Þyrlulæknir sem rannsakar hvali og sjóveiki

Hannesi Petersen dósent við Háskóla Íslands.

Bjarni Felix Bjarnason kvikmyndatökumaður er orðlaus yfir því sem hann festir á ræmuna þegar hann beinir linsunni að Hannesi Petersen dósent við HÍ. Það er svartalogn í Hvalfirði og fyrir andartaki féll skúr á afskorinn hvalskjaft. Við Bjarni Felix erum í hvalstöðinni undir fjallinu Þyrli og fyrir stundu var lokið við að skera langreið á planinu. Þótt hvalveiðar Íslendinga séu umdeildar er skurðarplanið líka vettvangur rannsókna. Yfir haus hvalsins stendur Hannes Petersen, dósent við HÍ, þyrlulæknir, yfirlæknir á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítalans og forstöðumaður líffærafræði við Læknadeild HÍ. Hann er með hamar og meitil og lemur títt og ótt. Þetta er vettvangur eins af spennandi innslögum vísindaþáttaraðarinnar Fjársjóður framtíðar.

„Ég er að kanna hvernig stendur á því að hvalurinn, sem er spendýr eins og við, getur synt um í ólgusjó og komist hjá því að verða sjóveikur,“ segir Hannes. „Fyrir milljónum ára skellti hann sér til sunds og kom ekki aftur á land. Mig fýsir að vita hvernig hann hefur aðlagast þessum nýju heimkynnum, sérstaklega með tilliti til innra eyrans. Niðurstöðurnar geta nýst við rannsóknir á hreyfiveiki manna og hjálpað til við að finna lausnir,“ segir Hannes.

Rannsóknir Hannesar hafa beinst að hlutverki innra eyra mannsins í stöðustjórnun og líka að hlutverki annarra skynþátta í stjórnun uppréttrar stöðu okkar. Þetta skiptir líklega meira máli fyrir Íslendinga en margar aðrar þjóðir því að við reiðum okkur að verulegu leyti á fiskveiðar. Á sjónum getur oft verið erfitt að ná jafnvægi og standa uppréttur enda gefur á bátinn á Íslandsmiðum.

„Sjáðu, miðeyra hvalsins er fullt af vatni, öfugt við okkur,“ segir Hannes og dregur vökva út með sprautu. „Þetta kemur í veg fyrir að hljóðhimnan springi þegar hvalurinn kafar. Við viljum hafa loft í miðeyrum okkar, en skilgreinum vökvafyllt miðeyra sem vandamál í börnum sem þjást af eyrnabólgu. Það þarf stundum að leysa með því að setja rör í gegnum hljóðhimnu barnsins sem hleypir vökvanum út og þrýstingnum af miðeyranu. Hjá hvalnum er það lífsspursmál að hafa vökvann. Ekki hjá okkur.“

Hannes segir að rannsóknir sínar á sjóveiki hafi leitt í ljós að sjómenn verða sjóveikir þó svo að þeir kasti ekki upp. Einnig hefur verið sýnt fram á að sjómönnum sé hættara en öðrum við að slasast, ekki bara úti á sjó, heldur líka í landi. „Það að sjóast hefur stundum verið skilgreint sem hraustleikamerki, en aðstæður á sjó eru óeðlilegar og við það að sjóast virðist maðurinn missa ákveðna eiginleika sem snúast um að meta hraða og hreyfingu hluta í nærumhverfi sínu. Þetta veldur slysum þegar í land er komið, en sjóveiki með skertri starfsemi stöðustjórnunar skýrir að einhverju leyti slysin úti á sjó.“

Hannes lítur andartak upp frá iðju sinni og segir: „Ef rannsóknir okkar á hvalnum geta leitt til þess að draga megi úr slysahættu þá er það mikilvægur áfangi í að auka öryggi sjómanna sem vinna að því að bæta lífskjör allra Íslendinga.“

deila á facebook