Svipmyndir úr sögunni

Um svipmyndir úr sögunni 1911-2011

Í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands eru hér birtar ljósmyndir með stuttum textabrotum þar sem stiklað verður á stóru í 100 ára sögu skólans. Myndirnar eru flestar í eigu skjalasafns háskólans og eru þær dýrmætur vitnisburður um starfsemi og þróun Háskóla Íslands. Textinn er meðal annars byggður á aldarsöguriti um Háskóla Íslands, sem gefið verður út á árinu og útgefnum Árbókum Háskóla Íslands. 

Þessi ör táknar að hægt sé að fletta yfir á næstu mynd ef smellt er á hana.

Þegar smellt er á einstakar myndir stækka þær á skjánum. Í mörgum tilvikum er um að ræða myndasyrpur. Þegar farið er með bendilinn á myndina kemur í ljós ör í hvítum ferningi efst í hægra horni og þegar smellt er á hana birtist næsta mynd í syrpunni. Einnig er hægt að nota örvalykla til að fletta myndum í myndasyrpunni.

1951
Stúdentar á gangi

Tveir menn á gangi með bók í hönd í skeifunni fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Lestrarsalur framan við Háskólabókasafn

Á myndinni, sem tekin er í lestrarsal framan við Háskólabókasafn þetta ár, sjást tveir menn skoða gögn til rannsókna við Háskóla Íslands. 

Háskóli Íslands 40 ára

Fertugsafmælis háskólans minnst 17. júní með athöfn í Hátíðasal.

Kennsla í uppeldis- og kennslufræðum hefst

Um haustið þetta ár hefur dr. Matthías Jónasson reglulega kennslu í uppeldis- og kennslufræðum í samræmi við breytingu á háskólareglugerðinni 10. sept. það ár, þar sem fræðin eru gerð að skyldunámi fyrir kennaraefni í heimspekideild.  

Stúdentaráð Háskóla Íslands kemur á vinnumiðlun

Stúdentaráð Háskóla Íslands kemur á vinnumiðlun fyrir háskólastúdenta. Ráðið kaus þrjá menn í nefnd til að útvega háskólastúdentum vinnu yfir sumartímann. Nefndin lét prenta umsóknareyðublöð í upphafi ársins og bárust henni 30 umsóknir um vinnu. Nefndin skrifaði í kjölfarið tæplega 20 atvinnufyrirtækjum en hún átti að auki samstarf við ASÍ og Vinnuveitendasamband Íslands. Undirtektirnar voru dræmar, enda var þetta fyrsta tilraun ráðsins til þess að útvega stúdentum vinnu og allmikið atvinnuleysi var á þessum tíma.

Sjá nánar

1952
Ráðin kennari fyrst kvenna við HÍ

Ragnheiður Guðmundsdóttir læknir ráðin kennari við Háskóla Íslands, fyrst kvenna árið 1952. Hún kenndi lífeðlisfræði við tannlæknadeild til ársins 1961.

Háskóli Íslands kaupir íbúð að Hagamel 16

Íbúð við Hagamel 16 keypt fyrir fé nokkurra sjóða vegna húsnæðisskorts Háskóla Íslands. Samþykkt var jafnframt í háskólaráði að hætta verðbréfakaupum fyrir sjóði skólans og stefna að því að verja fé þeirra til kaupa á fasteignum sökum verðfalls peninga á árunum áður.

1953
Sumarnámskeið í uppeldisfræðum haldið við HÍ

Sumarnámskeið haldið í uppeldisfræðum, 21 nemandi gekkst undir próf sem haldið var að því loknu. Samkvæmt fræðslulögum er próf í uppeldisfræðum skilyrði til að öðlast kennararéttindi. Tveimur árum áður hafði Matthías Jónasson hafið reglulega kennslu í uppeldis- og kennslufræðum. Greinarnar voru gerðar að skyldunámi fyrir kennaraefni í heimspekideild samkvæmt háskólareglugerð.

1954
Bókasýning íslenskra fræða haldin

Bókasýning íslenskra fræða 1911-1954 haldin í tilefni 10 ára afmælis lýðveldisins og náði hún til þeirra rita einna sem íslenskir fræðimenn unnu að á þessum tíma. Sýningin var haldin í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Á sýningunni voru höfð til sýnis rúmlega 1.000 bindi og 600 sérprent eða úrtök.

Teikningar af fyrirhuguðu náttúrugripasafni Háskóla Íslands

Teikningar af fyrirhuguðu náttúrugripasafni Háskóla Íslands eftir Gunnlaug Halldórsson. Af byggingu þess varð þó ekki.

Tíðar fundarsetur Stúdentaráðs

Alls voru haldnir 45 fundir í Stúdentaráði háskólaárið 1953-1954 undir stjórn formanns þess, Björns Hermannssonar. Mun þessi fjöldi funda vera algjört einsdæmi. Fundir voru lengst af haldnir í hverri viku og aukafundir eftir þörfum, einkum í sambandi við undirbúning hátíðisdags stúdenta, 1. desember, og blaðaútgáfu fyrir 17. júní.

Karlakór háskólastúdenta hlýtur styrk

Stúdentaráð ákvað að styrkja starfsemi Karlakórs háskólastúdenta og var honum veittur 2.500 króna styrkur. Var starfsemi kórsins blómleg á árinu.

1955
Verðandi húsmæðrakennarar marsera

„Háskólamars!“ Alexander Jóhannesson háskólarektor, sem átti hina bestu samvinnu við kennara og nemendur Húsmæðrakennaraskólans og tók iðulega þátt í veislufagnaði þeirra, innleiddi mars um ganga og anddyri Háskólans, að loknu borðhaldi, á árshátíð hinna verðandi húsmæðrakennara.

774 stúdentar innritaðir

Við upphaf skólaárs 1955-1956 voru 774 stúdentar innritaðir til náms.

Læknadeild og verkfræðideild HÍ gerast aðilar að Kjarnafræðinefnd Íslands

Læknadeild og verkfræðideild gerast aðilar að Kjarnafræðinefnd Íslands. Bandaríkjastjórn gaf skólanum bókasafn um kjarnorkuvísindi sem var tekið til varðveislu í háskólabókasafni.

Háskóli Íslands stofnar handritaútgáfunefnd

Háskóli Íslands stofnar handritaútgáfunefnd árið 1955 og starfaði hún til ársins 1962 þegar Handritastofnun Íslands tók við hlutverki hennar. Á 51. fundi nefndarinnar, 22. maí 1967, skýrði formaður stjórnar frá því að fyrsta skóflustunga hefði verið tekin að Árnagarði þar sem Handritastofnun var ætlaður staður.

1956
Teikningar af Háskólabíó
Hagkvæmar utanlandsferðir fyrir stúdenta

Stúdentaráð samþykkir á fundi sínum í mars þetta ár tillögu um að kjósa þriggja manna ferðanefnd sem er ætlað að bjóða stúdentum hagkvæmar ferðir til útlanda. Síðar var Ferðaskrifstofa stúdenta stofnuð. Stúdentaráð samþykkir jafnframt tillögu um undirbúning að byggingu hjónagarðs fyrir stúdenta.

Konungshjón Danmerkur heimsækja HÍ

Tekið á móti konungshjónum Danmerkur í háskólanum. Rektor ávarpaði hina tignu gesti.

1957
Stúdentaráð 1957-1958

Stúdentaráð háskólaárið 1957–1958.

Stúdentar fá einn fulltrúa í háskólaráð

Með lögum settum þetta ár fengu stúdentar einn fulltrúa í háskólaráði. Frá árinu 1978 fjölgaði síðan fulltrúum stúdenta í fjóra en auk þeirra áttu sæti í ráðinu háskólarektor, deildarforsetar og tveir fulltrúar Félags háskólakennara. Með lögum um Háskóla Íslands frá 1999 fækkaði aftur í ráðinu og stúdentar fengu þá tvo fulltrúa sem kosnir voru beint af stúdentum.

Almenningssími í Aðalbyggingu HÍ

Almenningssíma komið upp í anddyri Aðalbyggingar Háskóla Íslands að beiðni Stúdentaráðs.

1958
Skólanum falinn rekstur segulmælingastöðvar

Skólanum falinn rekstur segulmælingastöðvar sem Rannsóknarráð ríkisins hafði komið upp við Leirvog í Mosfellssveit. Síðar var starfseminni komið undir einn hatt ásamt rannsóknastofu um mælingar á geislavirkum efnum og nefndist sú rannsóknastofa Eðlisfræðistofnun.

Vinnu- og húsnæðismiðlun stúdenta

Stúdentaráð samþykkir að gera tilraun til að starfrækja húsnæðismiðlun. Starfsmaður Ferðaþjónustu stúdenta tók starfið að sér og tryggðu á annan tug stúdenta sér herbergi á vegum miðlunarinnar þetta ár. Stúdentaráð hafði um þó nokkurt skeið óskað eftir því að ráðinn yrði fastur starfsmaður ráðsins. Vinnu- og húsnæðismiðlun stúdenta efldist jafnt og þétt en hafist var handa í nóvember við að útvega stúdentum vinnu í jólaleyfinu. Fengu 20 stúdentar vinnu og gátu þeir valið úr ýmsum störfum.

Svipmyndir úr verkfræðideild

Myndasyrpan er af lífi nemenda og kennarara verkfræðideildar Háskóla Íslands frá árunum 1957-1960.

1959
Stúdentaráð hlýtur fjármagn

Fjármagn fæst til að ráða fastan starfsmann Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Starfið var auglýst og sóttu tveir stúdentar um. Ráðið samþykkti samhljóða að veita starfið Herði Sigurgestssyni.

Starfsfólk Háskólahappdrættis
Dregið í Happdrætti Háskóla Íslands
1960
Lýkur doktorsprófi fyrst kvenna frá Háskóla Íslands

Selma Jónsdóttir lýkur doktorsprófi fyrst kvenna frá Háskóla Íslands. Hún var eina konan frá upphafi til ársloka 1989 sem það gerði. Selma var listfræðingur og gengdi starfi forstöðumanns Listasafns Íslands.

Ritvélar

Háskólakennarar notuðust við ritvélar áður en ritvinnslutölvur litu dagsins ljós.

Nemendafjöldi HÍ 1960-1965

Á árunum 1960-1965 eru tæplega 850 manns að meðaltali innritaðir í Háskóla Íslands.

Skýrsla um vísindastarf HÍ 1950-1960

Skýrsla gefin út af Rannsóknarráði ríkisins sem ber heitið Þróun rannsókna og tilrauna á Íslandi 1950-1960. Skýrslan gefur glögga mynd af því vísindastarfi sem átti sér stað við háskólann á þessum áratug.

Gamli-Garður rekinn sem hótel á sumrin

Gamli-Garður (Stúdentagarðurinn við Hringbraut) nefndist einnig Hótel Garður, því húsið var rekið sem hótel á sumrin frá árinu 1960.

Háskóli Íslands festir kaup á hæð við Laugarveg 105

Háskóli Ísland festir kaup á einni hæð í stórhýsinu Laugavegi 105, við Hlemmtorg, fyrir náttúrugripasafn. Var þessari ráðstöfun ætlað að vera til bráðabirgða meðan beðið væri eftir að reist yrði Náttúrufræðahús á háskólalóðinni.

1951-1960