Almenningur vill vægari refsingar en dómarar

Helgi Gunnlaugsson prófessor við Félags- og mannvísindadeild.
Helgi Gunnlaugsson prófessor við Félags- og mannvísindadeild.

Almenningur hefur ríka tilhneigingu til að vanmeta refsiþyngd dómstóla og velur sjálfur refsingu sem er yfirleitt vægari en dómara. Þetta kemur fram í niðurstöðum samnorrænnar rannsóknar sem kynnt verður í hádegiserindi á vegum Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands fimmtudaginn 13. október.

Erindið flytja þau Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við Lagadeild, og Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild, og ber það yfirskriftina „Afbrot í norrænu ljósi - afstaða almennings til refsinga á Norðurlöndum“. Þar verður, eins og nafnið bendir til, farið yfir stóra rannsókn á vegum Norræna sakfræðiráðsins á afstöðu almennings til refsinga á Norðurlöndum. Í erindinu verður samanburður Íslands við önnur norræn ríki sérstaklega skoðaður.

Norræna sakfræðiráðið er samstarfsvettvangur norrænna afbrotafræðinga sem dómsmálaráðuneyti landanna standa að og það er stjórnvöldum til ráðgjafar. Helgi og Ragnheiður eiga bæði sæti í ráðinu og gegnir Ragnheiður formennsku í því nú um stundir.

Helgi bendir á að oft heyrist að refsingar séu alltof vægar og ósjaldan vísað í almenningsálitið. Rannsóknin sýni annað. „Í rannsókninni var nokkrum aðferðum beitt til að varpa ljósi á viðfangsefnið. Atvikslýsingar voru gerðar af sex alvarlegum afbrotamálum og dómarahópur settur saman sem felldi dóm sem líklegur væri í hverju landi fyrir sig. Sama atvikslýsing var síðan send til almennings með pósti og þátttakendur spurðir hvaða dóm þeir teldu líklegan hjá dómstólum og hvaða dóm þeir sjálfir vildu sjá. Að lokum voru settir saman rýnihópar sem tóku eitt af þessum málum fyrir og fóru gaumgæfilega gegnum það m.a. með hjálp leikins myndbands af réttarhöldunum og umræðna,“ segir Helgi.

„Niðurstöður sýna að almenningur hefur ríka tilhneigingu til að vanmeta refsiþyngd dómstóla og velur sjálfur refsingu sem yfirleitt er vægari en dómaranna. Eftir því sem þátttakendur fá meiri upplýsingar um málin, fleiri valkosti að velja úr með tilliti til refsinga og nálægðin við aðila málsins verður meiri, virðist því draga úr refsigleði almennings,“ segir Helgi enn fremur.

Ragnheiður og Helgi kynna rannsóknina og Norræna sakfræðiráðið í stofu 101 í Odda kl. 11:35-12:30 fimmtudaginn 13. október. Erindið er liður í hátíðahöldum Félagsvísindasviðs í október í tengslum við aldarafmæli Háskóla Íslands. Það er öllum opið meðan húsrúm leyfir. Hér er hægt að kynna sér viðburðinn í viðburðadagatali skólans.

deila á facebook