The Tragedy of Othello

Othello (1952)

Leikstjóri: Orson Welles

Handrit: William Shakespeare, Orson Welles, Jean Sacha

Leikarar: Orson Welles, Micheál MacLiammóir, Suzanne Cloutier

Söguna þekkja flestir.  Stríðshetjan Othello (Orson Welles) hleypur á brott með Desdemónu (Suzanne Cloutier), dóttur hefðarfólks í Feneyjum. Förunautur hans, Lago (Micheál MacLiammóir), er hins vegar uppfullur afbrýðisemi og leitar leiða til að knésetja márann. Ofbeldi og ástríður magnast þar til hinum tragíska hápunkti er náð.

Saga kvikmyndarinnar er áratugalöng og hefst árið 1949. Welles var staðráðinn í að gera myndina eftir eigin höfði,  án nokkurra áhrifa frá kvikmyndafyrirtækjum, sem gerði það að verkum að enginn fjárfestir fékkst að henni. Hann var því tilneyddur að fjármagna hana sjálfur. Leikarar voru samtals þrjú ár í tökum í Róm, Feneyjum og Marokkó, en Welles þurfti margoft að gera hlé þegar fjármagn skorti. Á þessu tímabili lék hann í myndunum The Prince Of Foxes, The Black Horse og The Third Man til að afla nægra tekna til að geta haldið áfram með Othello. Þessi fjárskortur kom niður á gæðum framleiðslunnar, en átti á sama tíma sinn þátt í auka þau. Neyðin kennir naktri konu að spinna og Welles að vinna. Sem dæmi má nefna að  þegar engir búningar fengust fyrir atriðið þar sem Roderigo er myrtur, brá Welles á það ráð að sviðsetja það í baðhúsi og láta leikarana klæðast litlu sem engu. Þetta atriði er mjög í takt við þann stíl sem Welles beitir í gegnum myndinni, en hann gerði sér far um að framreiða söguna á myndrænan hátt með mörgum klippingum. Um leið skar hann textann mikið niður og bætti við frá eigin brjósti.

Othello var frumsýnd í Evrópu árið 1952 og hlaut Gullpálmann á Cannes verðlaunahátíðinni það árið. Þrjú ár liðu þar til myndin var sýnd í Bandaríkjunum, en Welles breytti henni lítillega fyrir þann markað. Klippingin var öðruvísi, byrjuninni breytt og aðrir leikarar voru fengnir til að lesa yfir raddir Desdemónu og Lagos. Viðtökur myndarinnar voru blendnar og töldu gagnrýnendur galla myndarinnar yfirsterkari gæðum hennar. Tíminn hefur mildað það viðhorf og 20 árum síðar var farið að tala um myndina sem meistarastykki.

Erfiðlega hefur gengið að henda reiður á réttri útgáfu myndarinnar. Fyrir það fyrsta voru gerðar tvær og árið 1992 eyddi dóttir hans,  Beatrice Welles-Smith, milljónum dollara í að lagfæra bandarísku útgáfuna. Ekki eru allir jafn sáttir við þær ákvarðanir sem teknar voru við vinnuna  og hafa bent á að eintakið sem notast var við hafi verið gallað. Ein afleiðing þessarar lagfæringar er sú að ekki er lengur veitt leyfi til að sýna aðrar útgáfur myndarinnar og segja sumir ástæðuna vera þá að dóttir Welles fær aðeins greidd höfundalaun fyrir þessa einu útgáfu.

Árið 1955 skrifaði Thor Vilhjálmsson grein í Þjóðviljann þar sem hann lýsti yfir ósk sinni og bón um að þetta „afreksverk“ yrði sýnt í íslenskum kvikmyndahúsum. Hann þurfti þó að bíða í næstum fjóra áratugi því Othello var ekki frumsýnd á Íslandi fyrr en árið 1994 þegar Hreyfimyndafélagið stóð fyrir kvikmyndahátíð í Háskólabíói tileinkaðri Orson Welles.

deila á facebook