geta gestir hátíðarhaldanna ritað nafn sitt í hana. Hún er farin að láta á sjá og auglýsir Stúdentaráð hér með eftir góðviljuðum mönnum eða konum sem hafa getu og vilja til að gera við hana.

Hér er hægt að skoða dagskrá hátíðarhaldanna á morgun, 1. desember 2011

 

Heimild: Jón Ólafur Ísberg: Stúdentsárin, saga stúdenta og Stúdentaráðs. Reykjavík, 1996.

Selskinna. Selskinna. Selskinna. Selskinna.
deila á facebook