Dirty dancing

 

Dirty Dancing (1987)

Leikstjóri: Emile Ardolino

Handritshöfundur: Eleanor Bergstein

Aðalleikarar: Jennifer Grey, Patrick Swayze, Jerry Orbach

Sýnd í Háskólabíói mánudaginn 14. febrúar kl. 20:00. Aðeins sýnd einu sinni. Íslenskur texti.

Dirty Dancing segir frá einu sumri árið 1963 á sumardvalarstað í Bandaríkjunum. Hin 17 ára Baby (Jennifer Grey) er í fríi ásamt fjölskyldu sinni og kemst fljótlega í kynni við fólkið á staðnum sem hefur atvinnu sína af að dansa við gestina. Þegar einn dansarinn veikist hleypur hún í skarðið og ekki líður á löngu þar til hún og mótdansarinn, Johnny (Patrick Swayze),  fella hugi saman, fjölskyldunni til lítillar hrifningar. Tón- og danslist leika stórt hlutverk í myndinni, en fyrst og fremst er um að ræða þroskasögu ungrar konu sem öðlast sjálfstæði.

Dirty Dancing var ein af ástsælustu kvikmyndum níunda áratugarins. Hún kom í kjölfar vinsælla dans -og tónlistarmynda á borð við Flashdance, Footloose og La Bamba sem drógu unga sem aldna í kvikmyndahús um allan heim og var Ísland engin undantekning. Eleanor Bergstein, handritshöfundur myndarinnar, byggði söguna að miklu leyti á eigin reynslu. Líkt og aðalsöguhetjan er hún af gyðingaættum, eyddi  sumrum sínum með fjölskyldunni í Catskills fjöllunum og var kölluð Baby fram á þrítugsaldur. Einnig var hún fær dansari. 

Einn af stærstu þáttunum í velgengni myndarinnar var hið trúverðuga samanband sem aðalleikaranir náðu að túlka. Jennifer Grey og Patrick Swayze höfðu áður leikið saman í spennumyndinni Red Dawn  og var alls ekki vel til vina. Jennifer var ráðin í hlutverk Baby  á undan Patrick og var fyrst um sinn ekki ánægð með að fá hann sem mótleikara. Framleiðendurnir voru hins vegar svo hrifnir af honum að þau neyddust til að setjast niður og vinna úr sínum málum áður en lokaprufur fóru fram.  Það tókst vonum framar og framleiðendurnir voru himinlifandi. En þegar leið á tökur hljóp snuðra á samskipti þeirra Jennifer og Patricks og var andrúmsloftið undir lokin á tökustað oft spennuþrungið. Leikstjórinn, Emile Ardolino, hvatti leikarana til að spinna á milli taka og lét myndavélarnar rúlla.  Náði hann með þessu að fanga augnablik sem aldrei hefði verið hægt að sviðsetja. Mörg minnisstæðustu atriði myndarinnar eru þannig sprottin upp af hinni raunverulegu togstreitu milli aðalleikaranna.

Væntingar fyrir útgáfu myndarinnar voru ekki miklar og til stóð að sýna hana eina helgi í kvikmyndahúsum og gefa síðan út á myndband. Óhætt er að segja að viðtökur hafi farið fram úr björtustu vonum og þegar uppi var staðið halaði myndin inn, sem kostaði ekki meira en fjórar milljónir dollara í framleiðslu, litlum 170 milljónum. Dirty Dancing var tilnefnd til ótal verðlauna og hlaut Óskarsverðlaun fyrir besta lagið, „(I‘ve had) the time of my life“. Dirty Dancing var endurútgefin fyrir hvíta tjaldið árið 1997 og hefur selst jafnt og þétt, bæði á myndbandsspólum og DVD diskum, til dagsins í dag.

 

Til stendur að sýna hátt í 30 myndir á árinu . Á vormánuðum verða þessar myndir til sýningar:

7. febrúar Chinatown (1974) Roman Polanski
14. febrúar Dirty dancing (1987) Emile Ardolino
21. febrúar Blár - Hvítur - Rauður (1993-1994) Krzysztof Kieslowski
28. febrúar Schindler's List (1993) Steven Spielberg
7. mars Superman (1978) Richard Donner
14. mars Psycho (1960) Alfred Hitchcock
21. mars Nikita (1990) Luc Besson
4. apríl Wild at heart (1990) David Lynch
11. apríl Fanny och Alexander (1982) Ingmar Bergman
18. apríl Cinema Paradiso (1988) Giuseppe Tornatore
25. apríl Fargo (1996) Joel og Ethan Coen
2. maí Othello: The Moor of Venice (1952) Orson Welles
deila á facebook