Psycho (1960)
Leikstjóri: Alfred Hitchcock
Handritshöfundur: Joseph Stefano
Aðalleikarar: Anthony Perkins, Janet Leigh, Vera Miles
Ritarinn Marion Crane (Janet Leigh) stelur 40.000 dollurum af vinnuveitenda sínum til að geta gifst Sam Loomis, unnusta sínum. Eftir fjárdráttinn leggur hún á flótta til Sam með peningana, en á leiðinni leitar hún skjóls á litlu afviknu móteli sem rekið er af ungum manni, Norman Bates (Anthony Perkins), og þar taka örlögin við.
Psycho er ein þekktasta kvikmynd sögunnar. Hún er byggð á samnefndri sögu eftir Robert Bloch, en hann byggði skáldsögu sína á ævi raðmorðingjans Ed Gein. Kvikmyndafyrirtækin voru ekki spennt fyrir þessu vali Hitchcocks, efniviðurinn þótti lágkúrulegur og hafði hann því ekki úr miklum pengum að moða á meðan á framleiðslunni stóð. Engu að síður gengu tökur vel, myndin fékk góða gangrýni, aðsókn fór fram úr væntingum og Psycho stimplaði sig inn í kvikmyndasöguna til frambúðar.
Varla er hægt að fjalla um myndina án þess að minnast á sturtuatriðið fræga, vafalaust eitt frægasta og áhrifamesta atriði sem sögur fara af. Atriðið sjálft er 3 mínútur að lengd en það tók 7 daga að taka það allt, frá 77 mismunandi sjónarhornum og með 50 klippingum. Ýmsar mýtur hafa sprottið upp í kringum þetta atriði m.a. sú að Hitchcock hafi ekki leikstýrt atriðinu sjálfur heldur Saul Bass, grafískur hönnuður sem vann við myndina. Bæði Janet Leigh og kvikmyndatökumaðurinn Hilton Green báru þær sögusagnir til baka, en hins vegar hafði Bass unnið að myndhandriti fyrir þetta tiltekna atriði sem Hitchcock fylgdi samviskusamlega
Hitchcock var umhugað um að vernda stóra leyndarmál myndarinnar og sá því sjálfur um markaðssetninguna. Gagnrýnendur fengu ekki sjá hana fyrr en hún fór í almenna sýningu og eins lagði hann blátt bann við því að áhorfendur mættu seint á sýningu. Þegar gagnrýnendur fengu loksins að sjá myndina voru þeir tvístígandi varðandi gæði hennar en áhorfendur gerðu fljótt upp hug sinn og mættu í hópum.
Árið 1998 ákvað leikstjórinn Gus Van Sant að endurgera Psycho ramma fyrir ramma. Myndin sú var nákvæm eftirlíking þeirrar upprunalega nema nú var hún í lit. Enginn hefur enn skilið hvers vegna.
Þessar sýningar eru eftir á dagskrá vorannar 2011:
14. mars Psycho (1960) Alfred Hitchcock
21. mars Nikita (1990) Luc Besson
4. apríl Wild at heart (1990) David Lynch
11. apríl Fanny och Alexander (1982) Ingmar Bergman
18. apríl Cinema Paradiso (1988) Giuseppe Tornatore
25. apríl Fargo (1996) Joel og Ethan Coen
2. maí Othello: The Moor of Venice (1952) Orson Welles