Wild at heart

Wild at heart (1990)

Leikstjóri: David Lynch

Handritshöfundur: David Lynch (byggt á skáldsögu Barry Gifford)

Leikara: Laura Dern, Nicolas Cage, Diane Ladd, Willem Dafoe, Harry Dean Stanton

Sailor (Nicolas Cage) og Lula (Laura Dern) eru ástfangin upp fyrir haus en móðir Lulu (Diane Ladd) er hins vegar ekki sátt við sambandið, enda hafði Sailor hafnað henni. Afprýðisama móðirin skipuleggur því árás á Sailor, sem endar með því að árásarmaðurinn liggur örendur og Sailor endar í steininum. Þegar Sailor hefur setið sinn dóm tekur hann aftur saman við Lulu og þau ákveða saman að stinga af undan fjandsemi og feighug móðurinnar. Ferðlag þeirra skötuhjúa reynist síðan tryllingsleg blanda ástarfuna og ofbeldis, á meðan sturluð tengdamóðirin heldur áfram að senda morðingja á eftir elskuhuga dóttur sinnar. Hér er því full þörf á varast tengdamömmuna.   

Líkt og algengt er með myndir David Lynch er ekkert einfalt eða auðskilið við frásögnina í Wild at heart. Inn í hið klassíska vegamyndaminni blandast myndmál úr Galdrakarlinum frá Oz og andi Elvis Presleys svífur yfir og holdgervist á köflum í persónu Sailor. Ofbeldið er sleitulaust, en sjálfur hefur Lynch lýst myndinni sem leit að hamingju í helvíti. Eins og með allar torskildar myndir er Wild at heart löngu komin í hóp „költ“ mynda. Þá hefur tónlist myndarinnar spilað stóran þátt í velgegni  hennar og hylli, en þar er þekktust hin sígilda ballaða Chris Isaaks „Wicked game“.

Prufusýningar á myndinni gengu ekki vel og algengt var að fólk gengi út af henni til að byrja með. Sérstaklega fór eitt pyntingaratriði fyrir brjóstið á áhorfendum og ákvað Lynch að klippa það til áður en myndin var svo frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni. Hún hlaut góðar viðtökur þar en þegar hún vann hinn eftirsótta Gullpálma púuðu hátíðargestir. Viðbrögð gagnrýnanda í Bandaríkjunum voru á svipuðum nótum, sumir lofsungu hana á meðan aðrir rökkuðu niður, og þótt myndin hafi náð inn fyrir kostnaði, reyndist hún ekki mikil gróðamaskína fyrir framleiðandann. Enn þótti hún óhóflega ofbeldisfull, þrátt fyrir fyrri breytingar, og neyddist Lynch til að tóna hana örlítið niður fyrir Bandaríkjamarkað. Myndin var sýnd óbreytt í Evrópu. Allar DVD útgáfur af myndinni notast hins vegar við hina klipptu bandarísku útgáfu. 

deila á facebook