Nikita

 

Nikita (1990)

Leiksjóri: Luc Besson

Handrit: Luc Besson

Leikarar:  Anne Parillaud, Jeanne Moreau, Jean-Hugues Anglade og Jean Reno.

Hin unga og gullfallega Nikita (Anne Parillaud) drepur lögreglumann í eiturlyfjakófi og er í kjölfarið handtekin. Í stað þess að Nikita eyði því sem eftir er ævinnar á bak við lás og slá setja yfirvöld dauða hennar á svið og bjóða henni að ganga til liðs við sveit leynimorðingja. Nikita hefur ekki um mikið að velja þar sem henni er gert fulljóst að hennar bíði dauðinn gangi hún ekki til liðs við sveitina. Fyrst í stað gengur henni allt í haginn, þjálfunin gengur vel, hún fær nýtt nafn og eignast kærasta. En líf atvinnumorðingjans er engin 9-5  vinna og ekkert má út af bregða.

Nikitu hefur verið líkt við James Bond í kvenlíkama. Helsti munurinn er þó sá að á meðan Bond fylgir æðri köllun ættjarðarástarinnar er Nikita þvinguð inn í heim launráða og svika. Þá hefur persóna Nikitu einnig verið sögð táknmynd hinnar kúguðu vestrænu konu sem gegn vilja sínum leikur stórt hlutverk í valdabrölti karlmannsins og öllu því ofbeldi sem því fylgir.

Leikstjórinn Luc Besson sótti innblástur í hinn myndræna stíl sem einkenndi franska kvikmyndagerð á þeim tíma sem myndin var gerð. Þrátt fyrir að sá stíll hafi boðið upp á fremur yfirborðskennd efnistök tókst Besson að gefa myndinni þá einlægu og stílhreinu áferð sem einkennir jafnan listaverk hans.

Hin fransk/ítalska Nikita (eða La femme Nikita eins og hún var kölluð í Bandaríkjunum) naut mikilla vinsælda um heim allan. Árið 1993 var hún endurgerð í Bandaríkjunum undir nafninu The Assassin (einnig þekkt sem Point of No Return). Útkoman var miðlungs spennumynd sem þótti á engan hátt fanga þá spennu og þann galdur sem fylgdi upprunalegu myndinni. Hugmyndin og minnið um kynþokkafulla leynimorðingjann lifði áfram og árið 1997 voru gerðir kanadískir sjónvarpsþættir undir nafninu La femme Nikita með Petu Wilson í titilhlutverkinu. Enn lifir í gömlum glæðum því í fyrra hófu göngu sína bandarískir sjónvarpsþættir sem heita Nikita og skarta Maggie Q í aðalhlutverki.

 

deila á facebook