Svefntruflanir auka líkur á ýmsum sjúkdómum

Erna Sif Arnardóttir.

„Svefn er mjög mikilvægur fyrir andlega og líkamlega heilsu.  Flestir þurfa 7-8 tíma svefn á nóttu, en algengt er að fólk stytti svefntímann vegna anna og sofi einungis 4-6 tíma,“ segir Erna Sif Arnardóttir, doktorsnemi við Læknadeild, sem í doktorsverkefni sínu rannsakar kæfisvefn og áhrif svefntruflana á fólk. Erna Sif segir okkur frá rannsóknum sínum í og doktorsverkefninu í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar.

„Margir Íslendingar eru greindir með kæfisvefn, svefnsjúkdóm sem einkennist af tíðum öndunarstoppum í svefni. Þegar svefngæði eru trufluð, hvort sem er vegna stytts svefntíma eða svefnsjúkdóms, aukast líkur á ýmsum fylgikvillum, t.d. hjarta- og æðasjúkdómum og sykursýki,“ segir Erna Sif. „Rannsóknin er tvíþætt. Annars  vegar skoðum við áhrif kæfisvefns á ýmis boðefni í blóði sem auka áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum í þeim tilgangi að skilja hvað aðgreinir þá sem eru með hækkun á þessum boðefnum og þá sem eru það ekki. Hins vegar rannsökum við heilbrigða einstaklinga sem þola svefnleysi vel eða illa í athyglisprófum. Við athugum hvort þeir sem standa sig illa í athyglisprófi eftir svefnleysi séu einnig verr til þess fallnir að þola svefnleysi líkamlega. Ein stór spurning er hvort þeir sem þola svefnleysi illa séu í aukinni áhættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma og aðra fylgikvilla stytts svefns.“

Erna Sif segir fyrstu niðurstöður sýna flókið samspil milli kæfisvefns og offitu, þannig að einstaklingar í kjörþyngd með kæfisvefn virðast betur varðir fyrir hjarta- og æðasjúkdómum en þeir sem eru í yfirþyngd. Einnig sjáum við í rannsóknum okkar ólík líkamleg viðbrögð við svefnleysi hjá þeim sem þola það vel og þeim sem þola það illa skv. athyglisprófum.“ Erna Sif segist vonast til að rannsóknin skili betri þekkingu á hlutverki svefns og einstaklingsbundnum mun á svefnþörf.  „Á grunni slíkrar þekkingar má væntanlega veita einstaklingsbundna ráðgjöf um meðferð t.d. við kæfisvefni og jafnvel meta fyrirfram líkur þess að einstaklingur þoli svefntruflanir, t.d. næturvinnu.“

deila á facebook