Mánudagsbíó

Mánudagsbíó í boði Háskólabíós og Háskóla Íslands

Í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands og hálfrar aldar afmæli Háskólabíós verða endursýndar valdar myndir úr safni kvikmyndahússins. Margar þeirra hafa ekki verið sýndar í bíói árum saman en kvikmyndasýningar í Háskólabíói hafa verið afar fjölbreyttar í gegn um tíðina. Við val endursýninga kvikmynda var leitast við að endurspegla þann fjölbreytileika þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Myndirnar verða sýndar í Stóra salnum á mánudögum, en áður fyrr var einmitt boðið upp á Mánudagsmyndir í bíóinu og því var sá dagur valinn. Haldnir verða reglulegir viðburðir á vegum kennara og nemenda Háskóla Íslands í tengslum við sýningarnar. Kvikmyndirnar sem sýndar verða eru í varðveislu Kvikmyndasafns Íslands og verða einungis sýndar einu sinni. Um er að ræða einstakt tækifæri til að sjá þessi klassísku verk í sinni upprunalegu mynd á stóru tjaldi.