Jurassic Park

Jurassic Park (1993)

Leikstjóri: Steven Spielberg

Handrit: Michael Crichton. Endurskrif: Malia Scotch Marmo og David Coepp. 

Leikarar:  Sam Neill, Laura Dern, Jeff Goldblum, Richard Attenborough, Ariana Richards, Joseph Mazzello, Wayne Knight, Bob Peck, Martin Ferrero, Samuel L. Jackson, B. D. Wong, Cameron Thor, Greg Burson og Frank Welker. 

Jurassic Park er bandarísk kvikmynd frá árinu 1993, byggð á vísindaskáldsögu Michaels Crichton og í leikstjórn Stevens Spielberg. Myndin gerist á eyju nálægt Costa Rica í Mið-Ameríku nálægt Kyrrahafsströndinni þar sem milljarðamæringur og lítill hópur erfðafræðivísindamanna hafa komið sér fyrir í þeim tilgangi að klóna risaeðlur. Myndin segir frá vísindamanni, sem Richard Attenborough leikur, sem gert hefur nýstárlegan skemmtigarð með einræktuðum risaeðlum. Hann notaði kjarnasýrur risaeðla sem fengnar voru úr blóði forsögulegra skordýra sem varðveist hafa og ræktað úr þeim eyju fulla af risaeðlum. Til að prufukeyra garðinn hefur hann boðið plöntufræðingi, steingervingafræðingi, stærðfræðingi og lögfræðingi og tveimur barnabörnum að koma og vera hjá sér. Öryggiskerfið á eyjunni hættir að virka og hárin á kvikmyndahúsagestinum fara að rísa.

Margir höfðu hug á að kaupa framleiðsluréttinn að myndinni en Spielberg með stuðningi Universal Studios tryggði sér þann rétt. Myndin var tekin upp bæði í Kaliforníu og á Hawaii. Jurassic Park markaði upphaf tölvuunninnar kvikmyndagerðar og fékk mjög jákvæða dóma frá gagnrýnendum. Myndin hlaut þrenn óskarsverðlaun, fyrir bestu hljóðblöndunina, hljóðklippinguna og tæknibrellur (visual effects). Myndin hlaut íslenska titilinn Júragarðurinn.

Framhaldsmyndirnar voru The Lost World: Jurassic Park (1997) og Jurassic Park III (2001).  

deila á facebook