Schindler's List

 

Shindler‘s list (1993)

Leikstjóri: Steven Spielberg

Handritshöfundur: Steven Zaillian

Leikarar: Liam Neeson, Ben Kingsley, Ralph Fiennes, Embeth Davidtz

Schindler‘s list er Óskarsverðlaunamynd frá árinu 1993 og segir frá þýskum  kaupsýslumanni, Oskar Schindler,  sem finnur leið til að bjarga hópi gyðinga frá útrýmingarbúðum nasista með því að ráða þá til starfa í verksmiðju sinni. 

Sagan byggir á sannsögulegum atburðum en hinn raunverulegi Oskar Schindler (Liam Neeson) var glaumgosi og tækifærissinni sem í fyrstu hafði lítin áhuga á raunum gyðinga. Hann sá sér fyrst og fremst hag og gróðavon í því að halda nasistum góðum. Sú afstaða Schindlers átti eftir breytast  eftir því sem leið á stríðið og óhugnaður helfararinnar var orðin ljós, en með því að vingast við liðsforingjann Goeth (Ralph Fiennes) tókst honum að nálgast veigamiklar upplýsingar sem gerðu honum kleift að bjarga lífi rúmlega þúsund gyðinga.

Þótt kvikmyndin fylgi ekki upprunalegu frásögninni nákvæmlega þá lagði Spielberg áherslu á að gera sögunni sanngjörn skil og draga ekkert undan í lýsingum á þeim óhugnaði sem átti sér stað. Hann réði marga afkomendur eftirlifenda helfararinnar í minni hlutverk, sem þannig upplifðu á áþreifanlegan hátt þær raunir sem formæður þeirra og feður höfðu gengið í gegnum. Þessi sterku tengsl við fortíðina áttu sennilega stóran þátt í því að þegar langt var liðið á tökur fékk Spielberg hugmyndina að hinum áhrifaríka eftirmála myndarinnar.

Myndin hlaut mikla aðsókn í kvikmyndahúsum þegar hún kom út, var tilnefnd til 12 Óskarsverðlauna og hlaut sjö, þ.á.m. sem besta myndin. Steven Spielberg hlaut jafnframt sín fyrstu verðlaun sem besti leikstjórinn. Þá er vert að minnast á stórskostlega tónlist myndarinnar sem samin er af tónskáldinu John Williams og er þegar orðin þekkt í heimi klassískrar tónlistar.

Shindler´s list verður sýnd mánudaginn 28. febrúar í Mánudagsbíóinu kl. 20 og miðaverð er kr. 300. Hægt er að nálgast miða í forsölu á vefsíðunni midi.is.

 

deila á facebook