Superman

Superman (1978)

Leikstjóri: Richard Donner

Handrit: Mario Puzo, David Newman, Leslie Newman, Robert Benton og Tom Mankiewicz

Leikarar: Christpher Reeve, Margot Kidder, Gene Hackman

Hinn geðþekki, óframfæri og myndarlegi blaðamaður, Clark Kent (Christopher Reeve), sér ekki sólina fyrir samstarfskonu sinni, Lois Lane (Margot Kidder). Það er þó einn hængur á þessari aðdáum sem gæti varnað því að Clark næði ástum blaðakonunnar íðilfögru, hann býr yfir leyndarmáli sem engan fær grunað: þegar hann tekur niður gleraugun og hristir af sér jakkafötin er hann Superman – Ofurmennið. Hann flýgur lystilega eins og fálki, lyftir heilum byggingum og sér í gegnum veggi. Þegar skúrkurinn Lex Luthor  (Gene Hackman) reynir að sökkva strandlengju Kaliforníu til að auka verðmæti eigin landareigna, þarf Ofurmennið að bregðast við.

Superman myndin átti langa og erfiða fæðingu og þegar Richard Donner var ráðinn sem leikstjóri var þegar búið að vinna stóran hluta forvinnunnar. Upprunalega handritið hafði verið skrifað af Mario Puzo og þótti Donner lítið koma til þeirrar endurskrifuðu útgáfu.  Honum þótti handritið alltof langt og ekki taka nógu alvarlega á efninu. Hann fékk því Tom Mankiewicz til að endurskrifa það frá grunni. Framleiðendurnir voru ekki sáttir, neituðu að titla Mankiewicz sem handritshöfund og var hann því einungis kallaður ráðgjafi. Upphaflega stóð til að gera Superman II samhliða Superman, og var handritið byggt upp með það í huga. Þegar tökum seinkaði og samskipti leikstjóra og framleiðanda stirðnuðu var ákveðið að ljúka Superman fyrst, og taka upp þráðinn með framhaldið ef sú fyrri yrði vinsæl. 

Superman öðlaðist vinsældir um allan heim og hlaut einnig lof gagnrýnenda. Má það að einhverju leyti þakka endurskrifuðu handriti Mankiewiczar, þar sem hann beitti fyrir sig glettnislegum húmor á kostnað í hinnar alvarlegu ímyndar sem ofurhetjan hafði. Það féll í kramið hjá gagnrýnendum sem töldu sig sjá óvænta dýpt í annars fyrirsjáanlegri  ofurhetjustórmynd. Framhaldsmyndin, Superman II, kom út tveimur árum síðar en alls voru gerðar þrjár framhaldsmyndir. Árið 2006 gerði leikstjórinn Bryan Singer nýtt framhald af Superman II undir heitinu Superman Returns. Sú mynd fékk ekki góðar viðtökur, hvort sem það voru gagnrýnendur eða áhorfendur sem fjölmenntu ekki í kvikmyndahús til að berja endurgerðina augum.

Hins vegar hefur upprunalega Superman myndin löngum þótt mikil klassík og átt sinn fasta og trygga aðdáendahóp. Það er því frábært tækifæri nú að geta séð hana aftur eða í fyrsta sinn í Mánudagsbíóinu.

Miðaverð er sem endranær 300 kr. og sýnt verður í stóra sal Háskólabíós. Sýningin hefst klukkan 20:00.

deila á facebook