Svipmyndir úr sögunni

Um svipmyndir úr sögunni 1911-2011

Í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands eru hér birtar ljósmyndir með stuttum textabrotum þar sem stiklað verður á stóru í 100 ára sögu skólans. Myndirnar eru flestar í eigu skjalasafns háskólans og eru þær dýrmætur vitnisburður um starfsemi og þróun Háskóla Íslands. Textinn er meðal annars byggður á aldarsöguriti um Háskóla Íslands, sem gefið verður út á árinu og útgefnum Árbókum Háskóla Íslands. 

Þessi ör táknar að hægt sé að fletta yfir á næstu mynd ef smellt er á hana.

Þegar smellt er á einstakar myndir stækka þær á skjánum. Í mörgum tilvikum er um að ræða myndasyrpur. Þegar farið er með bendilinn á myndina kemur í ljós ör í hvítum ferningi efst í hægra horni og þegar smellt er á hana birtist næsta mynd í syrpunni. Einnig er hægt að nota örvalykla til að fletta myndum í myndasyrpunni.

1991
Hagi við Hofsvallagötu

Háskóli Íslands kaupir húsið Haga við Hofsvallagötu 53. Þar fer fram kennsla og rannsóknir í lyfjafræði.

Breytingar á stjórnsýslu HÍ

Lögum um Háskóla Íslands breytt þannig að háskólaráð réð framvegis framkvæmdastjóra stjórnsýslusviða til fimm ára í senn og rektor annað starfslið almennrar stjórnsýslu eftir því sem fé er veitt til. Deildarforsetar réðu starfslið einstakra deilda að höfðu samráði við rektor og eftir því sem fjárráð leyfðu. Markmiðið með breytingunni var að auka valddreifingu, skilvirkni og ábyrgð í stjórnsýslu.

Rannsóknastofa í kvennafræðum tekur til starfa við HÍ

Rannsóknastofa í kvennafræðum opnuð þann 25. ágúst þetta ár. Síðar varð hún Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræði.

Háskólanetið nær til helstu bygginga austan og vestan Suðurgötu

Á árunum milli 1985 og 1990 voru vísar að Internetinu settir upp og lagnir lagðar á milli bygginga á háskólasvæðinu og fyrsta ljósleiðarastaðarnetið á Íslandi byggt upp. Árið 1991 náði netið til helstu bygginga austan og vestan Suðurgötu. Háskólanetið var frá upphafi og er reyndar enn byggt á Ethernet-tækni og var hraðinn í byrjun 10Mbs.

Tölvukerfið Gegnir

Athöfn í Háskólabókasafni, 13. desember þetta ár, þegar tölvukerfi „Þjóðarbókhlöðusafna“ var gefið nafnið Gegnir. Háskólinn kostaði tölvukerfin Gegni og Greini fyrir Bókhlöðuna og lagði ljósleiðara til nettenginga um Háskólalóð. Hér kynnir Andrea Jóhannsdóttir Gegni fyrir starfsmönnum og gestum í Háskólabókasafni.

Myndir úr starfsemi Félagsstofnunar stúdenta

Stjórn, framkvæmdastjórar og deildarstjórar Félagsstofnunar stúdenta á níunda áratugnum.

1992
Nýsköpunarsjóður námsmanna stofnaður

Nýsköpunarsjóður námsmanna stofnaður. Rannís tók við umsýslu sjóðsins þann 8. júlí árið 2008.

Sjóði komið á fót til að bregðast við erfiðu efnahagsástandi

Stúdentaráð háskólans samþykkti að komið yrði á fót sjóði sem gæfi námsmönnum kost á að starfa að rannsóknaverkefnum að sumrinu til að bregðast við erfiðu efnahagsástandi. Þáverandi ríkisstjórn lagði fé til sjóðsins en markmiðið var að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum kost á að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi til sumarvinnu við rannsóknaverkefni.

Sjá nánar

Rannsóknastöð í Sandgerði

Rannsóknastöð starfrækt í Sandgerði frá þessu ári. Eitt helsta verkefni Rannsóknastöðvarinnar ber titilinn „Botndýr á Íslandsmiðum“.

Bókasafnskerfið Gegnir tekið upp

Tölvutækni átti eftir að gerbreyta öllu háskólastarfi á tíunda áratug 20. aldar. Árið 1992 var bókakostur Landsbókasafns og Háskólabókasafns tölvuskráður og bókasafnskerfið Gegnir tekið upp.

Stúdentaleikhúsið endurreist

Stúdentaleikhúsið endurreist og stendur fyrir blómlegri starfsemi veturinn 1991-1992 og hefur síðan verið með leiksýningar haust og vor. 

Háskólasjónvarp – kennsluvarp í bígerð

Reynt er að koma á legg Háskólasjónvarpi – kennsluvarpi Háskólans. Lögð var fyrir Skýrsla nefndar um Háskólasjónvarp á fundi háskólaráðs. Á árunum 1992-1993 var unnið að hugmyndum um háskólasjónvarp og samþykkti háskólaráð að stofna kennsluvarp. Ný tækni til að taka upp kennsluefni með stafrænum hætti og setja á vefinn hefur nú rutt sér til rúms á vegum Háskóla Íslands.

1993
Rannsóknanámssjóður til styrktar nemendum í framhaldsnámi

Hinn 8. október þetta ár eru staðfestar reglur um Rannsóknanámssjóð til styrktar nemendum í framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Sjóðurinn var í fyrstu á vegum menntamálaráðuneytisins og aðeins fyrir nemendur í Háskóla Íslands enda framhaldsnám ekki í boði í öðrum háskólum. Síðar var sjóðurinn færður til Rannís og opnaður nemendum í rannsóknatengdu framhaldsnámi í öllum skólum á háskólastigi.

Sumarannir stúdenta

Árið 1993 samþykkir háskólaráð tillögu Guðmundar Birgissonar, fulltrúa stúdenta, um sumarönn fyrir þá stúdenta sem ekki ættu kost á atvinnu. Ári síðar var enn samþykkt tillaga formanns Stúdentaráðs um að boðið væri upp á námskeið sumarið 1994. Þótt ekki hafi verið tekin upp skipuleg sumarönn í öllum námsgreinum var nokkuð um námskeið á sumrin ekki síst fyrir erlenda stúdenta.

Tillögur um reykingarbann á háskólasvæðinu

Frá og með þessu ári eru lagðar fram margar tillögur þess efnis að banna reykingar á háskólasvæðinu. Reykingabannið komst síðar á árið 1996 samkvæmt lögum um að reykingar séu óheimilar á stöðum sem heyri stjórnsýslulega undir menntamálaráðuneytið.

Póstkort af háskólahverfinu

Póstkort sem fylgdi með þjónustunámskeiði fyrir starfsfólk í stjórnsýslu Háskóla Íslands í nóvember þetta ár. Á myndinni sést háskólahverfið og nöfn bygginga eru merkt inn á það.

Auglýsing um opið hús

Auglýsing um opið hús haldið sunnudaginn 21. mars þetta ár í Háskóla Íslands og öðrum háskólum.

Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands tekur til starfa

Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands tekur til starfa um haustið.

1994
Fyrsta rannsókna- og fræðasetur HÍ á landsbyggðinni

Rannsóknarsetur í Vestmannaeyjum er fyrsta rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni. Í setrinu sameinast undir einu þaki þær stofnanir í Vestmannaeyjum sem starfa að grunnrannsóknum, hagnýtum rannsóknum, gagnasöfnun og nýsköpun í atvinnulífinu, ásamt því að gera ýmsar þjónustumælingar fyrir opinbera aðila og fyrirtæki. Í setrinu er einnig miðstöð fullorðinsfræðslu og fjarkennslu á háskólastigi.

Þjóðarbókhlaða formlega opnuð

Nýtt sameinað bókasafn, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, opnað við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðu 1. desember. Þjóðarbókhlaða er fjórar hæðir og kjallari. Hver hæð er um 2.500 fermetrar og er byggingin í heild um 13.000 fermetrar og um 51.000 rúmmetrar. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn gegnir því tvíþætta hlutverki að vera þjóðbókasafn Íslands og jafnframt bókasafn Háskóla Íslands. Arkitekt Þjóðarbókhlöðu er Mannfreð Vilhjálmson.

Stúdentaráð aflar fjár til ritakaupa í Þjóðarbókhlöðu

Stúdentaráð blæs til þjóðarátaks til söfnunar fjár til ritakaupa í Þjóðarbókhlöðu. Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, var verndari átaksins sem gaf af sér 22,5 milljónir króna.

Kennsla hefst í táknmálsfræði og táknmálstúlkun

Kennsla hefst í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við heimspekideild um haustið í samvinnu við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands tekur til starfa

Mannréttindastofnun Háskóla Íslands er sjálfseignarstofnun stofnuð 14. apríl þetta ár af Háskóla Íslands, Lögmannafélagi Íslands og Dómarafélagi Íslands. Megintilgangur stofnunarinnar er að vinna að rannsóknum á lögfræðilegum þáttum mannréttinda, annast dreifingu á niðurstöðum þeirra og styðja við kennslu á því sviði.

1995
Háskóli Íslands kaupir Nýja-Garð

Háskóli Íslands kaupir Nýja-Garð af Félagsstofun stúdenta undir starfsemi sína. Einnig kaupir skólinn Neshaga 16 fyrir skrifstofur kennara og stofnana.

Fyrsta útskrift djákna

Myndirnar eru teknar eftir fyrstu útskrift djákna við Háskóla Íslands í háskólakapellu þann 4. febrúar þetta ár. Að athöfninni í kapellunni lokinni fögnuðu nýju djáknarnir ásamt velunnurum í stofu guðfræðideildar á 2. hæð í Aðalbyggingu.

Nemendur við Endurmenntunarstofnun

Hópur nemenda sem lauk þriggja ára námi í rekstrar- og viðskiptagreinum við Endurmenntunarstofnun árið 1995. Fremst sitja Valdimar K. Jónsson, prófessor og stjórnarformaður stofnunarinnar, Sveinbjörn Björnsson, rektor Háskóla Íslands, og Margrét Björnsdóttir, endurmenntunarstjóri háskólans.  

Reykherbergi bönnuð í Háskóla Íslands

Stúdentar ræða málin fyrir framan anddyri Hátíðasals. Á þessum tíma mátti reykja í háskólanum en bann við reykingum var ákveðið frá 1. janúar 1995. Á myndinni sést öskubakki á borðum.

1996
Æviráðningar starfsmanna ríkisins afnumdar

Með breytingum á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1. júní þetta ár eru æviráðningar starfsmanna ríkisins afnumdar, embættismenn hafa síðan verið ráðnir til fimm ára í senn.

Aðstoðarmannasjóður stofnaður

Aðstoðarmannasjóður stofnaður um sumarið. Markmið hans var að gera kennurum kleift að ráða stúdenta eða nýbrautskráða námsmenn sem aðstoðarmenn við rannsóknir og/eða kennslu. Þannig ættu aðstoðarmennirnir að þjálfast í faglegum vinnubrögðum og létta einfaldari verkum af kennara sínum.

Kvennasögusafn Íslands opnað í Þjóðarbókhlöðu

Kvennasögusafn Íslands opnað með viðhöfn 5. desember þetta ár í Þjóðarbókhlöðu og sýning sett upp af því tilefni. Kvennasögusafn Íslands hefur starfað sem sérstök eining innan Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu æ síðan. Safnið var stofnað 1. janúar árið 1975. Nám í kvennafræðum hefst einnig við Háskóla Íslands þetta ár.

Tveggja ára ljósmóðurnám fært til hjúkrunarfræðideildar HÍ

Í ársbyrjun þetta ár er tveggja ára ljósmóðurnám fært til hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands. Þegar Háskóli Íslands fagnar aldarafmæli eru 250 ár liðin frá því að skipulegt nám í ljósmóðurfræðum hófst hér á landi. Í dag þarf nemandi að stunda nám í heila tvo áratugi til að verða ljósmóðir, tíu ár í grunnskóla, fjögur í framhaldsskóla og sex ár í háskóla. Aukin menntun á sjálfsagt sinn þátt í því að ungbarnadauði hefur hin síðari ár hvergi verið minni í öllum heiminum en á Íslandi.

Samstarf HÍ og HA

Sveinbjörn Björnsson, rektor Háskóla Íslands, og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, handsala hér samning um samstarf skólanna,8. nóvember þetta ár. 

Íslensk erfðagreining stofnuð og er til húsa í útjaðri háskólalóðarinnar

Kári Stefánsson stofnar þekkingarfyrirtækið Íslenska erfðagreiningu þetta ár sem er til húsa í túnfætinum á háskólalóðinni. Kári lauk doktorsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1988 og eftir sérfræðistörf erlendis kom hann til landsins og varð forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum um stutt skeið áður en hann stofnaði Íslenska erfðagreiningu. Fyrirtækið hefur náð gríðarlegum árangri í rannsóknum á mannerfðafræði og hefur samstarf þess við Háskóla Íslands aukist mikið. Kári Stefánsson er rannsóknaprófessor við Háskóla Íslands.

1997
Fyrstu almennu rammalögin um háskóla og háskólastigið á Íslandi samþykkt á Alþingi

Fyrstu almennu rammalögin um háskóla og háskólastigið á Íslandi samþykkt á Alþingi í árslok. Þar voru m.a. dregin fram þau meginskilyrði sem skóli þarf að uppfylla til að geta talist háskóli sem veitir háskólagráðu við námslok. Með lögunum voru markmið starfseminnar skilgreind, sjálfstæði skólanna betur tryggt en áður og m.a. kveðið á um innra og ytra eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna.

Lýkur skipulögðu doktorsnámi samkvæmt nýjum reglum Háskóla Íslands

Fyrst til að ljúka skipulögðu doktorsnámi frá Háskóla Íslands undir handleiðslu leiðbeinanda skólans, eftirliti doktorsnefndar og samkvæmt nýjum reglum skólans um doktorsnám er Hafrún Friðriksdóttir sem lýkur námi í lyfjafræði 8. febrúar 1997. Hafrún er fyrsti lyfjafræðingurinn sem ver doktorsritgerð við Háskóla Íslands og jafnframt önnur konan sem ver doktorsritgerð við skólann. 

Sjá nánar

Fyrsti kvendeildarforseti Háskóla Íslands

Helga Kress bókmenntafræðingur er fyrsta konan sem kjörin er deildarforseti í 
Háskóla Íslands 1997-1999, við heimspekideild. 

Áður voru tvær konur varadeildarforsetar, þær Margrét Guðnadóttir í
 læknadeild og Álfrún Gunnlaugsdóttir í heimspekideild.

Sjá nánar

Fyrsta jafnréttisnefnd háskólaráðs tekur til starfa

Fyrsta jafnréttisnefnd háskólaráðs tekur til starfa. Frá vinstri: Þorgerður Einarsdóttir, Eva Steinsson, Valgerður Edda Benediktsdóttir, Páll Hreinsson, Óskar Óskarsson, Sigríður Þorgeirsdóttir formaður og Sigrún Valgarðsdóttir.

Heimsókn Kofis Annan aðalritara SÞ og Gerhards Skoldenberg

Kofi Annan aðalritari Sameinuðu þjóðanna og Gerhard Skoldenberg heimsækja Háskóla Íslands þann 4. september þetta ár.

1998
Tungumálamiðstöð háskólans sett á laggirnar

Tungumálamiðstöð háskólans sett á laggirnar sumarið þetta ár. Tungumálamiðstöðin er fyrir nemendur og starfsmenn háskólans sem vilja leggja stund á skipulegt sjálfsnám í tungumálum.

Atvinnumiðstöð opnuð í Félagsstofnun stúdenta

Atvinnumiðstöð stúdenta hefur starfsemi þetta ár. 

Aðstoð við námsmenn sem þurfa á sérúrræðum að halda

Sérstakir samningar gerðir í Háskóla Íslands um aðstoð við námsmenn sem þurfa á sérúrræðum að halda. Þá reyndust þeir um 100, þar af átti um helmingur við lesblindu að stríða.

1999
Ráðningarvald fært alfarið til Háskóla Íslands

Með nýjum háskólalögum var ráðningarvaldið alfarið fært frá menntamálaráðuneyti yfir til Háskóla Íslands. Þar með hefur rektor skólans á höndum að ráða prófessora jafnt sem dósenta og lektora. Með lögunum færðist umboð til að stofna nýjar námsbrautir frá menntamálaráðuneytinu til háskólans sjálfs. Þar með hafði verið stigið stórt skref til sjálfræðis.

Sjá nánar

Stuttar hagnýtar námsleiðir við Háskóla Íslands

Um haustið er tekin upp sú nýbreytni í Háskóla Íslands að bjóða upp á stuttar, hagnýtar námsleiðir. Nám á þessum námsleiðum tekur að jafnaði um eitt og hálft ár (45 einingar) og lýkur með sjálfstæðu diplómaprófi. Tólf nýjar námsleiðir voru auglýstar og skráðu um 220 nemendur sig til náms á þeim. Að því loknu var ákveðið að hefja kennslu á níu námsleiðanna.

Fyrsti háskólafundurinn haldinn í Hátíðasal Háskóla Íslands

Fyrsti háskólafundurinn haldinn í Hátíðasal Háskóla Íslands 4.-5. nóvember þetta ár. Fundinn sátu um 40 fulltrúar deilda og námsbrauta, stúdenta, stofnana og félaga starfsmanna háskólans, menntamálaráðherra og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Enn fremur sátu fundinn fulltrúar í háskólaráði, formenn starfsnefnda ráðsins, framkvæmdastjórar stjórnsýslu, aðstoðarmaður rektors og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu.

Sjá nánar

2000
Framhaldsnám við Háskóla Íslands

Með lögum um Háskóla Íslands frá árinu 1999 og reglum frá þessu ári er endurnýjaður almennur lagarammi um framhaldsnám við skólann. Nánari ákvæði voru síðan sett í sérreglur um hverja deild og höfðu allar deildir sett sér slíkar reglur sem háskólaráð hafði staðfest árið 2003. Háskólaráð setti síðan reglur um doktorsvarnir. Doktorsnám var þegar í boði í öllum deildum nema hjúkrunarfræði árið 2000.

Rannsóknamiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði komið á fót

Rannsóknamiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði komið á fót samkvæmt samningi milli Háskóla Íslands, sveitarfélagsins Árborgar, menntamálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og Almannavarna ríkisins. Miðstöðin var opnuð með formlegum hætti 2. maí árið 2000. Hinn 17. júní sama ár má segja að sjálf rannsóknastofan hafi verið opnuð með eftirminnilegum hætti þegar fyrsta hrinan í Suðurlandsjarðskjálftunum það ár reið yfir.

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands í Hveragerði tekur til starfa

Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands í Hveragerði tekur til starfa á miðju ári. Starfræksla þess er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Prokaria ehf., Hveragerðisbæjar, Garðyrkjuskóla ríkisins og Rannsóknastofnunarinnar Neðri-Áss. Meginmarkmiðið með starfsemi Rannsóknasetursins var að efla vísindarannsóknir og fræðastarf í Hveragerði og nágrenni og byggja upp frekari þekkingu á svæðinu, ekki síst er snýr að náttúrufari.

Vísindavefur Háskóla Íslands opnaður

Vísindavef Háskóla Íslands hleypt af stokkunum þann 29. janúar. Vísindavefurinn var í fyrstu hugsaður sem tímabundið framlag Háskóla Íslands til verkefnisins Reykjavík – menningarborg Evrópu árið 2000. Fljótlega kom þó á daginn að áhugi almennings á vísindum var svo mikill að ákveðið var að halda verkefninu áfram. Vísindavefurinn hefur verið einn vinsælasti vefur landsins um árabil og hefur fyrir löngu unnið sér fastan sess.

Sjá nánar

Stúdentadagurinn haldinn í Háskóla Íslands

Stúdentadagurinn var þann 15. september þetta ár. Líf og fjör var í skeifunni fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

1991-2000