Svipmyndir úr sögunni

Um svipmyndir úr sögunni 1911-2011

Í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands eru hér birtar ljósmyndir með stuttum textabrotum þar sem stiklað verður á stóru í 100 ára sögu skólans. Myndirnar eru flestar í eigu skjalasafns háskólans og eru þær dýrmætur vitnisburður um starfsemi og þróun Háskóla Íslands. Textinn er meðal annars byggður á aldarsöguriti um Háskóla Íslands, sem gefið verður út á árinu og útgefnum Árbókum Háskóla Íslands. 

Þessi ör táknar að hægt sé að fletta yfir á næstu mynd ef smellt er á hana.

Þegar smellt er á einstakar myndir stækka þær á skjánum. Í mörgum tilvikum er um að ræða myndasyrpur. Þegar farið er með bendilinn á myndina kemur í ljós ör í hvítum ferningi efst í hægra horni og þegar smellt er á hana birtist næsta mynd í syrpunni. Einnig er hægt að nota örvalykla til að fletta myndum í myndasyrpunni.

1971
Lögberg undir lagadeild

Í mars árið 1969 ákvað háskólaráð að byggt skyldi á lóðinni á milli Aðalbyggingar og Nýja-Garðs og að hin nýja bygging yrði framtíðaraðsetur lagadeildar. Sumarið 1970 hófust byggingarframkvæmdir við Lögberg, fyrsta hæðin var tekin í notkun haustið 1971 og ári síðar húsið allt. Fyrsta samþykkta tillagan að nafngift hússins var Úlfljótsgarður en það hlaut að lokum nafnið Lögberg.

Afhending Flateyjarbókar

Magnús Már Lárusson háskólarektor tekur við Flateyjarbók úr höndum Gylfa Þ. Gíslasonar menntamálaráðherra þann 21. apríl 1971.

Sjá nánar

Sprengja í fjölgun nemenda

Á árunum frá 1970-1975 varð sprengja í fjölgun nemenda við Háskóla Íslands. Á örfáum árum fjölgaði stúdentum um hvorki meira né minna en tæplega eitt þúsund manns. Komust þeir upp í tæplega 2.200 manns og var því um að ræða tæplega tvöföldun nemendafjöldans á aðeins fimm árum.

68 kynslóðin

Þegar „68-kynslóðin“ var áberandi í samfélaginu urðu til margar nýjar hugmyndir um hlutverk námsmanna. Námsmenn voru ekki lengur fyrst og fremst karlkyns og úr efri stéttum þjóðfélagsins heldur voru þeir nú af báðum kynjum, upprunnir úr flestum stéttum og gengu inn í háskólana með ólíkari hugmyndafræðilegan og félagslegan bakgrunn en forverar þeirra.

Sjá nánar

Stúdentaheimilið við Hringbraut opnað

Stúdentaheimilið í eigu Félagsstofnunar stúdenta gjörbreytti allri félagsaðstöðu stúdenta.

Nokkrar stofnanir á árinu við HÍ

Nokkuð margar stofnanir taka til starfa eða eru stofnaðar á árinu. 

Málvísindastofnun Háskóla Íslands tekur til starfa undir nafninu Rannsóknastofnun í norrænum málvísindum. Hún varð hins vegar að Málvísindastofnun árið 1983.

Sjá nánar

Kennaraskólinn breytist í Kennaraháskóla Íslands

Kennaraskólinn breytist í Kennaraháskóla Íslands með lögum og tekið var upp þriggja ára kennaranám á háskólastigi. Fyrsti rektor Kennaraháskólans var Broddi Jóhannesson. Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands sameinuðust síðar árið 2008.

1972
Stúdentar mótmæla heimsókn Williams Rogers

Stúdentar mótmæla heimsókn William Rogers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Árnagarði þar sem Handritastofnun er til húsa. Mótmælendum tókst að koma í veg fyrir heimsókn hans í Handritastofnunina.

Stúdentar mótmæla við inngang Árnagarðs

Stúdentar mótmæla þann 3. maí þetta ár heimsókn William Rogers, utanríksráðherra Bandaríkjanna í Árnagarð þar sem Handritastofnun er til húsa. Mótmælendum tókst að koma í veg fyrir heimsóknina en hér sjást þeir með mótmælaborða við inngang hennar.

Sjá nánar

Fullveldishátíð stúdenta í Háskólabíói

Fullveldishátíð stúdenta í Háskólabíói 1. desember 1972 var haldin undir kjörorðinu Gegn hervaldi – Gegn auðvaldi. Í frétt Tímans er tekið fram að forseti Íslands, Kristján Eldjárn, hafi setið samkomuna, einnig settur háskólarektor, Jónatan Þórmundsson. Álfheiður Ingadóttir stud. scient. setti samkomuna. Guðrún Hallgrímsdóttir matvælafræðingur, Ragnar Árnason þjóðfélagsfræðinemi og Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur héldu ræður.

Sjá nánar

VR-I tekið í notkun

VR-I tekið í notkun. Í byggingunni eru verklegar og bóklegar kennslustofur og skrifstofur. Arkitekt VR húsa Háskóla Íslands er Ulrik Arthúrsson.

Háskólinn eignast Skólabæ við Suðurgötu

Háskólinn eignast Skólabæ við Suðurgötu þegar Jón E. Ólafsson hæstaréttarlögmaður og kona hans, Margrét Jónsdóttir, afhentu háskólanum húseign sína að gjöf. Mötuneyti háskólakennara var þar til húsa fram til 1988 þegar það var flutt í Tæknigarð. Í Skólabæ hafa einnig verið gestaíbúðir, skrifstofur og salur fyrir móttökur og smærri viðburði.

Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi komið á fót

Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi er komið á fót og tók hún yfir allt starf og eignir Handritastofnunar Íslands. Hafði stofnunin bæði sjálfstæðan fjárhag og sérstaka stjórn. Nafnbreytingin var gerð í samræmi við ákvæði í sáttmálanum milli Dana og Íslendinga um hvernig staðið yrði að afhendingu hluta hinna íslensku handrita frá Danmörku.

Matsala stúdenta

Matsala stúdenta hefur starfsemi, en hún breytti aðstöðu háskólaborgara töluvert.

1973
Kennsla í hjúkrunarfræði hefst

Kennsla í hjúkrunarfræði hefst við Háskóla Íslands. Árið 1973 voru 24 nemendur skráðir í hjúkrunarfræði.

Háskóli Íslands kaupir Aragötu 14

Háskóli Íslands kaupir húsið, en fyrri eigandi þess var Ásgeir Ásgeirsson, fyrrum forseti Íslands. Húsnæðið var einkum notað fyrir kennslu og skrifstofuhald. Húsið er í dag nýtt undir starfsemi sálfræðideildar skólans.

Stúdentar í kennslustund

Myndin er af stúdentum í kennslustund í byrjun áttunda áratugarins.

1974
Sérlegur byggingarstjóri við háskólann ráðinn

Sérlegur byggingarstjóri við háskólann ráðinn þetta ár. Sá var Maggi Jónsson sem hafði þá nýlega lokið doktorsprófi í arkitektúr. Hann sá um húsnæðismál skólans og sinnti ráðgjafahlutverki í þeim efnum. Maggi Jónsson kom að byggingarstjórn háskólans á árunum 1973-2002. Hann teiknaði m.a. Odda og Öskju.

Nokkrar stofnanir á árinu við HÍ

Nokkuð margar stofnanir taka til starfa eða eru stofnaðar á árinu. 

Lagastofnun Háskóla Íslands hefur starfsemi þetta ár. Lagastofnun er vísindaleg rannsóknastofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands. 

Líffræðistofnun háskólans stofnuð með reglugerð. Í Líffræðistofnun eru stundaðar undirstöðurannsóknir í líffræði.

Sjá nánar

Kona kjörin formaður Stúdentaráðs

Í mars árið 1974 er kona í fyrsta skipti kjörin formaður Stúdentaráðs, Arnlín Óladóttir læknanemi. Kvenréttindi urðu í fyrsta sinn baráttumál á vettvangi stúdenta.

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn stofnuð

Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn stofnuð sem ríkisstofnun og heyrir undir utanríkisráðuneytið. Stofnunin hefur frá stofnun verið nátengd rannsóknastarfi Háskóla Íslands, einkum Líffræðistofnunar.

1975
Kvennasögusafn Íslands stofnað

Kvennasögusafn Íslands stofnað 1. janúar þetta ár. Allur safnkostur þess var afhentur Landsbókasafni en safnið fékk húsnæði á fjórðu hæð Þjóðarbókhlöðu.

VR-II tekið í notkun

VR-II tekið í notkun. Í byggingunni eru kennslustofur, tölvuver og skrifstofur sem tilheyra sem tilheyra verkfræði- og raunvísindagreinum. Arkitekt VR húsa Háskóla Íslands er Ulrik Arthúrsson.

Verkfall háskólastúdenta

Í október 1975 gerðu stúdentar í mörgum deildum Háskólans tveggja daga verkfall til að mótmæla skerðingu námslána. Hér samþykkja stúdentar í einu hljóði á fundi í Árnagarði að halda verkfallinu áfram.

Stúdentakjallarinn tekur til starfa

Stúdentakjallarinn tekur til starfa á vegum Félagsstofnunar stúdenta. Stúdentakjallarinn var mjög vinsæll samkomustaður stúdenta lengi vel.

Hópur í Háskólafjölritun

Myndin er tekin veturinn 1975-1976 í Háskólafjölritun. Á myndinni eru f.v.: Harpa Harðardóttir, Ólína Jónsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Sveindís Þórisdóttir, Elísabet Kristjánsdóttir og Ragnhildur Blöndal. Háskólafjölritun hóf starfsemi árið 1972.

1976
Félagsvísindadeild Háskóla Íslands stofnuð

Félagsvísindadeild Háskóla Íslands stofnuð 15. september þetta ár. Fyrsti forseti deildarinnar til tveggja ára var kosinn Sigurjón Björnsson. Auk hinna upphaflegu greina sem kenndar voru við námsbraut í þjóðfélagsfræðum, þ.e.a.s. stjórnmálafræði og félagsfræði, voru einnig kenndar sem aðalgreinar til BA-prófs sálfræði, uppeldisfræði og bókasafnsfræði. Þá voru kenndar nokkrar aukagreinar, m.a. mannfræði. Nemendur tóku þessari deild strax vel og þegar hún var stofnuð voru nemendur um 300.

Hjónagarðar taka til starfa

Hjónagarðar taka til starfa með 55 leiguíbúðum á vegum Félagsstofnunar stúdenta.

Stúdentar mótmæla

Þann 15. nóvember þetta ár mótmæla stúdentar nýrri tilhögun og reglum um námslán með því að safnast saman í menntamálaráðuneytinu. Össur Skarphéðinsson, síðar alþingismaður og ráðherra, er fremst á myndinni.

1977
Ráðgjafanefnd háskólaráðs um nýbyggingar

Ráðgjafanefnd háskólaráðs um nýbyggingar á háskólalóð skilar viðamikilli skýrslu í júní um húsnæðisþarfir háskólans á tímabilinu 1977-1981, eða „Gráu skýrslunni“ eins og hún var nefnd. Samkvæmt erindisbréfi var nefndarmönnum ætlað að leysa tvö verkefni: að lýsa húsnæðisaðstöðu skólans á háskólalóðinni og brýnustu þörfum næstu fimm árin og að benda á leiðir til að fullnægja húsnæðisþörfum háskólans innan ramma fjárveitinga til nýbygginga.

Sjá nánar

Pólitískur andi stúdenta

Stúdent virðir fyrir sér kosningaáróður á veggjum inni í húsi Félagsstofnunar stúdenta við Hringbraut.

Kvenfrelsisbaráttan gerð að umræðuefni við hátíðahöld stúdenta

Kvenfrelsisbaráttan gerð að umræðuefni við hátíðahöld stúdenta á fullveldisdaginn, 1. desember, þetta ár. Ræður dagsins af þessu tilefni fluttu Bjarnfríður Leósdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir.

Nemendur í Lögbergi

Nemendur tala saman í Lögbergi.

1978
Verklegt nám

Verklegt nám í verkfræði- og raunvísindadeild var kostnaðarsamt því að það krafðist tækja og tiltölulega mikils húsrýmis.

Efnafræðitími í Hátíðarsal Háskólans

Þegar mest þrengdi að háskólanum vegna fjölgunar stúdenta og nýrra námsleiða var Hátíðasalnum í Aðalbyggingu breytt í kennslustofu og síðar lestrarsal. Hér er verið að kenna þar efnafræði í september 1978.

Stúdent utan við aðaldyr aðalbyggingar háskólans

Mörgum nýnemum þótti óþægilega þungt að opna aðaldyr Háskóla Íslands áður en settur var vélrænn opnunarbúnaður á hurðina.

Verkfræðistofnun hefur starfsemi

Verkfræðistofnun hefur starfsemi í tengslum við verkfræðideild. Verkfræðistofnun Háskóla Íslands er rannsóknavettvangur kennara í verkfræðideild og starfar samkvæmt reglugerð frá árinu 1977.

Hagsmunafélag stundakennara stofnað

Í apríl árið 1978 skýrði Stúdentablaðið frá því að stundakennarar við skólann hefðu stofnað með sér hagsmunafélag. Óánægja ríkti þeirra á meðal m.a. vegna lífeyrissjóðsiðgjalda og auk þess áttu þeir ekki aðild að Bandalagi háskólamanna. Um haustið sama ár lýstu stundakennarar við Háskóla Íslands yfir verkfalli. Skrifaði Stúdentablaðið um þann atburð að það hefði verið „í hendi stundakennara að stöðva mestalla kennslu við skólann.“ Þeir gáfu síðan út fréttablað og héldu reglulega fundi.

Sjá nánar

1979
Kennsla í heimspekilegum forspjallsvísindum

Um vorið samþykkir háskólaráð að hætt skyldi kennslu í heimspekilegum forspjallsvísindum í sinni hefðbundnu mynd. Áfram skyldi þó kenna greinina í öllum deildum háskólans og einkunn vera veginn hluti af lokaeinkunn í samræmi við reglur hverrar deildar. Deild var í sjálfsvald sett hvort greinin yrði val- eða skyldugrein.

Samkoma haldin í tilefni 500 ára afmælis Kaupmannahafnarháskóla

Samkoma haldin í tilefni 500 ára afmælis Kaupmannahafnarháskóla 29. apríl. Þar tilkynnti Guðlaugur Þorvaldsson rektor að næsta háskólaár byði Háskóli Íslands fimm fræðimönnum frá Kaupmannahafnarháskóla að halda fyrirlestra við háskólann. Þessir fimm fræðimenn voru allir deildarforsetar Kaupmannahafnarháskóla og komu þeir til vikudvalar og fyrirlestrahalds við Háskóla Íslands í tilefni afmælisins.

Háskóli Íslands fær vélsleða að gjöf

Myndin er tekin vestan við gömlu Loftskeytastöðina 25. maí þetta ár í tilefni af gjöf styrktarsjóðs Eggerts Briem. Um er að ræða tvo kröftuga Skidoo-Alpine vélsleða ætlaða til þykktarmælinga á jöklum.

1980
Listasafn Háskóla Íslands stofnað

Listasafn Háskóla Íslands stofnað í tilefni stórrar listaverkagjafar hjónanna Ingibjargar Guðmundsdóttur og Sverris Sigurðssonar. Gáfu þau háskólanum á þriðja hundrað málverka, aðallega eftir Þorvald Skúlason. Samkvæmt stofnskrá Listasafns Háskóla Íslands er hlutverk safnsins að sinna upplýsinga- og þjónustuhlutverki gagnvart þeim sem stunda rannsóknir á íslenskri myndlistarsögu.

Ferðaskrifstofa stúdenta hefur starfsemi

Ferðaskrifstofa stúdenta hefur starfsemi. Hún var síðar seld Samvinnuferðum –Landsýn árið 1999.

Upptökutjald sett upp innandyra í Málvísindastofnun HÍ

Upptökutjald sett upp innandyra í Málvísindastofnun Háskóla Íslands um 1980 þar sem útbúin var frumstæð hljóðstofa sem notuð var við málrannsóknir.

1971-1980