Myndbönd

Vandana Shiva í Háskólabíói- fyrsti hluti

Mánudaginn 29. ágúst hélt Vandana Shiva opinn fyrirlestur fyrir troðfullum stærsta salnum í Háskólabíói. Fræðikonan og aðgerðasinninn Vandana Shiva er heimsþekkt fyrir störf sín í þágu sjálfbærrar þróunar, umhverfis og mannréttinda. Hún er mikill talsmaður lífræns landbúnaðar og er einn atkvæðamesti gagnrýnandi erfðabreytinga á nytjaplöntum í heiminum. Vandana Shiva hefur meðal annars beitt sér gegn því að fjölþjóðleg iðnaðarfyrirtæki nái yfirráðum yfir matvælaframleiðslu og gegn einkavæðingu vatns. Hún er jafnframt einn af þekktustu talsmönnum umhverfisfemínisma í heiminum og lítur svo á að baráttan fyrir jafnrétti og baráttan gegn eyðingu náttúrunnar séu tvær hliðar á sama peningnum. Hún hefur unnið ötullega að því að auka áhrif kvenna í landbúnaði og hefur m.a. skrifað skýrslu fyrir Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna um konur og landbúnað á Indlandi, þar sem hún vakti athygli á því að flestir bændur á Indlandi væru konur og því væru málefni kvenna og málefni landbúnaðarins nátengd.

deila á facebook