Svipmyndir úr sögunni

Um svipmyndir úr sögunni 1911-2011

Í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands eru hér birtar ljósmyndir með stuttum textabrotum þar sem stiklað verður á stóru í 100 ára sögu skólans. Myndirnar eru flestar í eigu skjalasafns háskólans og eru þær dýrmætur vitnisburður um starfsemi og þróun Háskóla Íslands. Textinn er meðal annars byggður á aldarsöguriti um Háskóla Íslands, sem gefið verður út á árinu og útgefnum Árbókum Háskóla Íslands. 

Þessi ör táknar að hægt sé að fletta yfir á næstu mynd ef smellt er á hana.

Þegar smellt er á einstakar myndir stækka þær á skjánum. Í mörgum tilvikum er um að ræða myndasyrpur. Þegar farið er með bendilinn á myndina kemur í ljós ör í hvítum ferningi efst í hægra horni og þegar smellt er á hana birtist næsta mynd í syrpunni. Einnig er hægt að nota örvalykla til að fletta myndum í myndasyrpunni.

1941
Opnir fyrirlestrar í HÍ fyrir almenning

Rektor Háskóla Íslands próf. Alexander Jóhannson gekkst fyrir því að haldnir yrðu fyrirlestrar fyrir almenning í skólanum, því aðstaðan í hinum nýju húsakynnum bauð upp á rýmri aðstöðu til þessa. Þegar á fyrsta starfsári skólans í Aðalbyggingu fluttu nokkrir háskólakennarar fræðandi fyrirlestra, hver úr sinni grein. Fræðslufyrirlestrarnir urðu reglulegir mörg ár, en þeir voru fluttir á sunnudögum í hátíðasal háskólans og öllum heimill aðgangur, meðan húsrúm leyfði. Tímarit var því gefið út þar sem fyrirlestrar voru prentaðir, á árunum 1941-1954.

Háskólaráð leigir Tjarnargötu 10 D undir kvikmyndahúsarekstur

Háskólaráð sækir um það til bæjarstjórnar að fá á leigu hús undir kvikmyndarekstur, sem Reykjavíkurbær átti í Tjarnargötu 10 D og áður hafði verið notað til ísgeymslu. Samþykkti bæjarstjórn að leigja háskólanum húsið. Vinna við breytingar á húsinu hófst í nóvember 1941, undir stjórn arkitektana Eiríks Einarssonar og Sigurðs Guðmundssonar. Kvikmyndahúsið tók síðar til starfa tæpu ári síðar og hlaut nafnið Tjarnarbíó en það tók 387 manns í sæti. Reksturinn skilaði Sáttmálasjóði töluverðum ágóða. Starfsemin var undanfari byggingar Háskólabíós.

Lagadeild verður að laga- og hagfræðideild

Heiti lagadeildar breytist í laga- og hagfræðideild (síðar viðskiptadeild) er formleg samvinna þessara deilda hófst. Árið 1962 varð lagadeild aftur sérstök háskóladeild.Viðskiptaháskólinn, sem hafði starfað um skamma hrið áður, var lagður niður þegar Háskóli Íslands tók upp kennslu í viðskipta- og hagfræði við lagadeildina.

1942
Byggingarnefnd Nýja-Garðs

Byggingarnefnd Nýja-Garðs, skipuð vorið 1942. Í fremri röð, lengst til vinstri á myndinni, er Ásgeir Ásgeirsson, bankastjóri (síðar forseti Íslands 1952-1968), skipaður af ríkisstjórninni, í miðið er Alexander Jóhannesson, rektor Háskóla Íslands, og lengst til hægri er Ágúst H. Bjarnason prófessor, skipaður af háskólaráði. Enn fremur voru í nefndinni lagastúdentarnir Pétur Thorsteinsson, Benedikt Bjarklind, Lárus Pétursson og Ásberg Sigurðsson.

Almennt eftirlit með námi stúdenta tekið upp

Með háskólareglugerð þetta ár var fyrst tekið upp almennt eftirlit með námi stúdenta. Þessu var aðallega fylgt eftir með tvennum hætti: annars vegar með tilhögun prófa og hins vegar með námsferilsbókum. Einnig var reynt að koma á fastri skipan námsgreina. Reglugerðin var samin í kjölfar setningar nýrra laga og var hún staðfest 30. júní þetta ár.

Húsmæðrakennaraskóli Íslands fær afnot af kjallara háskólans

Að tilmælum ríkisstjórnarinnar fær Húsmæðrakennaraskóli Íslands afnot af húsnæði í kjallara Aðalbyggingar háskólans þetta ár. Húsnæðið átti að vera til bráðabirgða en skólinn ílengdist þar til vorsins 1954. Tók háskólinn húsrýmið þá til sinna eigin þarfa.

BA-nám í námsgreinum heimspekideildar hefst

BA-nám hefst í námsgreinum heimspekideildar. Námið var hugsað sem hagnýtt nám tengt kennslustörfum.

1943
Fyrstu stúdentarnir flytja inn á Nýja-Garð

Fyrstu stúdentarnir flytja inn á Nýja-Garð árið 1943. Garðurinn var fullbúinn í september 1943, tæplega hálfu öðru ári eftir að byggingarframkvæmdir hófust. Í Nýja-Garði var 63 herbergi og fyrsta veturinn fengu 90 stúdentar þar inni, með því að tveir bjuggu í mörgum einbýlisherbergjum vegna húsnæðisvandræða stúdenta. Arkitektarnir Sigurður Guðmundsson og Eiríkur Einarsson teiknuðu Nýja-Garð.

Embætti háskólabókavarðar stofnað

Embætti háskólabókavarðar stofnað með lögum. Af fengnum tillögum háskólaráðs var Einar Ól. Sveinsson skipaður í embættið en hann hafði verið forstöðumaður safnsins árin á undan. Á myndinni stendur hann í hópi prúðklæddra manna á vígsludegi Aðalbyggingarinnar.

1944
Verkfræðideild stofnuð

Verkfræðideild stofnuð með lögum eftir að kennsla í verkfræði hafði farið fram í full fjögur ár.

Orðabók háskólans

Hinn 29. september samþykkir háskólaráð að ráða mann til að hefja orðtöku rita eftir fyrirmælum kennara í íslenskum fræðum. Samþykktin markar upphaf starfsemi Orðabókar háskólans. Í kjölfarið var Árni Kristjánsson ráðinn til að vinna að orðtökunni og réttum tveimur árum síðar var komið á yfirstjórn orðabókarverkefnisins.

Sjá nánar

Nemendur og kennarar guðfræðideildar

Nemendur og kennarar guðfræðideildar veturinn 1944-1945.

1945
Kennsla í tannlæknisfræði hefst

Kennsla í tannlæknisfræði hefst.

Stúdentaráð beitir sér í málefnum stúdenta

Stúdentaráð berst fyrir því að stúdentar fái greitt kaup fyrir verklegt nám og fær því framgengt að laganemum sem stunda verklegt nám hjá opinberum dómendum yrðu greiddar 800 krónur í mánaðarkaup. Ráðið skipulagði sams konar réttindabaráttu fyrir stúdenta úr öðrum deildum háskólans.

Útgáfa blaðsins Vér mótmælum allir

Stúdentafundur haldinn um herstöðvarmálið, stúdentaráð stendur í kjölfarið að útgáfu blaðsins Vér mótmælum allir ásamt öllum stjórnmálafélögum innan háskólans og Stúdentafélagi Reykjavíkur.

1946
Ný fræðslulöggjöf sett á Íslandi

Ný fræðslulöggjöf sett á Íslandi árið 1946. Með löggjöfinni voru opinberir skólar í landinu, sem voru kostaðir eða styrktir af almannafé, í fyrsta sinn felldir inn í skilgreint, samfellt skólakerfi og var það grundvallarmarkmið laganna. Samkvæmt nýju lögunum var tekið upp samræmt skólakerfi um land allt sem greindist í fjögur stig, barnafræðslustig, gagnfræðastig, menntaskóla- og sérskólastig og háskólastig.

Sjá nánar

Stúdentaráð fundar

Stúdentaráð 1946-1947.

Íþróttahús Háskóla Íslands í byggingu

Íþróttahús Háskóla Íslands í byggingu. Það var tekið formlega í notkun ári síðar.

1948
Íþróttahús Háskóla Íslands tekið í notkun

Íþróttahús Háskóla Íslands tekið í notkun. Bygging hússins var hafin vorið 1945 en arkitektar þess eru Gísli Halldórsson og Sigvaldi Thordarson. Húsið var að mestu fullgert þetta ár og hófst kennsla í því 2. apríl 1948.

Tillöguuppdráttur að sundlaug við Íþróttahús HÍ

Tillöguuppdráttur að sundlaug Íþróttahúss Háskóla Íslands. Af henni varð þó ekki.

17. júní hátíðahöld við HÍ

Hátíðahöld við Háskóla Íslands en braggar eru í baksýn.

Björn Sigurðsson forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar á Keldum
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hefur starfsemi

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hefur starfsemi. Stofnunin er háskólastofnun sem tengist læknadeild en hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag. Meginviðfangsefni er í hnotskurn rannsóknir á sjúkdómum, einkum í dýrum, og varnir gegn þeim.  Lög um Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum voru staðfest árinu áður, eða árið 1947, og Björn Sigurðsson læknir ráðinn forstöðumaður.

Sjá nánar

1949
Aðstoðarháskólaritari Háskóla Íslands

Erla Elíasdóttir helgaði Háskóla Íslands starfsævi sína frá því hún lauk námi 1949 og til starfsloka árið 1990, lengst af sem aðstoðarháskólaritari. Erla sat í stjórn Kvenstúdentafélags Íslands um tíma.

Braggar við Gamla-Garð

Mynd af háskólasvæðinu og bröggum við Gamla-Garð. Í forgrunni sést að framkvæmdir við lóð Aðalbyggingarinnar eru hafnar.

Ný reglugerð um tannlæknanám

Ný reglugerð gefin út um nám í tannlæknafræði, þann 2. nóvember þetta ár. Til að auka aðsókn að tannlæknanáminu var það aðskilið frá læknanáminu utan þess að efnafræði var sameiginleg námsgrein. Auk þessa var námstíminn ætlaður 5 ár og prófinu skipt í fyrsta, annan og þriðja hluta. 

Upplýsingaskrifstofa stúdenta útvegar bækur

Upplýsingaskrifstofa stúdenta útvegar stúdentum kennslubækur til sölu frá útlöndum um haustið.

1950
Háskólabókasafn

Háskólabókasafn hefur starfað í áratug. Húsnæðið var nú fullbúið og lokið við að gera eldtraust herbergi í kjallara Aðalbyggingar Háskóla Íslands. Safninu höfðu áskotnast fjölmargar bókagjafir.

Stúdentaráð gefur út stúdentaskírteini

Stúdentaráð gefur út ný stúdentaskírteini, afhendir þau gegn 10 króna gjaldi og heldur nákvæma skrá yfir alla þá sem skírteini fengu en þeir voru 223 talsins. Út á skírteinin hlutu stúdentar ýmis fríðindi.

1941-1950