Svipmyndir úr sögunni

Um svipmyndir úr sögunni 1911-2011

Í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands eru hér birtar ljósmyndir með stuttum textabrotum þar sem stiklað verður á stóru í 100 ára sögu skólans. Myndirnar eru flestar í eigu skjalasafns háskólans og eru þær dýrmætur vitnisburður um starfsemi og þróun Háskóla Íslands. Textinn er meðal annars byggður á aldarsöguriti um Háskóla Íslands, sem gefið verður út á árinu og útgefnum Árbókum Háskóla Íslands. 

Þessi ör táknar að hægt sé að fletta yfir á næstu mynd ef smellt er á hana.

Þegar smellt er á einstakar myndir stækka þær á skjánum. Í mörgum tilvikum er um að ræða myndasyrpur. Þegar farið er með bendilinn á myndina kemur í ljós ör í hvítum ferningi efst í hægra horni og þegar smellt er á hana birtist næsta mynd í syrpunni. Einnig er hægt að nota örvalykla til að fletta myndum í myndasyrpunni.

1981
Deildarráð læknadeildar

Deildarráð læknadeildar frá c.a. 1981-1983.

Háskólasvæðið

Á ýmsu hefur gengið á háskólasvæðinu í gegn um árin, en hér á myndinni sjást lögreglumenn handsama hest við Gamla-Garð við Hringbraut. Fimm lögreglumenn eru búnir að koma höndum yfir hestinn á myndinni.

Fyrsti námsráðgjafinn ráðinn til HÍ

Fyrsti námsráðgjafinn ráðinn til Háskóla Íslands. Skrifstofa hans fékk síðar nafnið Náms- og starfsráðgjöf þar sem starfsmenn veita ráðgjöf og þjónustu frá upphafi til enda háskólanáms. Skrifstofan heldur m.a. utan um námstækninámskeið, náms- og prófkvíðanámskeið og áhugasviðspróf og hefur sérstaka umsjón með þeim nemendum skólans sem þarfnast sértæks stuðnings við nám sitt.

Sjá nánar

Félag umbótasinnaðra stúdenta stofnað

Félag umbótasinnaðra stúdenta stofnað og haslar sér völl í stúdentapólitíkinni.

1982
Lyfjabúð Háskóla Íslands stofnuð

Lyfjabúð Háskóla Íslands stofnuð. Hlutverk hennar var að starfrækja lyfjasölu og annast kennslu og rannsóknir í lyfjafræði lyfsala. Auk þess átti hún að sjá um framleiðslu lyfja og stuðla að framförum í lyfjafræði og lyfjagerð.

Jón Steffensen og kona hans ánafna húseign sína og bókasafn

Á háskólahátíð, 26. júní, var kunngert að Jón Steffensen, fyrrverandi prófessor, og kona hans, Kristín Björnsdóttir, hefðu ánafnað háskólabókasafni eftir sinn dag bókasafn sitt ásamt húseigninni Aragötu 3.

Reglugerð um Stofnun í erlendum tungumálum gefin út

Reglugerð um Stofnun í erlendum tungumálum gefin út 4. október. Fyrsti forstöðumaður hennar var Alan Boucher, sem þá var einnig forseti heimspekideildar. Nafni stofnunarinnar var breytt í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum árið 2001.

Heimspekistofnun Háskóla Íslands sett á laggirnar

Heimspekistofnun Háskóla Íslands sett á laggirnar með reglugerð. Heimspekistofnun er rannsóknastofnun innan Háskóla Íslands á sviði heimspeki.

1983
Endurmenntunarnefnd Háskóla Íslands hefur starfsemi

Endurmenntunarnefnd Háskóla Íslands starfar frá þessu ári til ársins 1991 en þá var sett á stofn með lagabreytingu Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Smám saman þróaðist samvinna við opinberar stofnanir, félagasamtök og einkafyrirtæki. Jafnframt hefur fræðslustarfsemi á vegum stofnunarinnar leitt til þess að stofnuð hafa verið félög og samtök um sértæk fagmál. Námskeiðsgjald hefur staðið undir launum kennara og öðrum rekstrarkostnaði.

Sjá nánar

Úthlutanir hefjast úr Rannsóknasjóði

Úthlutanir hefjast úr Rannsóknasjóði. Hann var stofnaður til að veita kennurum og sérfræðingum háskólans styrki til vel skilgreindra verkefna er hafa vísindalegt gildi að mati sérfróðra umsagnaraðila. Í fyrstu var greitt úr sjóðnum vegna yfirvinnu kennara og sérfræðinga auk annars kostnaðar. Styrkveitingarnar þróuðst svo í að meirihluti fjárins fór til styrktar aðstoðarmönnum við rannsóknir.

Sjá nánar

Skráðir nemendur í upphafi skólaárs

Nemendur við Háskóla Íslands eru skráðir 4.133 við upphaf skólaárs þetta ár. Nýskráðir stúdentar voru samtals 1777. Flestir stúdentar voru skráðir til náms í heimspekideild.

1984
Félag háskólakennara skipar nefnd um eflingu háskólans

Félag háskólakennara skipar nefnd sem skilar tillögum til félagsins og háskólaráðs um eflingu háskólans sem vísindastofnunar með aukið sjálfsforræði.

Þróunarnefnd HÍ fjallar um húsnæðismál skólans

Fáum árum eftir að vinna hófst við byggingu Odda skilaði þróunarnefnd Háskóla Íslands af sér skýrslu þar sem m.a. var fjallað um húsnæðismál skólans. Þróunarnefnd var skipuð árinu áður en verkefni hennar var að vinna úr áætlun til fimm ára sem háskólaráð lét deildir skólans gera um kennslu og rannsóknir með hliðsjón af aukinni eftirspurn eftir háskólanámi. Í skýrslunni kom m.a. fram að skortur á húsnæði væri mikill í Háskóla Íslands.

Lestrarsalur stúdenta í Hátíðasal

Myndin er af lestrarsal í Hátíðasal Háskóla Íslands, líklega tekin um miðjan níunda áratuginn.

1985
Íslensk málstöð tekur til starfa

Íslensk málstöð tekur til starfa 1. janúar í samstarfi Háskóla Íslands og íslenskrar málnefndar. Starfsfólk málstöðvarinnar lagði í starfi sínu höfuðáherslu á tvo þætti, annars vegar almennt íslenskt mál og hins vegar íðorðastarf og rekstur orðabanka með orðaforða úr sérgreinum. Málstöðin veitti daglega málfarsráðgjöf í síma og tölvupósti, vann að gerð og útgáfu stafsetningarorðabóka, íðorðasafna og ýmiss konar leiðbeininga um mál og málnotkun í prentuðu og rafrænu formi.

HÍ gert kleift að hagnýta rannsóknir

Þetta ár fær háskólinn heimild til að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu. Með þessu var skólanum gert kleift að hagnýta rannsóknir sem gerðar eru á hans vegum.

Tækjakaupasjóði komið á fót

Tækjakaupasjóði komið á fót. Samkvæmt núgildandi reglum sjóðsins er tilgangur hans að efla rannsóknir og kennslu við háskólann. Rektor skipar þriggja manna stjórn sjóðsins samkvæmt tilnefningu vísindanefndar, kennslumálanefndar og fjármálanefndar. Sjóðurinn skiptist í sérhæfðan tækjakaupasjóð og verkefnabundinn tækjakaupasjóð.

Vísindanefnd háskólaráðs tekur til starfa

Vísindanefnd háskólaráðs tekur til starfa. Henni er ætlað að stuðla að markvissri rannsóknastarfsemi í Háskóla Íslands og standa fyrir umræðu um eðli og virkni rannsókna á hinum margvíslegu fræðasviðum. Vísindanefndin er ein af starfsnefndum háskólaráðs og er ráðgefandi fyrir ráðið. Nefndin starfar í nánum tengslum við rannsóknasvið háskólans sem er eitt af framkvæmdasviðum stjórnsýslu skólans.

Fyrsta íslenska ráðstefnan á sviði kvennafræða haldin

Fyrsta íslenska ráðstefnan á sviði kvennafræða haldin við Háskóla Íslands um haustið. Í lok þessa árs, þ.e. sama árs og fyrsta kvennafræðiráðstefnan var haldin við Háskóla Íslands, eða árið 1985, lögðu þingkonur Kvennalistans ásamt nokkrum fleiri þingkonum fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarp ársins um að einni milljón króna yrði varið til styrktar kvennarannsóknum. Tillagan fékkst ekki samþykkt við fyrstu tilraun en var lögð fram aftur ári síðar og var þá samþykkt af Alþingi.

Kaffistofan í Odda opnuð

Kaffistofan í Odda opnuð á vegum Félagsstofnunar stúdenta.

Háskólaráð stofnar kynningarnefnd

Háskólaráð kemur kynningarnefnd á fót þetta ár.

1986
75 ára afmæli Háskólans

Myndirnar eru frá 75 ára afmælishátíð Háskóla Íslands sem haldin var í Háskólabíó.

Handritasérfræðingar virða fyrir sér Konungsbók Eddukvæða

Handritasérfræðingar virða fyrir sér blöð úr Konungsbók Eddukvæða, einhverju merkasta skinnhandriti norrænu, í tilefni af væntanlegri útgáfu handritsins tengdri 75 ára afmæli Háskóla Íslands þetta ár.

Félagsvísindastofnun tekur til starfa

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands tekur til starfa. Markmið stofnunarinnar hefur frá upphafi verið að efla félagsvísindi á Íslandi með því að annast hagnýtar og fræðilegar rannsóknir, auk þess að kynna almenningi gagnsemi rannsókna á sviði félagsvísinda.

Hlýtur heiðursdoktorsnafnbót fyrst kvenna

Anna Sigurðardóttir, stofnandi og þáverandi forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands, hlýtur, fyrst kvenna, heiðursdoktorsnafnbót við heimspekideild Háskóla Íslands. Við sama tækifæri var Margrét Þórhildur Danadrottning sæmd heiðursdoktorsnafnbót við háskólann.

Fyrsta tilraun hérlendis með fjarkennslu

Gerð er fyrsta tilraun hérlendis með fjarkennslu í formi gagnvirks sambands í sjónvarpi við Háskóla Íslands.

Menntastofnun við HÍ stofnuð í tilefni af aldarafmæli Sigurðar Nordals

Menntastofnun við Háskóla Íslands stofnuð í tilefni af aldarafmæli Sigurðar Nordals prófessors 14. september þetta ár. Hlutverk hennar var að efla hvar vetna í heiminum rannsóknir og kynningu á íslenskri menningu að fornu og nýju og tengsl íslenskra og erlendra fræðimanna á því sviði. Stofnunin, sem síðar fékk nafn Sigurðar Nordals, er nú hluti af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Stofa Sigurðar Nordals, eða alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er til húsa í Þingholtsstræti 29.

Rannsóknaþjónusta Háskólans stofnuð

Rannsóknaþjónusta Háskólans tekur til starfa. Meginmarkmiðið er að stuðla að eflingu samstarfs atvinnulífs og skóla. Rannsóknaþjónustan leitast við að styrkja tengsl Háskóla Íslands og atvinnulífs á sviði rannsókna, nýsköpunar og hæfnisuppbyggingar. Tilgangur þessara tengsla er að veita íslensku atvinnulífi stuðning á sem flestum sviðum og styrkja um leið starfsemi Háskóla Íslands. Á starfsvettvangi Rannsóknaþjónustunnar er áhersla lögð á þekkingu, nýsköpun og alþjóðlegt samstarf.

Eðlisfræðingur við störf sín á Raunvísindastofnun

Myndin er tekin á 20. starfsári Raunvísindastofnunar og þar sést Þorsteinn Sigfússon eðlisfræðingur við störf sín.

1987
Samstarfsnefnd háskólastigsins sett á laggirnar

Samstarfsnefnd háskólastigsins sett á laggirnar. Nefndin fjallar reglulega um málefni háskóla og veitir umsögn um mál sem ráðherra eða einstakir háskólar vísa til hennar. Í lögum um háskóla frá árinu 1997 kemur fram að íslenskir háskólar skuli hafa með sér samráð og samstarf til að nýta best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttri háskólamenntun.

Læknagarður tekinn í notkun

Hafin var bygging á húsnæði fyrir læknadeildina og fluttist hún í þá byggingu þetta ár og henni gefið heitið Læknagarður.

Teikningar að Læknagarði voru unnar hjá embætti húsameistara ríkisins, Harðar Bjarnasonar. 

VR-III tekið í notkun

Í húsinu VR-III eru skrifstofur, kennslustofur og verkstæði.

1988
Tæknigarður tekinn í notkun

Tæknigarður tekinn í notkun. Tæknigarður var fljótlega fullnýttur af sprotafyrirtækjum og ýmsum stofnunum Háskólans. Tæknigarður átti að vera vettvangur nýrra hugmynda og tækifæra í upplýsinga- og tölvutækni því að framfarir voru örar í tölvutækni og sjálfvirkni á þessum tíma. Jafnframt var Reiknistofnun háskólans og Endurmenntunarstofnun háskólans til húsa í Tæknigarði.

Sjá nánar

Kennslumálasjóður Háskóla Íslands stofnaður

Kennslumálasjóður Háskóla Íslands stofnaður. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að nýmælum í kennsluháttum og endurbótum á kennslu við háskólann, þ.m.t. að stuðla að þróun á kennslu, kennslumati og gæðakerfi kennslu.

Háskólaútgáfan sett á laggirnar

Háskólaútgáfan sett á laggirnar af háskólaráði í apríl þetta ár. Fyrstu níu árin voru gefin út um 120 rit á hennar vegum. Háskólaútgáfan er mikilvirkur útgefandi fræði- og kennslurita eftir kennara og sérfræðinga skólans, auk þess sem hún hefur umsjón með ýmsum útgáfuverkum háskólans.

Rannsóknastofu í siðfræði komið á fót

Rannsóknastofa í siðfræði á vegum Háskóla Íslands og Þjóðkirkjunnar komið á fót með reglugerð 23. september þetta ár.

Upplýsingastofa um nám erlendis stofnuð

Upplýsingastofa um nám erlendis stofnuð við Háskóla Íslands og komið fyrir í húsakynnum Félagsstofnunar stúdenta. Háskólanum var veittur fjárstyrkur til að reka upplýsingastofuna, sem veitti upplýsingar um námsmöguleika erlendis. Upplýsingastofan var rekin af Háskóla Íslands en þjónaði öllu landinu.

Stúdentaskiptiáætlanir

Háskóli Íslands hefur þátttöku sína í stúdentaskiptaáætluninni Nordplus. Hún miðar að því að Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin verði eitt menntasvæði. Í því felst að stúdentum er gert kleift að stunda hluta af námi sínu við annan háskóla í þessum löndum og fá námið metið til eininga heima fyrir. Íslendingar fengu aðild að Erasmus áætlun Evrópusambandsins um menntasamstarf á háskólastigi árið 1991.

Röskva stofnuð sem framboð gegn Vöku

Röskva stofnuð í febrúar þetta ár þegar tvær hreyfingar, Félag vinstri manna og Umbótasinnar, ákváðu að leiða saman hesta sína í sameiginlegu framboði gegn Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta.

Hugmyndasamkeppnin Upp úr skúffunum

Rannsóknaþjónusta Háskólans stóð í fyrsta skipti að hugmyndasamkeppninni Upp úr skúffunum í samvinnu við ýmsa aðila sem styðja verkefnið fjárhagslega. Vísindamenn og stúdentar skólans senda inn hagnýt rannsóknaverkefni en veitt eru verðlaun fyrir þrjú verkefni. Eftir að verkefnið Upp úr skúffunum fór af stað hefur sprotafyrirtækjum sem stofnuð hafa verið innan háskólans fjölgað til muna.

Sjá nánar

Rannsóknastofa Krabbameinsfélags Íslands hefur starfsemi

Rannsóknastofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði opnuð formlega í mars þetta ár. Tengsl hennar við Háskóla Íslands hafa verið með sérstökum samningum. Þar hafa verið stundaðar rannsóknir á ýmsu krabbameini en brjóstakrabbamein hefur verið stærsta viðfangsefnið. Rannsóknastofan var stofnuð í kjölfar þjóðarátaks Krabbameinsfélagsins í ársbyrjun 1987.

1989
Alþjóðaskrifstofa Háskóla Íslands stofnuð

Alþjóðaskrifstofa Háskóla Íslands stofnuð þetta ár. Hún sá um formleg samskipti skólans við erlenda háskóla, samninga þar að lútandi, stúdenta- og kennaraskipti. Með samningi sem undirritaður var árið 1992 tók Háskóli Íslands jafnframt að sér rekstur Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, þar sem skrifstofunni var falið að sinna alþjóðasamskiptum íslenska háskólastigsins alls. Í tengslum við Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins er rekin Upplýsingaþjónusta um nám erlendis. Hún hefur m.a. umsjón með Erasmus- og Nordplus-skiptiáætlununum.

Vinnumatssjóður stofnaður

Vinnumatssjóður stofnaður þetta ár. Sjóðurinn umbunar félagsmönnum sem sýnt hafa árangur í rannsóknum í samræmi við mat á ritverkum þeirra. Birtar greinar og rit eru metin til stiga og fari afköst yfir tiltekin mörk öðlast viðkomandi hlutdeild í vinnumatssjóði í samræmi við stigafjölda. Sjóðurinn hefur frá upphafi stuðlað að verulega aukinni ritvirkni háskólamanna og hefur gert þeim hægara um vik að draga úr vinnu utan háskólans til að geta í auknum mæli einbeitt sér að rannsóknum.

Stjórnsýsla Háskóla Íslands

Stjórnsýsla Háskóla Íslands árið 1989.

Vetrargarður tekinn í notkun

Vetrargarður fullbúinn, nýr stúdentagarður á vegum Félagsstofnunar stúdenta, með 90 íbúðum.

Brautskráning Háskóla Íslands

Prúðbúinn kandídat tekur við skírteini úr hendi rektors við brautskráningarathöfn háskólans.

Efna- og líftæknihúsið byggt á Keldnaholti

Efna- og líftæknihúsið byggt á Keldnaholti. Því var ætlað að skapa vettvang fyrir rannsóknir og þróunarstarfsemi í líftækni.

Stofnanir á árinu

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands stofnuð með reglugerð dagsettri 28. mars þetta ár.

Einnig er Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands stofnuð 8. júní þetta ár með reglugerð settri af menntamálaráðuneytinu.

1990
Rannsóknanám við Háskóla Íslands

Háskólaráð samþykkti 8. febrúar þetta ár breytingar á reglugerð sem heimilaði skipulagt doktorsnám. Þar er háskóladeildum heimilt að skipuleggja doktorsnám í einstökum kennslugreinum sem lýkur með doktorsprófi. Reglugerðin styrkti forsendur til rannsóknanáms við Háskóla Íslands.

Byggingarframkvæmdir við Odda

Séð til suðurs frá Lögbergi í þann mund er byggingarframkvæmdir við Odda voru að hefjast. Zóphónías Ásgeirsson húsvörður ræðir við unglinga sem starfa við snyrtingu lóðar.

Síðari hluti Odda tekinn í notkun

Oddi að sunnanverðu. Þetta ár var síðari hluti byggingarinnar tekinn í notkun.

Stundakennarar við Háskóla Íslands fara í verkfall

Stundakennarar við Háskóla Íslands fara í verkfall veturinn 1990-1991. Brugðist var við þessu með því að ráða kennara í sérstakar tímabundnar lektorsstöður og með aukinni yfirvinnu fastráðinna kennara og sérfræðinga Háskólans.

Afgreiðsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Myndasyrpan er af starfsfólki Lánasjóðs íslenskra námsmanna á Laugavegi 77 og nemendum sem þangað komu.

Úr starfi Háskólabókasafns

Starfsfólk Háskólabókasafns árið 1990. Í stað Björns Sigfússonar sem vann einn á safninu fram á sjöunda áratug aldarinnar var nú komið 25 manna starfslið í 18 stöðugildum.

Upplýsingadeild við Háskóla Íslands stofnuð

Upplýsingadeild við Háskóla Íslands stofnuð og kynningarfulltrúi í hlutastarfi ráðinn árið 1993.

1981-1990