Blár- Hvítur- Rauður

 

Troi couleurs: Bleu (1993)

Leikstjóri: Krzysztof Kieślowski

Handritshöfundar: Krzysztof Kieślowski og Krzysztof Piesiewicz

Leikarar: Juliette Binoche, Benoît Régent

Trzy kolory: Bialy (1994)

Leikstjóri:  Krzysztof Kieślowski

Handritshöfundar: Krzysztof Kieślowski og Krzysztof Piesiewicz

Leikarar: Zbigniew Zamachowski, Julie Delpy

Trois couleurs: Rouge (1994)

Leikstjóri: Krzysztof Kieślowski

Handritshöfundar: Krzysztof Kieślowski og Krzysztof Piesiewicz

Leikarar: Irene Jacob, Jean-Louis Trintignant

Sýningar verða í Háskólabíói mánudaginn 21. febrúar nk. og hefjast kl. 16:30. Aðgangseyrir er 600 kr. á hverja mynd og verða myndirnar sýndar hver á eftir annarri, í tímaröð. Íslenskur texti.

Á árunum 1993-1994 gerði pólski leikstjórinn Krzysztof Kieślowski þrjár kvikmyndir sem eru þekktar sem Litaþríleikurinn eða Þrír litir: Blár, Þrír litir: Hvítur og Þrír litir: Rauður. Myndirnar þrjár kallast á við franska fánann og liti hans sem tákna frelsi (Blár), jafnrétti (Hvítur), og bræðralag (Rauður). Hver mynd segir sjálfstæða sögu, og eru tengslin þeirra á milli fyrst og fremst þematengd þar sem mismunandi leikarar koma fram í hverri mynd. Tengslin eru engu að síður sterk og saman mynda þær margslungna og magnaða heildarmynd.

Blár (Bleu). Myndin segir frá konu (Juliette Binoche) sem lifir af hörmulegt bílsslys sem kostar eiginmann hennar og dóttur lífið. Í kölfarið tekur hún ákvörðun um að losa sig við allar veraldlegar tengingar og öðlast frelsi í algjöru sjálfstæði. Þau áform ganga hins vegar ekki sem skyldi.

Hvítur (Blanc). Í myndinni kynnumst við Karel (Zbigniew Zamachowski), pólskum hárgreiðslumanni sem neyðist til að taka að sér vafasöm verkefni í Póllandi eftir að eiginkona hans (Julie Delpy) skilur við hann og hann missir aleiguna og búseturétt sinn í Frakklandi. 

Rauður (Rouge). Valentine (Irene Jacob) er fyrirsæta og háskólastúdent sem dag einn keyrir óvart á hund. Hún nær sambandi við eiganda hundsins, hinn aldraða dómara Joseph Kern (Jean-Louis Trintignant) sem njósnar um nágranna sína, og smám saman verður Valentine stór hluti af lífi hans.

Þótt  einkennisorð  frönsku byltingarinnar, frelsi- jafnrétti og bræðralag,  séu í forgrunni allra þessara mynda er hægt að finna margslungnar pælingar á jaðri heildarsögunnar. Þannig má finna í myndunum þremur þéttofna heimspekilega stúdíu, þar sem ofangreind fánatenging er aðeins útgangspunkur fyrir flóknari vangaveltur um tilvist og fortíð þeirra einstaklinga sem koma helst við sögu í þessum þríleik.

Kieślowski tók það fram eftir gerð þeirra að franski fáninn hefði orðið fyrir valinu einfaldlega vegna þess að fjármagnið kom frá Frakklandi. Myndirnar hlutu allar góða dóma og unnu til ýmissa verðlauna en að margra mati þótti Rauður skara fram úr. Hún var jafnframt sú eina sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna; fyrir handrit, leikstjórn og kvikmyndatöku. 

Litamyndirnar voru þær síðustu sem Kieślowski gerði en hann lést árið 1996, 54 ára að aldri.

deila á facebook