Fanny och Alexander

 

Fanny och Alexander (1982)

Leikstjóri: Ingmar Bergman

Handrit: Ingmar Bergman

Leikarar: Ewa Fröling, Bertil Guve, Pernilla Allwin, Jan Malmsjö

Alexander Ekdahl og systir hans Fanny búa  á ástríku heimili. Foreldrar þeirra eru mikið leikhúsfólk, fjölskyldan fjölmenn og hlýleg og andrúmsloftið á heimilinu líflegt. Börnin eru hamingjusöm í sínum ævintýraheimi og allt er eins og best verður á kosið. Þegar faðirinn deyr skyndilega verður mikil breyting veröld þeirra. Móðirin giftir sig á ný, ströngum og kuldalegum biskupi sem stjórnar heimilinu, og börnunum, með járnaga. Fljótlega fer fjölskyldan að leita leiða til að koma þeim út úr þessum óþolandi aðstæðum og innan tíðar fara raunveruleiki og fantasía að renna saman hjá krökkunum.

Bergman virðist hafa byggt Fanny og Alexander að einhverju leiti á eigin lífi, en hann ólst upp hjá mjög ströngum föður. Sagan var unnin sem sjónvarpsmynd í fjórum hlutum og var í heild 312 mínútur. Samhliða sjónvarpsútgáfunni var unnin útgáfa fyrir hvíta tjaldið upp á 188 mínútur. Á þeim tíma var Fanny og Alexander stærsta og dýrasta mynd sem framleidd hafði verið í Svíþjóð. Bergman reyndi að fá ástsælustu leikara sína, Liv Ullmann og Max von Sydow, í aðahlutverkin.  Liv Ullmann hafnaði hlutverkinu en Max von Sydow varð af sínu fyrir misskilning. Umboðsmaður hans í Hollywood kom með kröfur sem framleiðendur myndarinnar gátur ekki uppfyllt og þegar von Sydow komst að því var búið að ráða Jan Malmsjö í hlutverk biskupsins.

Fanny og Alexander sópaði að sér verðlaunum þegar hún kom út og hlaut myndin fjögur Óskarsverðlaun árið 1983 þ.á.m. sem besta erlenda kvikmyndin. Ingmar Bergman lést árið 2007 og þótt hann hafi haldið áfram að vinna við sjónvarp og leikhús var Fanny og Alexander síðasta kvikmyndin sem hann leikstýrði.

 

deila á facebook