Vellandi spói í vanda

Borgný Katrínardóttir.

Vísindaþættir- Þáttur 2

Við Háskóla Íslands hafa staðið yfir rannsóknir á varpi spóans sem er einn algengasti varpfuglinn í íslenskri náttúru. Borgný Katrínardóttir vinnur að þessum rannsóknum en hún stundar meistaranám við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og heldur til úti í náttúrunni við rannsóknir sínar. Við Bjarni Felix Bjarnason kvikmyndatökumaður rákumst á hana í Fljótshlíðinni og vellið í spóanum lét notalega í eyrum á meðan við tókum hana tali.

Borgný segir okkur að spóinn sé vaðfugl sem sé ósjaldan mófugl á varptímanum.

„Hreiður spóans er einfalt og áberandi og eggin eru oftast fjögur;” segir Borgný og sýnir okkur hreiður sem dylst engum, með þremur eggjum en eitt hefur horfið úr hreiðrinu. Borgný segir að foreldrarnir skiptist á að sitja á eggjunum en hún hefur komið fyrir myndavél við hreiðrið og ætlar að kanna eggjahvarfið um leið og tími gefst til.  

„Ungarnir eru mjög hreiðurfælnir,” segir Borgný og sýnir okkur unga sem er lagður af stað út í heiminn til að takast á við verkefni lífsins sem miðast við að afla fæðu. Hún er aðallega skordýr.

Rannsóknir Borgnýjar snúast um vistfræði hálfgróinna áreyra en markmið þeirra er að meta mikilvægi slíks landsvæðis fyrir heimsstofn spóans. „Helmingur allra spóa í heiminum verpir á Íslandi og hvergi þéttar en á hálfgrónum áreyrum,“ segir Borgný. „Slík búsvæði eru víðáttumest hérna á Suðurlandi og finnast víða þar sem ár flæða öðru hverju yfir bakka sína og halda gróðurframvindu niðri.“ Borgný segir að hálfgróin svæði meðfram ám séu víða á undanhaldi, meðal annars vegna stýringar vatnsfalla, bráðnunar jökla og landnáms lúpínu.

„Það er líklegt að þessar breytingar á Íslandi muni hafa veruleg áhrif á heimsstofn spóans,“ segir Borgný og grípur fugl sem hún hefur fangað í sérstaka spóagildru. Hún fer fagmannlega að og merkir fuglinn í mestu makindum. Hann er furðurólegur á meðan á merkingunni stendur en verður frelsinu feginn þegar hún sleppir honum. Spóinn er innan fárra mínútna kominn á ný að hreiðrinu þar sem eggin bíða.

Borgný hefur stundar rannsóknir sínar víða um Suðurland í sumar, einkum þó í Rangárvallasýslu, sem er líklega spóaríkasta sýsla í heimi!

Spóinn er farfugl af svokallaðir snípuætt. Hann er háfættur og með langt og íbjúgt nef sem er býsna næmt leitartæki sem fuglinn notar til að leita að æti.  Ungar spóans verða fleygir sex vikna gamlir og eru nú löngu flognir úr hreiðri þeir sem komust á spóalegg.

Meira með myndum í vísindaþætti á RUV.

deila á facebook