„Maðurinn er það sem hann borðar“

Laufey Steingrímsdóttir
Laufey Steingrímsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Fyrirlestrarröð Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnsins í tilefni af aldarafmæli skólans árið 2011 lýkur með umfjöllunarefni um næringu Íslendinga fyrr og nú fimmtudaginn 24. nóvember kl 12:00. Laufey Steingrímsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og annar fyrirlesarana, var tekin tali á afmælisvef skólans.

Breytingar á daglegu fæði Íslendinga

Erindi Laufeyjar, sem hún mun flytja í sal Þjóðminjasafnsins, ber titilinn: Pitsa og hertir hausar: Matur og heilsa Íslendinga í hundrað ár. „Í fyrirlestrinum ræði ég þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið á daglegu fæði og heilsu Íslendinga síðustu hundrað árin. Svo velti ég fyrir mér hvað hafi ráðið ferðinni í þessu mikla breytingaferli matarins. Ég held að það megi ýmislegt læra af sögunni og þess vegna sé ágætt að líta af og til um öxl og kynna sér reynslu fyrri tíma. Svo finnst mér það einfaldlega skemmtilegt,“ segir Laufey.

Aðspurð um skyndibitamenninguna tekur hún fram að oft reyni fólk að finna einstaka sökudólga eða reyni að skella skuldinni á eitthvað eitt þegar rætt er um óheppilega þróun í mataræði. „Skyndibitamenningin er hins vegar bara angi í stærra samhengi, sem er stóraukið framboð á tiltölulega ódýrum og oft næringarsnauðum mat. Það er sífellt verið að reyna að selja okkur meira og meira, oftar og á fleiri stöðum, og það kemur okkur í vandræði þegar matur er annars vegar,“ segir Laufey.

„Maðurinn er það sem hann borðar“

Setningin þú ert það sem þú borðar hefur oft heyrst í umræðu manna um mataræði. Laufey tekur hins vegar fram að frasinn, sem nú sé yfirleitt hafður um mikilvægi hollrar fæðu, sé í raun upprunin á öðrum merkingarlegum forsendum. „Það var Ludwig Andreas Feuerbach sem árið 1863 sagði svo snilldarlega „Maðurinn er það sem hann borðar“ og átti þá við að matarvenjur fólks lýsi menningu þess og umhverfi. Það var svo síðari tíma túlkun, eftir að efnis- og raunvísindahyggjan varð alls ráðandi á tuttugustu öld, að setja þessi orð í eiginlega, efnislega merkingu. Þ.e. að við séum beinlínis gerð úr þeim efnivið sem við fáum úr fæðunni. Það má svo sem til sanns vegar færa, en upprunalega merkingin er ekki síður umhugsunarefni og á ekki síður við,“ segir Laufey.

Laufey tekur fram að maturinn, framleiðsla hans og neysla, komi víða við sögu mannanna og hafi mikil áhrif, félagslega, menningarlega, efnahagslega, að ógleymdum áhrifum hans á heilsu okkar og umhverfi. „Ég held að það sé tími til kominn að umfjöllun og rannsóknir á heilsu, næringu og mat taki meira mið af því að bæði matur og maður eru hluti af sama umhverfi, við þurfum þess vegna að framleiða mat sem er hollur bæði fyrir menn og jörð,“ segir Laufey að lokum.

Hádegisfyrirlestrarröðinni lýkur með tveimur fyrirlestrum í sal Þjóðminjasafnsins, annars vegar með erindi Laufeyjar og hins vegar með erindi Jóhönnu Eyrúnu Torfadóttur, næringarfræðingi og doktorsnema í lýðheilsuvísindum:
„Búseta og fæðuvenjur á fyrri hluta tuttugustu aldar og tengsl þeirra við krabbamein í blöðruhákskirtli síðar á ævinni“ kl 12:00 fimmtudaginn 24. nóvember.

Hér er hægt að lesa nánar um viðburðinn á rafrænu viðburðadagatali skólans

deila á facebook