„Góðir kennarar eru eitthvað það dýrmætasta sem hver þjóð á!“

Ingvar Sigurgeirsson, prófessor í kennslufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

„Hvernig kenna góðir kennarar?“ er titill erindis Ingvars Sigurgeirssonar sem hann mun flytja 27. september næstkomandi. Ingvar var tekin tali á afmælisvef skólans. 

Fylgdist með kennslu í áratugi

„Ég byrjaði að fylgjast með kennslu í tengslum við námsefnisgerð upp úr 1970 en þá vann ég um skeið í skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins og heimsótti kennara sem voru að prófa nýtt námsefni. Mikil áhersla var lögð á að prófa efnið áður en það var gefið út og fór ég í skóla víða um land til að sjá með eigin augum hvernig námsefnið nýttist,“ segir Ingvar og tekur fram að hann hafi síðar fengið mikinn áhuga á „opna skólanum“ svokallaða og heimsótt marga skóla sem fylgdu þeirri hugmyndafræði. „Þetta var um og eftir 1980. Það var síðan 1986 að ég hóf að rannsaka kennsluhætti, í tengslum við dotkorsnám mitt, og varði t.d. tveimur skólaárum í að fylgjast með kennslu í tuttugu bekkjardeildum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi. Kynnti ég mér einkum kennsluhætti og hlutverk útgefins námsefnis,“ segir Ingvar.

„Einnig hef ég fengist við ytra mat á skólastarfi og fylgst með kennslu í tengslum við það. Þá gerði ég fyrir aldamótin síðustu rannsókn á háskólakennslu og tók upp á myndband tæplega 100 fyrirlestra sem ég skoðaði og greindi í leit að megineinkennum góðra fyrirlestra. Loks hef ég undanfarin þrjú ár tekið þátt í einhverri umfangsmestu rannsókn sem gerð hefur verið í grunnskólum hér á landi en það er rannsóknin Starfshættir í grunnskólum,“ segir Ingvar og tekur fram að rannsóknin nái til tuttugu skóla og að hann hafi farið í fimmtán þeirra og fylgst með rúmlega 90 kennslustundum. 

Vonast til að góðar umræður skapist

Í fyrirlestrinum „Hvernig kenna góðir kennarar?“ sem fluttur verður þann 27. september leitast Ingvar við að bregða upp svipmyndum af kennslustundum. „Ég mun segja frá minnisstæðum kennslustundum og öðru áhugaverðu skólastarfi og leitast við að bregða upp ólíkum myndum sem mér þykja vænlegar til að vekja til umhugsunar um gæði í skólastarfi. Ég vænti þess að sjálfsögðu að góðar umræður skapist í lokin. Ég mun einnig leggja það verkefni fyrir áheyrendur að rifja upp kynni af góðum kennurum og biðja þá að tengja þær minningar við það efni sem ég hef fram að færa,“ segir Ingvar og tekur fram að fyrirlesturinn sé hluti af afmælisdagskrá Menntavísindasviðs í septembermánuði.

Aðspurður hvað lýsingarorðið „góður“ feli í sér í sambandi við kennslu segir Ingvar: „Um þetta fjallar fyrirlesturinn! Það kemur vonandi ekki á óvart að svarið við þessari spurningu er ekki einhlítt – en svörin engu að síður mörg og áhugaverð! Góðir kennarar eru eitthvað það dýrmætasta sem hver þjóð á!,“ segir Ingvar að lokum.

Hér má lesa um viðburðinn á vef Háskóla Íslands

Hér má lesa um rannsóknina :Starfshættir í grunnskólum 

deila á facebook