Svipmyndir úr sögunni
Um svipmyndir úr sögunni 1911-2011
Háskóli Íslands í 100 ár
Í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands eru hér birtar ljósmyndir með stuttum textabrotum þar sem stiklað verður á stóru í 100 ára sögu skólans. Myndirnar eru flestar í eigu skjalasafns háskólans og eru þær dýrmætur vitnisburður um starfsemi og þróun Háskóla Íslands. Textinn er meðal annars byggður á Aldarsögu Háskóla Íslands 1911 - 2011 og útgefnum Árbókum Háskóla Íslands.
Þegar smellt er á einstakar myndir stækka þær á skjánum. Í mörgum tilvikum er um að ræða myndasyrpur. Þegar farið er með bendilinn á myndina kemur í ljós ör í hvítum ferningi efst í hægra horni og þegar smellt er á hana birtist næsta mynd í syrpunni. Einnig er hægt að nota örvalykla til að fletta myndum í myndasyrpunni.
Svipmyndunum er ekki ætlað að gefa heildstætt sögulegt yfirlit yfir starfsemina heldur er um að ræða léttan myndrænan fróðleik. Áætlað er að fjölga myndunum þegar líður á afmælisárið og eru lesendur afmælisvefsins hvattir til að senda inn myndir og annað áhugavert efni sem þeir eiga í fórum sínum. Ef myndirnar eru í rafrænu formi er best að senda þær með tölvupósti á netfangið afmaeli@hi.is. Ef myndirnar eru í pappírsformi er óskað eftir að fá þær lánaðar til afritunar og skulu þær þá sendar til skjalasafns Háskóla Íslands, Aðalbyggingu, Sæmundargötu 2, 101 Reykjavík. Gjarnan mætti fylgja stuttur myndatexti með til skýringar.


1911 | ||
![]() Háskóli Íslands stofnaður 17. júní 1911 á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Með þessu sköpuðust skilyrði fyrir íslenska vísindastarfsemi og markaði stofnun skólans tímamót í menningarlífi þjóðarinnar. Stofnunarhátíð háskólans var haldin í neðrideildarsal Alþingishússins. Stúdentar voru 45 að tölu, 5 í guðfræðideild, 17 í lagadeild og 23 í læknadeild en í heimspekideild var enginn skráður. Skólinn fékk inni á neðri hæð Alþingishússins sem átti eftir að vera samastaður hans í nærri þrjá áratugi. ![]() Stofnun Háskóla Íslands var órjúfanlega tengd baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæðu þjóðríki og því var rökrétt að skólinn væri formlega stofnaður á Alþingi á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Fyrsti rektor skólans, Björn M. Ólsen, prófessor í íslenskri tungu og menningarsögu, nefndi það í vígsluræðu sinni að hann hefði vonir um að framtíðin yrði björt fyrir sjálfstæðar vísindarannsóknir á norðurhjara þótt háskólinn væri lítill og nýr. ![]() Guðfræðideild er jafnan talin elst deilda Háskóla Íslands þar sem Prestaskólinn var elstur þeirra þriggja embættismannaskóla sem sameinaðir voru og mynduðu Háskóla Íslands ásamt heimspekideild árið 1911 en Prestaskólinn tók til starfa 1847. Löngum var litið á guðfræðideildina sem prestaskóla fyrst og fremst og námið við það miðað. Jón Helgason, fyrrverandi forstöðumaður Prestaskólans, var kjörinn fyrsti forseti guðfræðideildar. ![]() Lagaskóli tók til starfa á Íslandi 1. október 1908 eftir rúmlega hálfrar aldar baráttu Íslendinga fyrir því að lagakennsla flyttist frá Danmörku til Íslands. Hann starfaði í þrjú ár, kennarar voru þrír og nemendur urðu samtals 15. | ||
1912 | ||
![]() Stúdentar frá 1911. Myndin var tekin árið 1912 að loknu „fíluprófi“ (prófi í forspjallsvísindum) í garði Alþingishússins, en þar var Háskóli Íslands til húsa til ársins 1940. Í myndatexta koma nöfn þeirra fram. Námsgreinar skilgreindar Með reglugerð settri 9. október eru námsgreinar Háskóla Íslands skilgreindar og það skýrt nákvæmlega hvaða námsgreinar átti að kenna við hverja deild skólans og prófgreinum við embættispróf lýst í smáatriðum. Skólinn hafði því lítið svigrúm til breytinga á kennsluháttum eða kennslugreinum. Heimspekideild var að nokkru leyti undantekning því að hún var eina deild skólans sem bjó nemendur ekki undir embættispróf. Námi þar lauk með svokölluðu meistaraprófi í íslenskum fræðum, sem gaf engan sérstakan forgang að störfum hjá ríkinu. Á spjaldinu eru myndir af fulltrúum fyrsta háskólaráðs Háskóla Íslands. Myndin var útgefin á bréfspjaldi sem nú er kallað póstkort. Fyrsta Árbók Háskóla Íslands og fylgirit kemur út Fyrsta Árbók Háskóla Íslands var gefin út þetta ár og fjallaði hún um fyrsta starfsár skólans. Hefð skapaðist fyrir því að gefa út fræðileg fylgirit henni samfara og var það fyrsta Stúfs saga eftir fyrsta rektor skólans, Björn M. Ólsen. | ||
1913 | ||
![]() Læknakandídatar, líklega 1913-1914. Frá vinstri: Jón Kristjánsson, Halldór Hansen, Bjarni Snæbjörnsson, Guðmundur Ásmundsson og Jónas Rafnar. 58 nemendur skráðir í HÍ Við Háskóla Íslands eru skrásettir 58 nemendur, þar af tveir við heimspekideild. Sem fyrr komu allir nemendur skólans úr Menntaskólanum í Reykjavík. | ||
1914 | ||
Rýmisskipting Háskóla Íslands í Alþingishúsinu 1) Kennslustofa guðfræðideildar. 2) Kennslustofa læknadeildar. Á síðustu árum háskólakennslu í Alþingishúsinu voru heimspekileg forspjallsvísindi einnig kennd í þessari stofu. 3) Geymsluherbergi fyrir læknadeild (líffæra- og lyfjasafn o.fl.). 4) Herbergi sem stúdentar munu gjarnan hafa kallað „fýlu“ eða „fílu“. Það mun hafa verið notað sem geymsla undir söfn læknadeildar, a.m.k. seinustu ár háskólans í þessu húsi. 5) Fatahengi. 6) Geymsluherbergi fyrir læknadeild. | ||
1915 | ||
Stúdentafélag Háskóla Íslands stofnað Stúdentafélag Háskóla Íslands stofnað. Allir innritaðir nemendur við skólann fengu sjálfkrafa aðild að félaginu. Stúdentafélagið var hugsað sem skemmti- og fræðslufélag og starfaði sem slíkt þar til það leystist upp í pólitískum deilum um miðjan 8. áratug 20. aldar. | ||
1916 | ||
Erfitt reynist að útvega bækur og kennsluáhöld Vegna siglingateppu og annarra vandræða er af heimsstyrjöldinni stöfuðu, eins og það var orðað í Árbók Háskóla Íslands fyrir skólaárið 1915-1916, hafði reynst erfitt að útvega ýmsar bækur og kennsluáhöld er háskóladeildirnar höfðu óskað eftir að kaupa. Helst var hægt að fá bækur frá Norðurlöndunum en þó munu ýmsar sendingar hafa farið forgörðum vegna þess að flutningaskip á leið milli Englands og Íslands voru skotin í kaf af kafbátum. Skráning háskólaborgara Ný regla við skráningu í Háskóla Íslands tekin upp að beiðni Hagstofunnar. Stúdentar voru nú beðnir um að upplýsa um fæðingarstað sinn, fæðingardag og ár, foreldra sína, stúdentsár, meðaleinkunn við stúdentspróf og hvaða ár þeir eru skrásettir sem háskólaborgarar. | ||
1917 | ||
Fyrstu styrkir veittir úr Háskólasjóði Hins íslenska kvenfélags Fyrstu styrkir veittir úr Háskólasjóði Hins íslenska kvenfélags. Tveir læknanemar við háskólann, þær Kristín Ólafsdóttir og Katrín Thoroddsen, hlutu hvor um sig 45 króna styrk. Sjóðurinn var afhentur Háskóla Íslands árið 1916 og nam hann þá rúmlega fjögur þúsund krónum. Fénu var ætlað til styrktar efnilegum kvenstúdentum til náms við Háskóla Íslands samkvæmt skipulagsskrá. ![]() Kristín Ólafsdóttir útskrifast með embættispróf í læknisfræði og er fyrst kvenna sem lýkur prófi frá Háskóla Íslands. Rannsóknastofa háskólans í sýkla- og meinafræði tekur til starfa Rannsóknastofa háskólans í sýkla- og meinafræði tekur til starfa og Stefán Jónsson skipaður dósent. Stofan var fyrst til húsa í kjallara á Laufásvegi 25 en fluttist síðar í Kirkjustræti 12. Í tilefni af Alþingishátíðinni árið 1930 færðu Þjóðverjar Íslendingum að gjöf fullkomin tæki í rannsóknastofu en það varð hvati til að byggja húsnæði yfir þau. Stofan fluttist í nýtt húsnæði á lóð Landspítalans við Barónsstíg í ágúst 1934 þar sem kennsla í sýkla- og meinafræði fór fram. | ||
1918 | ||
Úr setningarræðu rektors Háskóla Íslands Í Árbók Háskóla Íslands 1917-1918 víkur Ágúst H. Bjarnason rektor að heimsstyrjöldinni sem þá geisaði í Evrópu: „Erlendis láta nú miljónir ungra manna lífið á vígvöllunum fyrir land sitt og þjóð. Hvers ætti þá að mega vænta af yður, sem lifið hjer í ró og næði og við tiltölulega litlar áhyggjur? Enginn krefst þess, að þjer deyjið fyrir ættjörð yðar, en þjer eigið að lifa fyrir hana og gera þjóð yðar sem besta og farsælasta. Það er bein siðferðisskylda yðar og þjer sverjið það síðar í embættisnafni að leggja yður alla fram til þessa.“ Íslensk skólamál færast að fullu í hendur innlendra stjórnvalda Íslensk skólamál færast að fullu í hendur innlendra stjórnvalda þegar Ísland verður fullvalda ríki 1. desember. Þar sem sérstakir námsstyrkir til íslenskra stúdenta við Kaupmannahafnarháskóla voru þá lagðir af höfðu fæstir annan kost en að nema við Háskóla Íslands í þeim fjórum deildum sem þar voru í boði. ![]() Björn M. Ólsen hlýtur fyrstur manna heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands hinn 17. júní. Björn var jafnframt fyrsti rektor Háskóla Íslands og var hann sæmdur nafnbótinni þegar hann lét af embætti. Heiðursdoktorsskjalinu fylgdi gullhringur frá samkennurum með mynd af stefi úr norrænni goðafræði, Iðunni með eplið. | ||
1919 | ||
![]() Páll Eggert Ólason lögfræðingur ver fyrstu doktorsritgerðina við Háskóla Íslands. Hann gegndi síðar embætti rektors skólans veturinn 1923-1924. 84 stúdentar skráðir í Háskóla Íslands Um haustið þetta ár eru 82 karlar og 2 konur skrásettir stúdentar við Háskóla Íslands. Á háskólaárinu sem hefst um haustið þetta ár voru 20 stúdentar í guðfræðisdeild, þar af fjórir nýskrásettir. Í læknadeild voru 33 stúdentar, þar af þrír nýskráðir, og meðal eldri læknastúdentanna var ein kona, Katrín Thoroddsen, og var hún önnur tveggja kvenna sem þá var í skólanum. Í lagadeild voru flestir nýskráðra, alls tólf, af 26 stúdentum sem skráðir voru í deildina. Í heimspekisdeild voru þá fimm stúdentar, tveir þeirra skráðu sig á árinu og varð annar þeirra síðar þjóðþekktur, Davíð Stefánsson, skáld, frá Fagraskógi, þá 24 ára gamall. Meðal eldri stúdentanna í deildinni var hin kvennanna tveggja sem þá voru í skólanum, Dýrleif Árnadóttir. | ||
1920 | ||
Stúdentaráð stofnað Stúdentaráð stofnað. Fyrsta kosning til Stúdentaráðs fór fram 11. desember árið 1920, en félagið var og er hagsmuna- og félagsmálaráð stúdenta. | ||