Cinema Paradiso

Cinema Paradiso (1988)

Leikstjóri:  Giuseppe Tornatore

Handrit: Giuseppe Tornatore

Leikarar:   Jacques Perrin, Philippe Noiret, Leopoldo Trieste, Marco Leonardi, Agnese Nano og Salvatore Cascio

Myndin segir frá lífi í litlu ítölsku þorpi á árunum eftir seinni heimstyrjöldina og hvernig kvikmyndahúsið á staðnum hafði áhrifi á líf þorpsbúa. Myndin hefst á níunda áratugnum þar sem hinn frægi leikstjóri, Salvatore di Vita, fær fréttir af andláti gamla vinar síns Alfredo. Sá hafði starfað sem  sýningarstjóri í kvikmyndahúsi þorpsins þar sem Salvatore ólst upp. Þar hafði Salvatore, af kynnum sínum af sýningarstjóranum, uppgötvað ást sína á kvikmyndum  og sína fyrstu ljúfsáru æskuást. Hann fer aftur á þorpsins til að að rifja upp kynni sín af þessum góðlega manni og reynslu sína í kvikmyndahúsinu, sem mótaði hann fyrir lífstíð. 

Cinema Paradiso hlaut ekkert sérstaklega góðar móttökur áhorfenda í heimalandi sínu fyrst til að byrja með. Myndin var því stytt um 30 mínútur fyrir alþjóðlegan markað og viðbrögðin létu ekki á sér standa.  Hún vann ótal verðlaun á kvikmyndahátíðum um heim allan þ.á.m. gullpálmann í Cannes og Óskarsverðlaun sem besta erlenda myndin árið 1990. Myndin hlaut gríðarlega mikla aðsókn um heim allan og varð fljótt uppáhald allra sannra kvikmyndaunnenda, hvort sem það voru fræðilegir kvikmyndasérfræðingar eða venjulegir kvikmyndagestir.

Segja má að til sé tvær ansi ólíkar útgáfur af Cinema Paradiso.  Árið 2002 var gefin út sérstök leikstjóraútgáfa þar sem 45 mínútum var bætt við hina alþjóðlegu útgáfu. Helsta breytingin fólst í atriðum þar sem Salvatore hittir aftur æskuástina og kemst að því að Alfredo hafði vísvitandi stíað þeim í sundur, en þeim senum hafði verið sleppt í seinni útgáfunni. Vildi gamli maðurinn tryggja að ekkert gæti haldið í Salvatore í hinu litla og tækifærasnauða þorpi. Fyrir vikið hafði hið fræga og magnþrungna lokaatriði töluvert aðra merkingu. 

En útgáfan sem kemur fyrir sjónir gesta Háskólabíós nú er sú sem vann hug og hjörtu kvikmyndagesta fyrir 20 árum síðan – sú sem lifir enn góðu lífi í minningum fólks.

deila á facebook